131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[12:13]

Sólveig Pétursdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að segja að ég undrast mjög þessi ummæli hv. þm. Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Ég hygg að hv. þingmenn sem hér eru staddir geri það jafnhliða. Það er auðvitað ljóst að þessum orðum hans verður að vísa til föðurhúsanna.

Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir greinargóða ræðu um utanríkismál en í máli hans birtust á mjög skýran hátt öll hin fjölbreyttu verkefni sem takast þarf á við á vettvangi utanríkismála. Útrás íslensks viðskiptalífs undanfarin ár eru aðdáunarverð. Sú umgjörð sem sköpuð hefur verið utan um atvinnulífið að undanförnu ber gott vitni um styrka stjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Stjórnarflokkarnir fögnuðu 10 ára afmæli um daginn og það er sérstaklega ánægjulegt að heyra nær daglega fréttir af landvinningum íslenskra fyrirtækja á erlendri grund.

Baráttan gegn hryðjuverkum hefur tekið verulegan tíma, hæstv. forseti, og náð athygli alþjóðastofnana, stjórnmálamanna og fræðimanna undanfarin missiri. Þannig hefur Atlantshafsbandalagið t.d. ákveðið að gera baráttuna gegn hryðjuverkum að forgangsmáli innan bandalagsins. Bæði NATO og aðildarríki þess þurfa að gera ráð fyrir hugsanlegum árásum með sýkla-, efna- og geislavopnum og hafa tiltækar viðbragðsáætlanir.

Nýlega samþykkti allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna nýjan alþjóðasamning um baráttu gegn notkun á kjarnorkuvopnum. Samningurinn er mikilvægt skref í átt að fullkomnum lagaramma í baráttunni gegn hryðjuverkum og mun vafalaust skipta verulegu máli við að hindra hryðjuverkamenn í að komast yfir gereyðingarvopn með skelfilegum afleiðingum.

Mjög mikilvægt er að tryggt sé að öll meðferð geislavirkra efna sé trygg og örugg og notuð í friðsamlegum tilgangi eins og við orkuframleiðslu. Efni mega hvorki vera aðgengileg óviðkomandi aðilum né skaðleg fyrir umhverfið.

Á ráðstefnu um gereyðingarvopn sem ég sótti í Helsinki fyrr í þessum mánuði var varað við því að ef hryðjuverkasamtök kæmust yfir gereyðingarvopn mundu þau nota þau. Fram kom einnig að þrátt fyrir að erfitt væri að nýta vopnin væri ekki ósennilegt að sú staðreynd ein að hryðjuverkamenn hefðu slík vopn undir höndum væri nægileg til að valda ógn og skelfingu og ógna öryggi mannkynsins. Jafnframt kom fram að ný kynslóð hryðjuverkamanna væri að vaxa upp. Hingað til hafa hryðjuverkamenn almennt verið tilbúnir í sjálfsmorðsárásir og þannig gert yfirvöldum erfitt að vinna gegn þeim. Hin nýja kynslóð mun vera minna reiðubúin að fremja sjálfsmorð og er því líklegri til að reyna að komast yfir vopn sem unnt er að beita úr fjarlægð. Ég tel ósennilegt að nokkurt ríki sé reiðubúið að afhenda hryðjuverkamönnum gereyðingarvopn. Hins vegar hafa ákveðin ríki eða óstöðugar ríkisstjórnir skotið skjólshúsi yfir slíka menn, en aðsetur í einhverju ríki er forsenda þess að slík starfsemi þrífist.

