131. löggjafarþing — 118. fundur,  27. apr. 2005.

Vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum.

495. mál
[00:05]

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég efast ekki um að samviska Halldórs Blöndals hlýtur að vega þyngra ef hún er sett á vogarskál og hinum megin vísindatillögur Náttúrufræðistofnunar. Það er út af fyrir sig dónaskapur að halda öðru fram.

Varðandi hrafninn og endurnar þá er það að segja að mikilvægt er, þegar menn ræða lög og sérstaklega þegar þeir leggja fram frumvarp, að þeir skilji anda laganna. Munurinn á hrafninum annars vegar og öndunum hins vegar í þessum lögum er sá að endurnar eru friðaðar, að vísu með heimildum ráðherra til þess að afnema þá friðun. Það er hrafninn ekki. Það eru fuglar og dýr í þessum lögum sem ekki eru friðuð. Þess vegna væri nær að ræða sérstaklega málefni hrafnsins en andanna, ef við erum að tala um lagabreytingar, vegna þess að ráðherra hefur fyrir heimildir til að alfriða þær endur sem ráðherra vill, að fengnum tillögum að vísu frá Náttúrufræðistofnun og Umhverfisstofnun. Ráðherra hefur ekki heimild til þess að friða hrafninn, hvorki á svæðum á einhverjum tímabilum, eða með nokkrum einasta hætti, nema með sérstakri lagabreytingu. Þess vegna tel ég að nær væri að tala um hrafn og reyndar fleiri skepnur en endur.