131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[23:22]

Kristján L. Möller (Sf):

Herra forseti. Við ræðum við 2. umr. frumvarp um skattskyldu orkufyrirtækja sem hefur verið í vinnslu í efnahags- og viðskiptanefnd. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hefur gert grein fyrir afstöðu samfylkingarfólks í nefndinni með nefndaráliti sem hann rakti í dag. Þar er m.a. rætt um hinar miklu hækkanir sem hafa átt sér stað eftir breytinguna sem gerð var á raforkulögum um aðskilnað milli framleiðslu, flutnings og dreifingar og sölu á raforku, en einnig var þá gerð markaðsleg arðsemiskrafa á rekstur þeirra sem var að vísu tala sem var sett frekar lág eftir baráttu manna. Á þeim tíma var það álit allra sérfræðinga og annarra sem m.a. komu fyrir iðnaðarnefnd sem ég átti þá sæti í að prósentutalan hvað varðaði arðsemiskröfu væri það mikilvægasta. Á þessum tíma var líka talað um að raforkuhækkun gæti í mesta lagi orðið 1–2%. Út frá þeim gögnum byggði ég m.a. þá afstöðu mína að styðja þau lög sem þar voru sett fram e.t.v. illu heilli og vegna þess að komið hefur á daginn að gögn og annað sem til nefndarinnar barst var rangt. Sagt er að brennt barn forðist eldinn og þess vegna segjum við samfylkingarfólk: Ekki meir, ekki meir. Hingað og ekki lengra. Við teljum óráðlegt að ráðast í aðrar umfangsmiklar breytingar á umhverfi orkufyrirtækja áður en fullkomin áhrif nýrra raforkulaga verða komin í ljós.

Talað var um samkeppni og ég held að ég hafi sagt í umræðu um raforkulögin að það er ákaflega sérstakt að við skulum vera að búa til þennan mikla lagabálk um samkeppni á raforkumarkaði þegar aðeins er verið að tala um 10% af heildarframleiðslu raforku á Íslandi þegar Kárahnjúkavirkjun verður komin í notkun. En því miður töldu menn sig þurfa að ganga þessa göngu. Það kom m.a. fram að ekki væri hægt að fá undanþágu frá apparatinu í Brussel vegna þessara mála. En ég legg höfuðáherslu á það, virðulegi forseti, að í þeim gögnum sem bárust iðnaðarnefnd m.a. frá iðnaðarráðuneyti, Orkustofnun og öðrum og aðilum sem komu til fundar við nefndina var aldrei varað við því að það mundi gerast sem svo er að koma á daginn nú með raforkuhækkun. Kannski má segja sem svo að það sé Alþingi til vansa að gögnin skuli ekki vera betri. Mér er ákaflega minnisstætt þegar ég ásamt nokkrum öðrum nefndarmönnum í iðnaðarnefnd reyndum að fá til nefndarinnar aðila sem ekki höfðu komið að undirbúningi og gerð frumvarpsins á sínum tíma. Það var þrautin þyngri að finna aðila hér á þessu landi til að koma óvilhallir fyrir nefndina hvað þetta varðar. Mér er ákaflega minnisstætt þegar við héldum að við værum komnir með aðila frá háskólanum en það kom svo á daginn, virðulegi forseti, að þeir höfðu líka verið í undirbúningsvinnu við að búa til það frumvarp. Þetta vildi ég segja í upphafi vegna þess að það er ákaflega mikilvægt að það komi fram að aldrei var varað við því að það gæti gerst sem svo hefur komið á daginn að er að gerast í sambandi við raforkuhækkun (Gripið fram í.) sem ég ætla að koma síðar að og fjalla um. Meðal annars ætla ég að gera að umtalsefni hér það sem birst hefur í blöðum um miklar hækkanir, en svo kemur í ljós að þær eru ekki eins háar og þar var talað um. Samt sem áður eru þær miklu meira en nóg fyrir þá íbúa sem þurfa að fá þessa holskeflu yfir sig.