Fundur formanna utanríkismálanefnda Norðurlanda og Eystrasaltsríkjanna var haldinn í Reykjavík í september á síðasta ári. Richard Lugar, formaður utanríkismálanefndar Bandaríkjaþings, var sérstakur gestur fundarins. Hann kynnti ítarlega svonefnda Nunn-Lugar áætlun sem felur í sér aðstoð við fyrrum Sovétlýðveldin við að gera óskaðleg gereyðingarvopn sem þar er að finna og koma í veg fyrir dreifingu þeirra. Gríðarlegt magn gereyðingarvopna var að finna í ríkjum gömlu Sovétríkjanna og var varðveislu þeirra og öryggi mjög ábótavant. Nunn-Lugar áætlunin sem er aðallega fjármögnuð af Bandaríkjunum hefur kostað um 400 milljónir bandaríkjadala á ári frá árinu 1991. Fyrir atbeina hennar hefur á sjöunda þúsund kjarnaodda verið eytt og á þriðja þúsund annarra tækja og tóla tengdum gereyðingarvopnum hefur verið eytt eða gert óskaðlegt. Þá leiddi áætlunin til þess að öllum kjarnavopnum var skilað til Rússlands frá Úkraínu, Kasakstan og Hvíta-Rússlandi. Áætlunin hefur nú verið víkkuð út fyrir fyrrum Sovétríkin og er um 50 milljón bandaríkjadölum varið til þess árlega. Þetta þýðir m.a. að hægt verður að taka fyrir svæði í Miðausturlöndum og Asíu. Þetta verkefni er ákaflega mikilvægt og ekki á færi margra þjóða að standa að, vegna þess hversu flókið og kostnaðarsamt það er, en kemur allri heimsbyggðinni til góða. Norðurlöndin og Evrópusambandið hafa þó reynt að taka á ýmsum vandamálum, m.a. í Norðvestur-Rússlandi, en þar er veruleg hætta á ferðum enda mikið magn af úreltum og ónýtum búnaði sem geymir geislavirkan úrgang.

Í þessu sambandi er rétt að nefna áhyggjur alþjóðasamfélagsins af ríkjum eins og Íran, Norður-Kóreu og Pakistan. Á fundi í Evrópuráðsþinginu í Strassborg síðastliðinn þriðjudag voru málefni Írans til umræðu. Þar lýsti ég þeirri skoðun minni að stjórnvöld í Íran hefðu sýnt það á undanförnum árum að þau hikuðu ekki við að fara á svig við alþjóðlegar skuldbindingar sínar á sviði kjarnorkumála og hefðu ásamt Norður-Kóreu valdið miklum áhyggjum á alþjóðavettvangi. Tilraunir Frakklands, Þýskalands og Bretlands til að fá Íran að samningaborðinu og ákvörðun Bandaríkjastjórnar um að styðja frumkvæðið er lofsvert. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að klerkastjórnin í Teheran hefur lengi leitast við að valda óstöðugleika í mörgum ríkjum Miðausturlanda og stutt hryðjuverk sem hafa spillt fyrir friðarferlinu fyrir botni Miðjarðarhafs. Loks lýsti ég þeirri skoðun minni að hugsanlega væri að skapast tækifæri til að draga úr sókn Írana í gereyðingarvopn með því að efla viðskipti og fjárfestingar en viðhalda þó pólitískum þrýstingi.

Ástandið í Norður-Kóreu er áhyggjuefni. Ríkið hafði heitið því að hætta tilraunum til framleiðslu kjarnavopna en snerist öndvert gegn alþjóðasamfélaginu með uppsögn samnings um bann við dreifingu kjarnavopna. Aðild Kína og Rússlands er mikilvæg en í ljósi spennu í Austur-Asíu vekja sameiginlegar heræfingar Kína og Rússlands sem eru fyrirhugaðar í lok ársins nokkra furðu.

Ég átti þess kost að fara í opinbera heimsókn til Kína í janúar. Sú heimsókn var mjög vel heppnuð og sýndi hversu stórkostlegt land Kína er bæði sögulega og menningarlega auk þess að vera einstaklega áhugaverður ferðamannastaður. Hvað viðskipti áhrærir er ljóst að mikil uppbygging hefur átt sér stað í Kína og landið býður upp á mikla möguleika. Hitt er jafnljóst að þeirra bíða mörg krefjandi verkefni, ekki síst á sviði mannréttindamála.

Málefni Tævans og Kína hafa verið í brennidepli að undanförnu og í mars síðastliðinn átti ég þess kost að heimsækja Tævan. Það var ánægjulegt að sjá þær öru framfarir og miklu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað. Samskiptavandi Kína og Tævans skyggði þó óneitanlega á heimsóknina. Ég tel afar mikilvægt að friðsamleg lausn finnist á þessu vandamáli hið fyrsta. Jafnframt því tel ég að stuðla beri að auknum gagnkvæmum viðskiptum milli landanna þ.e. Tævans og Íslands.

