131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[22:59]

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, það er rétt skilið hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni, að þetta var mín meining. Ég get tekið undir þau sjónarmið sem hann setur fram um húshitun með rafmagni. Ég held að þeir sem hafa kynnt sér hinn gríðarlega kostnað við að kynda hús sums staðar í landinu hafi skilning á því að slíkan kostnað er ekki hægt að leggja á fólk. Við hljótum að þurfa að koma að því úr sameiginlegum sjóðum landsmanna og gerum það auðvitað með niðurgreiðslum á húshitunarkostnaði. Því eru engin efni til að skattleggja þá starfsemi sérstaklega því að af henni er enginn arður eins og staðan er í dag.