131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:16]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Mig langar til að byrja á því að ræða tvö málefni sem snerta utanríkisráðuneytið og embættisfærslu hæstv. utanríkisráðherra. Að öðru málefninu vék hæstv. ráðherra í ræðu sinni, hinu ekki. Hann vék að svokallaðri friðargæslusveit í Afganistan. Að starfsemi Mannréttindaskrifstofu Íslands vék hann hins vegar ekki þótt ærið tilefni væri til. Ég ætla að fjalla lítillega um þetta tvennt.

Eins og hér hefur komið fram hefur verið ákveðið að skera niður við trog framlag til Mannréttindaskrifstofunnar og lítum við í stjórnarandstöðunni á það sem grafalvarlegt mál.

Mannréttindaskrifstofa Íslands var sett á laggirnar árið 1994 og að henni standa ýmis almannasamtök, Amnesty International, Barnaheill, Rauði krossinn, Öryrkjabandalagið, UNIFEM, Samtökin ´78, Hjálparstarf kirkjunnar og mörg fleiri. Framan af átti þessi stofnun í miklum fjárhagserfiðleikum en samkomulag var gert um það í kringum áramótin 1997/1998 að styrkja undirstöður stofnunarinnar og skyldi stefnt að því að framlag til hennar skyldi vera á bilinu 10–15 millj. kr. Þetta mark hefur aldrei náðst. Það var farið upp í 6 milljónir og síðan upp í 8, og málið leit sæmilega út þar til það gerist á þessu ári að horfið er frá því að veita stofnuninni annan stuðning en 2,2 millj. kr. Upphaflega kom fram í fjárlögum að frá utanríkisráðuneytinu skyldu koma 4 milljónir og 4 milljónir frá dómsmálaráðuneytinu.

Dómsmálaráðuneytið skilgreindi framlag sitt upphaflega í fjárlagafrumvarpi sem framlag til mannréttindamála en utanríkisráðuneytið í upphaflegum drögum sem framlag til Mannréttindaskrifstofu. Því var breytt og sama orðalag tekið upp og hjá dómsmálaráðuneytinu. Síðan kemur það fram núna nýlega að þetta framlag frá utanríkisráðuneytinu á ekki að ganga að neinu leyti til stofnunarinnar en þess í stað verði hálf staða hjá ÖSE fjármögnuð með þessum peningum.

Mannréttindaskrifstofa Íslands sinnir mjög mikilvægu hlutverki. Hún annast fræðslustarf í skólum, aflar gagna, birtir upplýsingahefti og er að koma upp mikilvægum gagnagrunni, en hún er líka andlit Íslands út á við í mannréttindamálum. Hún sendir skýrslur fyrir okkar hönd til Sameinuðu þjóðanna, hefur samskipti við sambærilegar systurstofnanir annars staðar á Norðurlöndunum og annars staðar í heiminum. Er það hneisa fyrir Ísland ef við bætum ekki úr þessu. Ég ætla ekki að hafa mjög stór orð um þetta þótt ærin ástæða sé til. Því hefur verið haldið fram að ríkisstjórnin væri að láta stofnunina gjalda verka sinna, en hún hefur verið gagnrýnin á ýmis umdeild frumvörp sem frá stjórnvöldum hafa komið. Ég nefni fjölmiðlalögin, mjög umdeild útlendingalög og lög um meðferð opinbera mála sem dæmi. Ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra hvort hann sé reiðubúinn að beita sér fyrir endurskoðun á afstöðu ríkisstjórnarinnar í þessu efni.

Hitt atriðið sem ég vildi víkja að í upphafi máls míns lýtur að svokallaðri friðargæslu í Afganistan sem er í reynd hluti af viðbúnaði NATO í því ríki og hefur verið gagnrýnt af okkar hálfu. Höfum við viljað beina fjármunum og orku Íslendinga inn á önnur svæði en þau sem Bandaríkjaher hefur farið um. Við höfum viljað að okkar hlutverk yrði annað en eins konar hreinsunardeild fyrir ameríska herinn.