Hæstv. forseti. Staða varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna hefur verið stöðugt til umfjöllunar síðastliðið ár. Í samræmi við áratugalangt og vinsamlegt samstarf Íslands og Bandaríkjanna er ákaflega mikilvægt að þjóðirnar leysi þessi mál hið allra fyrsta. Eins og hæstv. utanríkisráðherra gat um í ræðu sinni hefur staðið til að viðræður hæfust milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda. Afstaða okkar í málinu hefur alla tíð verið skýr. Hér þarf að vera lágmarksviðbúnaður. Ísland sem NATO-ríki getur ekki verið eitt án varna enda væri Ísland þannig veikur hlekkur í varnarkeðju Atlantshafsbandalagsins. Þótt kalda stríðinu sé lokið hafa orðið til nýjar ógnir eins og ég ræddi áðan. Komið hafa fram hugmyndir um að Ísland taki að auka þátt í greiðslu kostnaðar við rekstur Keflavíkurflugvallar. Ég tel sjálfsagt og eðlilegt að skoða það enda hefur hlutverk Keflavíkurflugvallar breyst undanfarin ár og ekkert náttúrulögmál að við tökum takmarkaðan þátt í kostnaði. Hins vegar er það alger lágmarkskrafa að hér verði trúverðugar varnir með tilliti til legu og hlutverk landsins, mikillar flugumferðar og fyrirsjáanlegrar aukinnar skipaumferðar á Norður-Atlantshafi.

Fyrstu lýðfrjálsu kosningarnar í Írak fór fram í janúar og fyrsta lýðræðislega kjörna ríkisstjórnin í Írak í hálfa öld hefur nú verið skipuð. Þetta eru góð tíðindi en brýnt er að takist að lægja öldur ófriðar sem ríkt hafa í Írak af völdum uppreisnarseggja. Framlög Íslands til áframhaldandi uppbyggingarstarfs og þjálfun írakskra öryggissveita er mikilvægt skref til að tryggja frið og stöðugleika í Írak.

Í undirbúningi er frumvarp til laga um Íslensku friðargæsluna, en störf hennar hafa verið í brennidepli að undanförnu. Tryggja þarf áframhaldandi framþróun friðargæslunnar, en starfsemin hefur almennt gengið vel og verið okkur til sóma. Nauðsynlegt er hins vegar að hafa traustan lagaramma um starfsemina, m.a. um réttarstöðu friðargæsluliða. Ég vænti þess að um þetta mál verði þverpólitísk samstaða á Alþingi, m.a. vegna ræðu og orða hv. þm. Ögmundar Jónassonar hér fyrr í umræðunni.

Utanríkismálanefnd fjallaði ítarlega um Íraksmálið í vetur. Sérstök athugun fór fram á stuðningi Íslands við innrásina í Írak. Nefndin aflaði ítarlegra gagna, kallaði gesti á sinn fund og fór vel yfir allar staðreyndir málsins. Niðurstaðan var sú að um var að ræða pólitíska ákvörðun sem tekin var af þar til bærum aðilum í samræmi við íslensk stjórnlög.

Ég tek undir sjónarmið hæstv. utanríkisráðherra um framboð Íslands til öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna en hann hafði áður kynnt utanríkismálanefnd framboðs- og kostnaðaráætlun. Að mínu mati er nauðsynlegt að breyta innra skipulagi öryggisráðsins og Ísland hefði svo sannarlega margt til málanna að leggja þar. Eftir að tilkynnt var um framboð Tyrklands er ljóst að á brattann verður að sækja fyrir Ísland. Leggja þarf hlutlægt mat á möguleika okkar að ná sæti í öryggisráðinu, áður en endanleg ákvörðun um kosningabaráttu er tekin.

Hæstv. forseti. Hinn 1. maí í fyrra stækkaði Evrópska efnahagssvæðið og eru ESB-ríkin nú orðin 25 í stað 15 áður. Mikilvægt er að gera sér grein fyrir því í umræðunni hvernig Evrópukortið lítur út eftir stækkunina. Ytri landamæri Evrópusambandsins liggja nú utar en áður og ný ríki eru orðin næstu nágrannar Evrópusambandsins og eiga landamæri að ytri landamærum ESB og þar með EES-svæðisins. Evrópusambandið hefur unnið að nýrri áætlun um nýja nágranna ESB. Hin nýja nágrannastefna Evrópusambandsins er því jákvætt skref í að tryggja enn frekar frið og öryggi, en með því að styðja við lýðræðisþróun og stöðugleika á aðliggjandi svæðum er enn frekar byggt undir frið og komið í veg fyrir skipulagða glæpastarfsemi.

