131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:35]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vek athygli á því að hv. þingmaður treysti sér ekki til að svara spurningu minni. Í ofanálag, virðulegi forseti, kom hv. þingmaður og gerði lítið úr því að milljónir manna hefðu hætt lífinu til að njóta sjálfsagðra réttinda. Hann gerði lítið úr því og talaði um kosningar í skötulíki, gerði lítið úr þeim fjölda fólks sem þar tók þátt í kosningunum. Svo einfalt er það mál.

Talandi um ábyrgð þá liggur það fyrir, virðulegi forseti, að ef hv. þingmaður hefði fengið að ráða væri Saddam Hussein við völd í Írak. Það er ekkert flóknara en svo að þannig væri málum komið.

Hv. þingmaður gat ekki einu sinni verið maður til að tala af virðingu um þetta fólk, sem loksins er búið að fá eitthvert frelsi. Ég held því ekki fram að öll markmið hafi náðst með Írak (Forseti hringir.) en án nokkurs vafa er mikilsvert að fólk fái frelsi.