131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:33]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla að gera hv. þingmanni það til geðs að fjalla nokkuð rækilega um Írak í síðari ræðu minni. Ég hef engar efasemdir um að yfirgnæfandi meiri hluti íbúa í Írak, eins og í öllum öðrum ríkjum heimsins, vilji lifa í friði og spekt við lýðræðislegar kosningar og vilji búa við lýðræðislegt stjórnarfar. Ég hef engar efasemdir um það. Hins vegar voru þessar kosningar, sem menn eru að mæra, í skötulíki. Ég skal fara nánar yfir það í síðari ræðu minni á eftir.

Kosningarnar fóru fram í skugga einhverra alvarlegustu og svívirðilegustu mannréttindabrota sem framin hafa verið í heiminum. Forsætisráðherrann, sem hafði verið komið til valda af hálfu innrásarhersins, Allawi, hafði sjálfur, prívat og persónulega, gerst sekur um að fara inn í fangelsi í Bagdad og skjóta eigin hendi átta unga menn í höfuðið. Þetta fær ekki einu sinni umræðu á Vesturlöndum. Þetta kom að vísu fram í fréttum en mönnum þykir þetta nánast ekki fréttnæmt.

Við berum óbeina ábyrgð á þeim atburðum sem fara fram og hafa átt sér stað í Írak og þar með talið hryllilegum og svívirðilegum verkum og mannréttindabrotum sem hafa verið framin í fangelsum í Írak, Abu Ghraib og fjölmörgum öðrum fangelsum í Írak. Ég hef lagt mig nokkuð fram um að kynna mér það sem er að gerast í þessu landi, lesa greinar sem hafa verið birtar, skrifaðar af mönnum sem þekkja vel til mála. (Forseti hringir.) Ég verð að segja fyrir mitt leyti að ég mundi fara sparlega í yfirlýsingar um mannréttindi í því landi.