En það eru alvarlegir hlutir sem lúta að þeim einstaklingum sem sinnt hafa þessu starfi og nú er að koma á daginn að þeir einstaklingar sem slösuðust fyrir fáeinum mánuðum þegar alvarlegur atburður átti sér stað í Kabúl eru ekki tryggðir. Þetta eru fréttir sem verið er að greina frá í fjölmiðlum. Í morgunútvarpi var viðtal við formann Landssambands slökkviliðsmanna, Vernharð Guðnason, þar sem hann lýsti áhyggjum af þessum málum og sagði bagalegt að stéttarfélagi slökkviliðsmanna sem þarna hefðu átt í hlut hefði ekki verið heimilað að halda utan um málið því að einstaklingunum hefði verið gert að segja sig úr stéttarfélagi sínu og ganga í annað.

Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra kemur fram að til standi að senda sérstaka sveit manna, 8–9 manna sveit, með jeppa sem fari um stríðssvæðin í Afganistan og sinni þar eftirlitsstarfi. Og nú spyr ég: Verður stéttarfélagi þessara einstaklinga, sem eru lögreglumenn og eru félagar í Landssambandi lögreglumanna, auðveldað eða gert kleift að halda utan um réttindi þessara manna? Þá er ég að hugsa um tryggingar og annað sem snýr sérstaklega að kjörum þeirra og réttindum. Ég hef leitað eftir upplýsingum um þetta efni hjá Óskari Bjartmarz, formanni Landssambands lögreglumanna, en hann vildi það eitt um málið segja að landssambandið legði ríka áherslu á að koma að þessum málum og teldi það hagsmunamál, að sjálfsögðu fyrir þá einstaklinga sem í hlut eiga en einnig fyrir stjórnvöld, að sjá til þess að vel sé á málunum haldið.

Þá ætla ég, herra forseti, að víkja að einstökum þáttum í ræðu hæstv. utanríkisráðherra. Hann kemur allvíða við þótt ekki sé ræðan mjög á dýptina. Í upphafi talar hann um viðskipti og víkur sérstaklega að samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði. Ég verð að viðurkenna að ég er ekki í þeim kór sem syngur þessum viðskipta- og pólitíska samningi lof vegna þess að í honum felst afsal á lýðræðislegum réttindum. Það verður að segja um núverandi hæstv. utanríkisráðherra að hann er a.m.k. ekki ógagnrýnin rödd í þeim kór og ég tek undir það sem hann segir í ræðu sinni, við þurfum jafnan að hafa heiminn allan undir. Við eigum ekki að einskorða okkur við þennan litla hluta hans þegar við hyggjum að viðskiptahagsmunum Íslands. Í ræðu sinni vék hann að samningum sem til stæði að gera við Tæland og Kína sem óumdeilanlega, þó að það séu ekki hans orð, en mín, eru ein stærsta þrælakista heimsins. Það er af sem áður var þegar stjórnvöld voru gagnrýnin í garð Kína og mannréttindabrota þar. Nú geta Vesturlönd og hinn ríki heimur hagnast á þessu fólki, á verkamönnum í Kína sem búa við skert réttindi, og ég hef áður gert að umræðuefni innan þings og utan. Ég vil beina þeirri spurningu til hæstv. ráðherra hvort einhver ákvæði sem snerta félagsleg réttindi verkafólks séu fyrirhuguð í þeim fríverslunar- og viðskiptasamningum eða samningsdrögum sem eru á vinnuborði utanríkisráðuneytisins nú í tengslum við þessi mál.

