131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[22:22]

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Herra forseti. Við ræðum frumvarp sem er afleiðing breytinga á raforkumarkaði sem er afkvæmi Framsóknarflokksins. Það er mjög sérstakt að verða vitni að því í dag og í allri umræðunni að enginn framsóknarmaður skuli taka til máls vegna þess að ég hélt einmitt að þeir væru stoltir að koma hingað og leiðrétta umræður, því menn hafa ítrekað bent á að breytingarnar valda mikilli hækkun á þeim sem síst skyldi sem er afleiðing stefnu hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, um að koma á einhverri markaðsvæðingu í þessum geira. Vel að merkja er þetta markaðsvæðing opinberra fyrirtækja þar sem fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks sitja að mestu leyti.

Það er óverjandi að senda fólki þessa reikninga sem eru óskiljanlegir. Ég er með rafmagnsreikning frá Rafmagnsveitu ríkisins sem var sendur manni á níræðisaldri á Skagaströnd sem sýnir 160% hækkun vegna hins nýja fyrirkomulags á raforkumarkaði og frumvarpið um skattlagningu mun enn auka á hækkunina. Ég krefst þess að framsóknarmenn sýni dug og útskýri fyrir fólki sem hlýðir á umræðuna hvað sé í gangi. Ég sé að hv. þm. Dagný Jónsdóttir er í salnum og hún getur ef til vill útskýrt þetta. Hvers vegna er verið að senda fólki þessa háu reikninga með 160% hækkun?

Starfsmaður Rariks hafði samband við mig og sagði að þetta væri misskilningur, að þetta væri ekki svo mikil hækkun. En hvers vegna skýrir hann það þá ekki út fyrir fólkinu sem er að fá reikningana? Maður á níræðisaldri er að fá reikninga með 160% hækkun. Það skilur enginn neitt í þessu, enda hefur það m.a. komið fram í samtölum og bréfasendingum að ekki er útséð um hver hækkunin er. Samt sem áður ætlar Framsóknarflokkurinn að hækka meira, enn og aftur, og maður furðar sig á því hversu langt á að ganga gagnvart fólki á landsbyggðinni vegna þess að þeir sem greiða hæstu orkureikningana munu einmitt verða mest fyrir barðinu á þessu. Ég skora á hv. stjórnarþingmenn að greiða atkvæði með breytingartillögu okkar í Frjálslynda flokknum sem byggir á því að skattskyldan muni ekki koma til framkvæmda fyrr en árið 2012. Þá er hægt að sjá fyrir endann á þeirri vitleysu sem nú er uppi, senda 18 blaðsíðna reikninga.

Fólk af Snæfellsnesinu hafði samband við mig í dag. Kannski er það misskilningur en það er að fá 25% hækkun. Ég tel miklu frekar að stjórnarþingmenn ættu að koma í veg fyrir misskilning og útskýra fyrir fólki hvað sé í gangi. Hvers vegna er verið að hækka svona mikið? Hæstv. iðnaðarráðherra var í þessum ræðustól og talaði um einhverja 100 kr. hækkun, en því miður var það ekki 100 kr. hækkun, það var ekki 1.000 kr. hækkun heldur tugþúsund kr. hækkun á neytendur landsins. Ég botna ekki í því hvað er í gangi. Svo þegar lagt er fram frumvarp um að fresta þessu liggur svo á að hækka verðið og koma á auknum sköttum að það er ekki við neitt ráðið. Maður fer að halda að þingmönnum stjórnarinnar sé ekki sjálfrátt í hækkunaráráttu á fólkið, nema það sé misskilningur að verið sé að hækka raforkuna um 25% á Snæfellsnesi eins og fram hefur komið í umræðunni og símtali. Það var hringt í mig í kvöld. Það er verið að hækka um 20–25%. Þetta er algerlega óskiljanlegt.

