131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[23:41]

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er bara misminni. Hv. þingmaður hefur þá ekki heyrt rétt og hlustað eftir. Við vöruðum mjög rækilega við þessu og sögðum að mikilvægt væri að orkufyrirtækin yrðu í eigu ríkis og sveitarfélaga eða almannafyrirtækja þannig að þessi staða kæmi ekki upp.

Við börðumst einmitt gegn arðsemiskröfunni. Hugsið ykkur t.d. Orkubú Vestfjarða sem nú síðast við tilskipunina vildi stilla arðsemiskröfu sinni í fullkomið lágmark og er knúið til þess af Orkustofnun, sem er eftirlitsaðilinn af hálfu iðnaðarráðherra, að hækka arðsemiskröfuna vegna þess að það er krafa að á næstu árum hækki arðsemiskrafan stig af stigi. Hver ætlar að borga það? Það eru neytendur. Við erum því enn bara í fyrsta fasa af hækkunarferlinu og við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum rækilega bent á reynslu annarra þjóða í þessum efnum. Það á eftir að koma enn meira fram þegar farið verður að keyra inn á hagræðinguna, sem bitnar á afhendingarörygginu. Við erum því bara í fyrsta fasa og ég fagna því, herra forseti, að hv. þm. Kristján L. Möller og aðrir góðir þingmenn Samfylkingarinnar séu að koma í hóp með okkur þingmönnum Vinstri grænna, þó að seint sé, og berjist gegn markaðsvæðingunni og hinni gríðarlegu hækkun raforkuverðs sem kemur í kjölfar aðgerða ríkisstjórnarinnar og er rétt að byrja.