Hæstv. utanríkisráðherra víkur að því að Íslendingar beiti sér fyrir því af alefli að ríkisstyrkir í sjávarútvegi verði afnumdir og áður hefur verið talað um þetta sem mikið mannréttindamál og jákvætt framlag Íslendinga á alþjóðavettvangi. Ég hef áður lýst miklum efasemdum við þetta og tel það ekki sæmandi fyrir Íslendinga að þvinga þjóðir sem sumar hverjar styrkja sjávarútveg sinn, í sumum tilvikum til að styrkja byggðaþróun, í sumum tilvikum til að styrkja vistvænar veiðar, og við skulum ekki gleyma því að verksmiðjubúskapur, verksmiðjurekstur stórra skipa á höfum úti, óstyrktur af hinu opinbera, er ekki alltaf til góðs. Við eigum ekki að hugsa hlutina í svart-hvítu í þessum efnum. Við eigum að vega og meta hlutina í ljósi aðstæðna hverju sinni. Stundum á slíkur samfélagslegur stuðningur rétt á sér, í öðrum tilvikum ekki þannig að ég ítreka fyrri efasemdir mínar um þessa stefnu.

Það er talað um að efla framlag Íslendinga til þróunarsamvinnu. Það er gott og það er æskilegt þó að við séum ekki á einu máli um það í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði annars vegar og ríkisstjórnin hins vegar hvernig við verjum þessu framlagi okkar, sérstaklega þegar kemur að svokölluðu friðarstarfi. Það beinist að okkar mati í allt of ríkum mæli inn í starf tengt hernaðaruppbyggingu eða hreinsistarf eftir bandaríska herinn. Ég mundi ekki mæla með þessum texta sem innleggi í fræðirit um stjórnmál og samtímasögu. Það á við bæði um yfirlýsingu hæstv. ráðherra um Afríku og hlutskipti fátækra ríkja á þeim slóðum, og ekki síður um þær alhæfingar sem er að finna um málefni Miðausturlanda. Það er vikið að slæmum stjórnarháttum í Suður-Afríku og allar ófarir álfunnar eru skrifaðar á slæma menn á borð við Mugabe og fleiri í Saír. Það er rétt að stjórnarhættir í Afríku hafa verið og eru víða mjög gagnrýniverðir og eiga án efa þátt í slæmu hlutskipti margra ríkja. Við skulum samt ekki gleyma hinu, að þessi fátæku lönd sem sum hver búa yfir miklum auðlindum hafa þurft að sæta því að fjölþjóðlegir auðhringar og stórveldi heimsins hafa sölsað þessar eigur þeirra undir sig. Það hafa þeir því miður gert með hjálp alþjóðlegra stofnana á borð við Alþjóðabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þegar ræður og framlag hæstv. utanríkisráðherra er skoðað á þeim fundum er það ekki til að hrópa húrra fyrir. Fulltrúar okkar á slíkum fundum hafa hvatt menn til þeirra dáða að stilla þessum fátæku ríkjum upp við vegg, þvinga þau til að einkavæða grunnþjónustu á borð við raforkukerfi og fært þau þannig upp á veisluborð alþjóðlegu auðhringanna.

Hinar vel heppnuðu kosningar í Írak hef ég ekki tíma til að ræða í þessari umferð. Það er nýbúið að koma þar á stjórn og erfitt að skilja orðalagið um þann kafla. Varðandi lýðræðisvakninguna í Miðausturlöndum get ég upplýst hæstv. utanríkisráðherra um, af því að hann víkur sérstaklega að Líbanon og þeim áhrifum sem Írakskosningarnar hafa haft þar, að þar í landi voru kosningar og einnig í Jórdaníu, Jemen og víðar löngu á undan kosningum, sem svo eru kallaðar, í Írak.

Ég ætla í síðari ræðu minni að víkja að Palestínu, gereyðingarvopnum og kjarnorkuvopnum í höndum skálkastjórna. Ég mun koma nánar inn á það í minni síðari ræðu og hef grun um að ég þurfi að fjölga eitthvað í þeim hópi sem ég tel a.m.k. að falli undir þá skilgreiningu. Sumir nánustu bandamenn hæstv. utanríkisráðherra sem sitja á valdastóli í Washington kunna að komast í þann hóp. (Forseti hringir.) Að sjálfsögðu mun ég ræða ítarlega um framboð Íslands til öryggisráðs (Forseti hringir.) Sameinuðu þjóðanna sem ég hef miklar og mjög vaxandi efasemdir um. Ég mun víkja nánar að því í (Forseti hringir.) síðari ræðu minni.