131. löggjafarþing — 118. fundur,  26. apr. 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[23:43]

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður nefnir arðsemiskröfuna. Ég varaði mjög við því að menn mundu spenna upp arðsemiskröfuna, sem einn af fulltrúum Samfylkingarinnar í iðnaðarnefnd. Mér dettur í hug í þessum töluðum orðum að við reyndum mikið í iðnaðarnefnd að fá uppgefið hvað Landsnet yrði verðlagt á í raforkukerfinu. Það var útilokað að fá þau gögn. Ég fullyrði að þau gögn voru til á þeirri stundu þó við í iðnaðarnefnd gætum ekki fengið þau vegna þess að þær tölur komu ótrúlega fljótt fram eftir gildistöku laganna.

Við fulltrúar Samfylkingarinnar vöruðum einnig mjög við að arðsemiskrafan yrði spennt upp vegna þess að þá ræddu menn fyrst og fremst um það hver arðsemiskrafan yrði. Ef hún yrði spennt of hátt mundi þetta hækka, annars væri hún að sjálfsögðu lægri og það var m.a. það sem fulltrúar orkufyrirtækjanna á höfuðborgarsvæðinu litu til.

Má ég líka minna á það, virðulegi forseti, að það var ákaflega furðulegt þegar Rarik setti orkustundir sínar á 3,40 kr. en var skikkað til að hækka það upp í 3,65 kr. vegna þess að annars mundu þeir ekki njóta neins úr niðurgreiðslupottinum. Það var ákaflega furðulegt.

Virðulegi forseti. Vegna þess að hv. þingmaður nefnir þetta allt saman hef ég sagt það og sagði það í umræðu um lögin að það voru fögur markmið með raforkulagabreytingunni eins og um jöfnun raforkuverðs og annað slíkt. Það voru fögur markmið sem hafa því miður ekki gengið eftir. Þar bera auðvitað stjórnarflokkarnir höfuðábyrgð, m.a. það að koma ekki til iðnaðarnefndar með þau gögn sem svo hafa komið eftir á sem urðu þess valdandi að hinar miklu hækkanir eru að ganga yfir íbúa landsbyggðarinnar.