131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:05]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður var að skora á aðra þingmenn að fara í sambærilega ferð og hann hefur farið sjálfur til hins viðkvæma svæðis fyrir botni Miðjarðarhafsins. Ég gat ekki séð af ræðu hans að sjóndeildarhringur hans hefði víkkað eða hann gæti fjallað um þetta mál af einhverju jafnvægi og sanngirni. Því fór fjarri. Ég vil nú ekki segja að hann hafi notað þess háttar málatilbúnað og munnsöfnuð eins og hann gerði þegar hann talaði frá þessu svæði sem var auðvitað fyrir neðan allar hellur og til skammar fyrir hv. þingmann. Hann fjallaði hins vegar núna um hryðjuverk gagnvart Ísraelsmönnum og sagði: Það urðu einhver hryðjuverk og einhverjir dóu. Það var öll umfjöllunin hjá hv. þingmanni. Slag í slag hafa verið sprengdar upp rútur með skólabörnum, slag í slag hefur verið farið inn á veitingastaði þar sem almenningur hefur verið að borða í friðsamlegum tilgangi. Slag í slag. Einhverjir dáið, sagði þingmaðurinn.

Ísraelsmenn hafa ekki ráðist á óbreytta borgara. Það hefur hins vegar komið fyrir að óbreyttir borgarar hafa fallið þegar ráðist hefur verið á vígamenn og hermenn. Því miður er það svo af hálfu Palestínumanna sem þar fara fyrir að þar er gagngert og systematískt ráðist á óbreytta borgara. Það hét í máli þessa hv. þingmanns einhver hryðjuverk og að einhverjir hefðu dáið. Svo er þessi maður að setja ofan í við aðra þingmenn og krefjast þess að þeir ferðist til þessara staða til að öðlast víðsýni. Því fer fjarri að þessi hv. þingmaður hafi öðlast nokkra víðsýni af nokkru tagi, eins og heyrðist á ummælum hans yfir hafið þegar þingmaðurinn sjálfur var staddur á þessum slóðum og varð sjálfum sér til skammar.