Sjálfstæðismenn hafa komið hér, og verður að virða það, og reynt að verja skattahækkunina. Að vísu vitnuðu þeir í Hjörleif Guttormsson, það voru helstu rökin, og í löngu genginn mann, Jósef Stalín, sem var fæddur á 19. öld og dáinn um miðja 20. öld eftir því sem ég best veit. Það eru helstu rök Sjálfstæðisflokksins fyrir skattahækkuninni. Maður skilur ekkert í því að menn komi ekki og reyni að útskýra hvað liggur á og af hverju menn láta ekki breytingarnar á raforkumarkaðnum ganga yfir áður en Sjálfstæðisflokkurinn fer í enn eina skattahækkunina. En búið er að boða aðra skattahækkun. Það er verið að hækka dísilolíuna, það á að setja á hana mikla skatta sem er hluti af skattaáráttu Sjálfstæðisflokksins. Þegar ég sé hv. þm. Dagný Jónsdóttur í salnum minnir það mig á skólagjöldin sem var eitt af baráttumálum Framsóknarflokksins um síðustu áramót, að hækka þau, það voru álögur sem voru hækkaðar á almenning og svo má lengi telja.

Að vísu voru skattar eitthvað lækkaðir hjá þeim sem hafa hæstu tekjurnar. Ekki var farin sú leið sem við í Frjálslynda flokknum og stjórnarandstaðan vildum fara, að hækka skattleysismörkin. Nei, skattprósentan var lækkuð eitthvað lítillega og það er mjög sérstakt. Þegar verið að ræða skattaáráttu Sjálfstæðisflokksins hvað varðar raforku, dísilolíu, skólagjöld og áfengisgjöld, skerðingu vaxtabóta og hækkun á aukatekjum ríkisins, veltir maður fyrir sér hvernig standi á þessu. Jú, staðreyndin er sú að umsvif hins opinbera hafa aldrei verið meiri en nú og hafa aukist gríðarlega í valdatíð Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn sem segist ætla að minnka báknið hefur á síðustu dögum þingsins boðað að setja á stofn nýja ríkisstofnun, Ferðamálastofu, sem á að hafa eftirlit líkt og Fiskistofa. Auðvitað kostar þetta fjármagn og það er verið að taka það af m.a. þeim sem nota rafmagn og skattleggja þá sem nota dísilolíu á bíla sína.

Það gengur ekki að boða skattalækkanir á sama tíma og verið er að auka útgjöld ríkissjóðs sem hlutfall af vergri þjóðarframleiðslu. Það er staðreynd sem blasir við öllum að ef menn ætla að draga úr tekjum ríkissjóðs verður að draga úr útgjöldum. Það þýðir ekki að auka útgjöld og ætla að draga úr tekjum. Það gengur ekki upp. Ég vona sannarlega að Sjálfstæðisflokkurinn fari að átta sig á að það gengur ekki að blása út báknið á sama tíma og draga á saman tekjurnar, en sú er raunin að þó að tekjuskattsprósentan sé lækkuð lítillega þá er klipið af annars staðar. Verið er að hækka rafmagnið, hækka skattana á orkufyrirtækin og dísilolíuna, komugjöld á heilbrigðisstofnanir eru hækkuð, vaxtabætur eru lækkaðar og eitt og annað gert til að ná upp í gatið. Það er raunin.

Snúum okkur aftur að raforkunni. Það er mjög sérstakt að boða hér markaðsvæðingu þar sem um er að ræða opinber fyrirtæki og þegar hlutaðeigandi forstjórar, sumir hverjir, eru allt í einu komnir í markaðsumhverfi sjá þeir náttúrlega ekkert annað en hækkun, að það þurfi að hækka. Nú er verið að gefa þeim enn eina ástæðuna fyrir því að hækka þegar verið að skattleggja orkufyrirtækin. Auðvitað má skoða það seinna meir þegar þessar breytingar eru gengnar yfir en það er miklu nærtækara nú að láta þessar breytingar á raforkumarkaðnum ganga yfir, fyrst farið var í þær á annað borð, heldur en að fara þá að skattleggja. Maður skilur ekkert í þessu.

