131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[11:45]

Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi fá að víkja einmitt að þessum tveimur atriðum sem hér hafa verið rædd. Það ber nýrra við að talsmaður Vinstri grænna skuli bera hagsmuni íslensku friðargæslunnar fyrir brjósti. Hingað til hefur sá flokkur fundið starfsemi hennar flest til foráttu og talað jafnvel um friðargæsluliða sem hermenn, gráa fyrir járnum.

Það er hins vegar fagnaðarefni að Vinstri grænir hafi séð að sér og ég minni á í þessu sambandi að fyrir skömmu var í þinginu rætt um jafnréttismál í Íslensku friðargæslunni sem hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir var málshefjandi að og hæstv. utanríkisráðherra tók vel í það mál. En það er eins og að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafi ekki tekið eftir því að hæstv. utanríkisráðherra boðar í ræðu sinni frumvarp um Íslensku friðargæsluna þar sem væntanlega verður tekið betur á réttarstöðu friðargæsluliðanna. Ég vildi benda hv. þingmanni á þetta atriði og spyr hvort það hafi farið fram hjá honum.

Að öðru leyti fagna ég þessum sinnaskiptum hv. þingmanna Vinstri grænna um mikilvægi Íslensku friðargæslunnar.

Varðandi umræðuna um mannréttindamál er alveg ljóst að íslensk stjórnvöld hafa ávallt lagt sérstaka áherslu á mannréttindamál og að tryggja beri mannréttindi um allan heim óháð stjórnarfari, menningu, félagslegu umhverfi eða trúarbrögðum. Á vettvangi Sameinuðu þjóðanna hefur Ísland m.a. lagt fram tillögur, og utanríkisráðherra hefur almennt gert mannréttindamál að umtalsefni á alþjóðavettvangi.

Ég held að ég geti fullyrt að á Íslandi fari fram opin og upplýst umræða um mannréttindamál og það er fáránlegt að halda því fram að framlag Mannréttindaskrifstofu Íslands sé tengt skoðunum skrifstofunnar á einstökum málum. Hins vegar er alltaf vandasamt að ákveða hvernig takmörkuðum fjármunum skuli varið.