131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Minnst látins fyrrverandi alþingismanns.

[10:30]

Forseti (Sólveig Pétursdóttir):

Helgi Bergs, verkfræðingur og fyrrverandi alþingismaður, andaðist í fyrrinótt, aðfaranótt fimmtudags 28. apríl, áttatíu og fjögurra ára að aldri.

Helgi Bergs var fæddur 9. júní 1920 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Helgi Bergs forstjóri og Elín Jónsdóttir Bergs, fædd Thorstensen, húsmóðir. Hann lauk stúdentsprófi í Menntaskólanum í Reykjavík 1938 og prófi í efnaverkfræði í Tækniháskóla Danmerkur í Kaupmannahöfn 1943. Að prófi loknu var hann deildarverkfræðingur við skólann 1943–1945, sinnti þar rannsóknum. Árin 1945–1952 var hann verkfræðingur hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í Reykjavík, forstöðumaður tæknideildar þess frá 1948, einkum við skipulagningu ullar- og fiskiðnaðar samvinnufélaganna, hafði meðal annars umsjón með endurbyggingu ullarverksmiðjunnar Gefjunar á Akureyri og skipulagningu dreifikerfis Olíufélagsins hf. Hann var framkvæmdastjóri iðnsýningarinnar í Reykjavík 1952. Verkfræðingur hjá Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna við skipulagningu hraðfrystihúsa í Tyrklandi var hann 1953–1954, formaður Íslenskra aðalverktaka sf. 1954–1960 og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra samvinnufélaga 1961–1969. Hann var bankastjóri Landsbanka Íslands 1971–1988.

Helga Bergs voru falin ýmis trúnaðarstörf jafnframt aðalstarfi og skal hér getið nokkurra þeirra. Hann var í bankaráði Iðnaðarbankans 1953–1959 og í stjórn Iðnaðarmálastofnunarinnar 1962–1966. Í miðstjórn Framsóknarflokksins var hann frá 1962 og ritari flokksins 1962–1972. Hann var í stjórn Fiskveiðasjóðs 1971–1972, 1978–1980 og 1982–1986. Formaður stjórnar Viðlagasjóðs var hann 1973–1976. Hann var formaður stjórnar Rafmagnsveitna ríkisins 1974–1978 og formaður Bessastaðanefndar 1989–1998.

Í alþingiskosningunum 1963 var Helgi Bergs kjörinn þingmaður Framsóknarflokksins í Suðurlandskjördæmi, átti sæti á Alþingi til 1967. Í haustkosningunum 1959 og kosningunum 1967 hlaut hann sæti fyrsta varaþingmanns flokksins í kjördæminu, tók þá sæti á sex þingum, sat á tíu þingum alls.

Helgi Bergs hlaut staðgóða menntun undir ábyrgðarmikið ævistarf. Verkfræðikunnátta hans nýttist honum vel í forustu við verklegar framkvæmdir á ýmsum sviðum. Starfsferill hans, sem hér hefur verið rakinn að nokkru, sýnir það traust sem hann naut til vandasamra verka.

Helgi Bergs komst til frama í flokki sínum, Framsóknarflokknum. Á Alþingi átti hann sæti í efri deild og var í sjávarútvegsnefnd, fjárhags- og viðskiptanefnd og iðnaðarnefnd deildarinnar. Hann lét einkum til sín taka efnahags- og atvinnumál og málefni samvinnuhreyfingarinnar voru honum jafnan hugleikin.

Mannkostir hans og dugnaður komu einkar vel í ljós þegar hann valdist til forustu Viðlagasjóðs sem var stofnaður til að bæta tjón af völdum eldgossins í Vestmannaeyjum. Það starf rækti hann með afburðum vel.

Undir lok starfsævinnar tók Helgi Bergs að sér formennsku Bessastaðanefndar sem stóð fyrir framkvæmdum á forsetasetrinu Bessastöðum. Það starf rækti hann sem önnur af alúð.

Ég bið háttvirta alþingismenn að minnast Helga Bergs með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]