Staðreyndin er sú að hinn svokallaði samkeppnismarkaður í raforkunni er í rauninni einungis lítið brot af öllum orkumarkaðnum, um 10% eru samkeppnismarkaður. Hitt verður allt selt í föstum samningum sem ekkert verður hreyft við. Öll skattlagningin á raforkuna mun því lenda á þessum 10%, á neytendum í landinu, minni fyrirtækjum og venjulegum fyrirtækjum. Það verður ekki hreyft við föstu stóriðjusamningunum. Auðvitað er ekki skynsamlegt á meðan þessar breytingar ganga yfir, svokölluð markaðsvæðing, að gefa enn eina ástæðu til að hækka raforkuna.

Það er margt sem bendir til þess og öll rök hníga að því að ef allt væri í lagi, ef ekki væri pottur brotinn hvað varðar verðmyndun á orkunni, raforkunni sérstaklega, þá ætti orkuverð að lækka en ekki hækka til almennings. Þjóðin er að eignast öflugar og betri virkjanir sem ætti að leiða til þess að skila neytendum landsins hagstæðara orkuverði. Þess vegna þarf í rauninni að fara ofan í saumana á því hvers vegna við sjáum ekki lægra orkuverð. Það væri mjög athyglisvert ef þingmenn stjórnarinnar kæmu í þá umræðu og útskýrðu fyrir fólkinu í landinu hvers vegna orkuverð til almennings lækkar ekki heldur hækkar jafnvel um tugi prósenta, ríkisfyrirtæki eru að senda óskiljanlega orkureikninga, jafnvel upp á 18 blaðsíður, til fólks víða um land sem fela í sér 160% hækkun. Þetta er óskiljanlegt. Það er kominn tími til að stjórnarþingmenn og hæstv. iðnaðarráðherra útskýri fyrir þjóðinni hvað er í gangi. Það skilur enginn hvað er í gangi. Ástæðan er e.t.v. sú að gerðir hafa verið óhagstæðir samningar við stóru iðnfyrirtækin. Ég sit í iðnaðarnefnd og þar kom fram á fundi að allar líkur bentu til þess að rafveiturnar, sem eru stórir kaupendur, séu að greiða allt að þrisvar sinnum hærri upphæð en stóriðjan. Hvernig stendur á því? Hver er munurinn á því að selja rafveitu, Rarik, mikla orku á einu bretti eða einhverju ágætu álveri? Hvernig er hægt að útskýra að það kosti þrisvar sinnum meira að selja stórnotanda sem heitir Rarik sömu orku og verið er að selja einhverju álveri? Það er alveg óskiljanlegt.

Ég sakna þess enn, og ég vona að bætt verði úr því, að framsóknarmenn komi og útskýri hvað sé í gangi því að staðreyndin er sú að fólk um land allt skilur þetta ekki. Það er löngu tímabært að Framsóknarflokkurinn útskýri fyrir fólki sem er að fá rafmagnsreikninga frá flokknum og hæstv. iðnaðarráðherra inn um dyralúguna hvað sé í gangi. Hvers vegna er það að borga 20% hærra verð fyrir orkuna? Hvar er hagræðingin í þessu kerfi? Hvenær fer hinn almenni notandi í Grundarfirði, á Skagaströnd, Borðeyri og víðar að sjá lækkaðan orkureikning en ekki hækkaðan orkureikning frá hæstv. iðnaðarráðherra? Ég vonast til þess að þeir orkugreiðendur sem fara næstu daga með reikninginn sinn í banka til að greiða hann minnist þess hver sendi þeim reikninginn. Það eru Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn sem eru að fara í einhverja markaðsvæðingu sem er í rauninni hvorki fugl né fiskur vegna þess að aðeins er verið að markaðsvæða lítið brot af orkumarkaðnum og allur kostnaður sem því fylgir lendir á neytendum. Það er óskiljanlegt og ég skora enn og aftur á fólk sem er að fara með reikninginn að minnast þess hver sendi þeim reikninginn. Það er í raun og veru enginn annar en hæstv. iðnaðarráðherra, Valgerður Sverrisdóttir.