Ég ætla líka að segja, virðulegur forseti, að það er með ólíkindum að menn skuli hafa hugarflug til þess að ætla að skattleggja hitaveitur og vatnsveitur með raforkufyrirtækjunum og er mér hulin ráðgáta hvernig þeir geta talað um að samkeppni verði og að verið sé að búa til samkeppni í sölu á heitu vatni. Alla vega get ég ekki ímyndað mér að Hitaveita Suðurnesja, svo tekið sé dæmi, muni fara að selja heitt vatn norður á Siglufirði eða annars staðar þó svo að þar renni heitt vatn í pípum. En það getur hins vegar gerst með raforkuna og allt það. Það er alveg með ólíkindum hvernig menn ætla að setja þetta saman.

Virðulegi forseti. Upp í huga minn kemur annað atriði þar sem mér finnst stjórnarmeirihlutinn vera að troða í gegnum Alþingi samþykktum og breytingum á ýmsum lögum þar sem hlutirnir eru ekki sagðir réttum orðum eða kannski allt er ekki sagt. Kemur þá upp í hugann breyting á þungaskattskerfi yfir í olíugjald og að olíugjaldið verði í 45 kr. eins og stendur í frumvarpinu. Ég gat hvergi lesið það, virðulegi forseti, að ofan á þessar 45 kr. mundi leggjast virðisaukaskattur sem m.a. gerir það að verkum að olían mun 1. júlí næstkomandi fara upp í 111–113 kr. lítrinn og verða töluvert dýrari en bensín. Sá ávinningur sem menn ætluðu að ná með olíugjaldinu, þ.e. fjölga litlum dísilbílum í landinu, mun því engan veginn ganga eftir. Leigubílstjórar t.d. sem keyra 70–80 þús. km á ári eiga eftir að fá á sig 500–600% hækkun 1. júlí næstkomandi og er alveg stórfurðulegt að sitja í bíl og heyra leigubílstjóra sem eru að fara að endurnýja bíla sína panta sér bensínbíla. Ég segi þetta hér, virðulegi forseti, sem dæmi um það hvernig mál fara hér í gegn. Ef menn hafa ekki töluvert mikið hugarflug og séu töluvert mikið að láta sér detta í hug hvaða smugur geta verið þarna inni þá getur svona löguðu verið smyglað inn.

Ég minnist þess, virðulegi forseti, þegar forstjórar orkufyrirtækja á höfuðborgarsvæðinu geystust fram í fjölmiðla og töldu að með raforkulögum væri verið að hækka raforkureikning höfuðborgarbúa um 15, 20 og upp í 30%. Síðan hefur það ekki gengið eftir. Ég sagði áðan að sú breyting sem þarna var gerð hafi haft mjög alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir íbúa í dreifbýli, nokkra íbúa í þéttbýli, fólk sem notar rafmagn til að hita híbýli sín.

Ég sagði áðan að alls konar sögur hefðu birst m.a. í dagblöðum. Á Skagaströnd að mig minnir voru reikningar upp á einar 18 blaðsíður en seinna kom í ljós að það var fyrir nokkrar eignir. Hækkunin þar var talin mjög mikil en búið að leiðrétta það að mér skilst þannig að hún er ekki eins há lengur. Það er erfitt að meta hver hækkunin er nákvæmlega því Rafmagnsveitur ríkisins lesa af á misjöfnum tíma og rukka fyrir það sem búið er að eyða yfir veturinn en sumarnotkunin, sem er lægri, er ekki komin inn.

