131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[21:43]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það má vel vera trú hv. þingmanns Halldórs Blöndals að við værum hér lepjandi dauðann úr skel ef ekki hefði komið til hin erlenda stóriðja. Það er þá öll trúin og öll virðingin sem hv. þingmaður ber fyrir öðru atvinnulífi í landinu, fyrir öðrum atvinnugreinum, fyrir nýjum atvinnugreinum sem hafa verið að blómstra hér í þessu landi. Það er eins og þær skipti allar saman engu máli, að það sé ekkert nema stóriðjan sem hafi nokkurn tímann fært hér nokkra björg í bú. (HBl: Hvað segir þingmaðurinn um stóriðju ...) Ég sagði ekki, hv. þingmaður, að Hjörleifur Guttormsson væri helsti brautryðjandi stóriðju í landinu. Það var útúrsnúningur hv. þingmanns. (Gripið fram í.) Það sem ég sagði var að það væri Hjörleifi Guttormssyni öðrum mönnum fremur að þakka að það tókst að knýja fram hækkanir (Gripið fram í: Gróða?) á raforkuverðinu frá Straumsvík til Landsvirkjunar. Það var sú sögulega staðreynd sem ég var hér að rifja upp og hún stendur. Hún verður ekki hrakin. Hún er algerlega borðleggjandi.

Varðandi afstöðu manna hér fyrr á tíð til erlendrar stóriðju þarf ég í sjálfu sér ekki að svara hér fyrir. Ég þarf ekki að svara hér fyrir menn sem voru í öðrum flokkum á annarri öld. Varðandi megináherslu vinstri manna og þeirra sem andæfðu stóriðjunni eins og að henni var staðið á tímum Búrfellsuppbyggingarinnar þá hygg ég að þeir hafi haft þá afstöðu að þeir væru á móti orkuútsölu til erlendrar stóriðju og að þeir vildu að Íslendingar sjálfir hefðu frumkvæði að uppbyggingu iðnaðar til að nýta orkuna. Ætli þetta sé nú ekki nokkurn veginn að láta þessa menn njóta sannmælis, auk þess sem margir þeirra höfðu áhyggjur af umhverfinu þá þegar. Þegar svo forseti Alþingis, virðulegur þingmaður Halldór Blöndal, kemur hér með Jósef Stalín eina ferðina enn til þess að reyna nú að hengja þann kóna ofan á mínar herðar þá dæmir það sig sjálft. Aumingja blessaður maðurinn að hafa nú ekkert málefnalegra að leggja inn í umræður um þetta mál en að nefna til sögunnar þann níðing (Gripið fram í.) sem var afhjúpaður í ræðu austur í Moskvu þegar ég var á fyrsta aldursári.