131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:40]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að fullyrða að hundruð manna hafi verið elt uppi en ég held því fram að í áranna rás hafi ýmsir þurft að gjalda sinna skoðana og afstöðu í valdatíð ríkisstjórnanna undanfarinn hálfan annan áratug.

Menn spyrja hvað valdi því að framlag til Mannréttindaskrifstofu Íslands skuli skorið niður við trog. Málefnalegar upplýsingar er ekki að fá frá hendi stjórnvalda um það efni. Það er skýringin á því að getgátur eru uppi.

Ég vil ekki keyra það mál í fastari hnút. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýnn á að stjórnvöld skoði hug sinn og hlusti á þau sjónarmið sem fram hafa komið innan þings og utan, að Mannréttindaskrifstofa Íslands gegni mikilvægu hlutverki í þjóðfélaginu og sem andlit Íslands út á við og að henni verður veittur fjárhagslegur stuðningur þannig að hún geti risið undir verkum sínum.

Varðandi yfirlýsingu hæstv. utanríkisráðherra gagnvart einstaklingum sem sinntu skyldustörfum í Kabúl þá fagna ég henni. Ég fagna þeirri yfirlýsingu. Hún er mjög mikilvæg og ég er hæstv. ráðherra hjartanlega sammála að því leyti.

Ég vil spyrja hæstv. ráðherra hvort hann geti fallist á að mikilvægt sé að stéttarfélögum verði gert kleift að koma að samkomulagi eða samningum um réttarstöðu og kjör þeirra starfsmanna sem sendir eru á vettvang með þessum hætti. Vísa ég þar sérstaklega á Landssamband slökkviliðsmanna og Landssamband lögreglumanna, (Forseti hringir.) m.a. varðandi fyrirhugaða för til Afganistans sem ég (Forseti hringir.) er ekki sérstaklega hrifinn af sjálfur. En það er önnur saga.