Það sem er óyggjandi, virðulegi forseti, um hækkun er útprentun frá Rarik fyrir einn viðskiptavin þess fyrirtækis í þessu tilfelli á norðausturhorni landsins, á Raufarhöfn, þar sem Rarik var beðið um að reikna út miðað við nýju taxtana hvað viðkomandi orkukaupandi þyrfti að borga fyrir að hita hús sitt eftir breytinguna. Það er 25% hækkun, úr rúmum 160 þús. kr. í rétt tæpar 205 þús. kr. Þetta eru útreikningar miðað við sömu gefnu forsendur, eyðslu upp á tæpar 55 þús. kwst. á ári sem er mikil notkun og höfum það í huga að sú kwst. notkun lækkar niður í 30 þús. kwst. sem nýtur niðurgreiðslu frá ríkissjóði, vegna þess að þegar hæstv. iðnaðarráðherra var að reyna að krafsa yfir verk sitt, ætla ég að segja, var talan lækkuð og bættust við 100 millj. kr. vegna þess að sjálfstæðismenn voru ekki tilbúnir að veita hærri upphæð í niðurgreiðslupottinn að mér skilst á framsóknarmönnum. Þetta gerir það að verkum að íbúarnir fá hinar miklu hækkanir á sig. Og það eru sannarlega kaldar kveðjur frá Framsóknarflokknum og hæstv. iðnaðarráðherra, sem er jafnframt ráðherra byggðamála, til fólks sem er að fá þessa reikninga inn til sín núna og er að sjá hækkanir í þessum dúr. Hinar köldu kveðjur eru studdar af Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokkurinn er m.a. að senda bændum svona reikninga vítt og breitt um landið. Þetta eru hryllilegar kveðjur Framsóknarflokksins til bænda, sem menn hafa stundum talið að tengdust saman. Því miður fær oft eldra fólk reikningana sem býr kannski í töluvert stóru húsnæði sem getur verið illa einangrað og það þýðir ekkert fyrir hæstv. iðnaðarráðherra að segja að það eigi að hjálpa fólki að meta hvernig það eigi að einangra hús sín og bæta það til þess að lækka orkureikninginn vegna þess að það getur kostað hundruð þúsunda að einangra hús sín betur og það tekur langan tíma að borga niður þá fjárfestingu.

Mér er kunnugt um íbúa á Raufarhöfn sem sótti um lán til Íbúðalánasjóðs til að skipta um glugga í húsi sínu til að spara orku en fékk höfnun vegna þess að það væri ekki veð fyrir því. Þess vegna vara ég við samþykkt frumvarpsins, um skattlagningu orkufyrirtækja, líkt og fulltrúar Vinstri grænna, Frjálslynda flokksins og Samfylkingar hafa gert. Eins og fram kemur í nefndaráliti minni hlutans væri þetta um 1 milljarður kr. árið 2002 og 2003 sem fyrirtækin hefðu borgað í tekjuskatt til ríkissjóðs sem auðvitað hefði verið tekinn og lagður ofan á neytendur í viðbót. Svo kemur hæstv. félagsmálaráðherra og gumar af einhverjum peningagjöfum til sveitarfélaganna í landinu. Það sem gefið er með vinstri hönd er tekið jöfnum höndum með þeirri hægri. Árásargirni hæstv. ríkisstjórnar á íbúa landsbyggðarinnar og sveitarfélögin í landinu er með ólíkindum og kemur allt fram í ágætu nefndaráliti þeirra hv. þingmanna Lúðvíks Bergvinssonar og Jóhönnu Sigurðardóttur. 1 milljarður kr.

Virðulegi forseti. Ég vara enn einu sinni við samþykkt frumvarpsins og ég trúi því ekki að hv. stjórnarþingmenn sem tilheyra ríkisstjórnarflokkunum ætli enn einu sinni að standa að slíkum árásum á íbúa landsbyggðarinnar sem þetta er vegna þess að þeir skattar sem fyrirtækin þurfa að borga munu skila sér í hækkun orkuverðs. Nóg er komið af álögum á þá íbúa landsbyggðarinnar sem þurfa að nota raforku til að hita hús sín, hafa notið niðurgreiðslna hingað til en fá þær lægri en áður og minni ég nú á þann tíma sem er á klukkunni.