Nýr stjórnarskrársáttmáli Evrópusambandsins bíður staðfestingar aðildarríkja ESB en ekki er sjálfgefið að hann verði samþykktur. Stjórnvöld sumra ríkja róa nú lífróður við að afla fylgis kjósenda við hina nýju stjórnarskrá.

Aðildarviðræður við Búlgaríu og Rúmeníu eru langt komnar. Verði aðild þeirra samþykkt njóta þau þess vafasama heiðurs að vera fátækustu ríki ESB og EES. Aðildarviðræður við Tyrkland vekja upp ýmsar spurningar, m.a. um hvert Evrópusambandið stefnir og hvort unnt sé að samræma og sætta ólík sjónarmið múslimaríkis og hinna Evrópuríkjanna. Hugsanlegt er þó að aðild Tyrklands gæti byggt brú milli þessara tveggja menningarheima.

Hæstv. utanríkisráðherra lýsti auknum framlögum Íslands til þróunarríkja og þróunarsamvinnu almennt. Utanríkismálanefnd hefur einmitt látið þessi mál til sín taka og átti m.a. mjög áhugaverðan fund með Þróunarsamvinnustofnun Íslands fyrr á þessu ári. Ég tel að það verði fróðlegt og árangursríkt fyrir nefndarmenn í utanríkismálanefnd og jafnvel þingmenn alla sem láta sig þessi mál varða að slást í för með sérfræðingum ÞSSÍ þegar farið er í vettvangsheimsóknir á staði þar sem starfsemi stofnunarinnar fer fram.

Starfsemi UNIFEM er sérstaklega lofsverð. Út hafa komið mjög athyglisverðar en jafnframt hrollvekjandi skýrslur um stöðu og hlutverk kvenna, aðstæður þeirra í stríði og fátækt, kynbundið ofbeldi og mannréttindabrot. Þær sýna svo ekki verður um villst að hlutverk kvenna er mjög mikilvægt við að halda samfélögum saman og taka ábyrgð á enduruppbyggingu eftir stríð og hamfarir. Ljóst er að hamfarirnar í Asíu höfðu gríðarleg áhrif á stöðu kvenna og barna. Konur voru t.d. stór hluti farandverkamanna í Tælandi og hafa sameinuðu þjóðirnar lagt áherslu á að grafast fyrir um afdrif þeirra og veita stuðning. Ofbeldi gegn konum er eitt af erfiðustu og útbreiddustu vandamálunum í heiminum í dag. Talið er að það sé jafnvel einn stærsti heilsufarsvandi kvenna í dag sem eyðileggur líf, fjölskyldur og samfélög. Þá er HIV-smit nátengt ofbeldi gegn konum og aukin tíðni HIV-smits meðal kvenna er verulegt áhyggjuefni. Þekkt er hvernig skipulögðu ofbeldi er beitt gegn konum í stríði og þær verða oft mjög illa úti. Þrátt fyrir það eru konur almennt lykillinn að enduruppbyggingu samfélaga eftir að stríðsátökum er lokið. Rödd þeirra heyrist þó lítið á alþjóðavettvangi og ef ekki væri fyrir starfsemi UNIFEM er hætt við að konur lægju almennt óbættar hjá garði.

Hæstv. utanríkisráðherra minntist á starfsemi Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, en þess má geta að á Íslandi er rekin sérstök skrifstofa UNICEF á Íslandi og þar er unnið að fjáröflun fyrir Barnahjálpina og fjölmörgum mikilvægum verkefnum hér innan lands. Í sambandi við Barnahjálpina er rétt að vekja athygli á þeim árangri sem hefur náðst í menntun barna í þróunarlöndum þótt enn sé langt í land. Munur á skólagöngu drengja og stúlkna er enn þá allt of mikill. Í tengslum við Barnahjálpina er rétt að geta þess að aukin menntun stúlkna er ákaflega mikilvæg því í tengslum við starfsemi Matvælaáætlunar Sameinuðu þjóðanna hefur m.a. komið í ljós að því meiri sem menntun stúlkna er því líklegri er að þær njóti betri heilsu og séu færari að sjá börnum sínum farborða. Jafnframt kemur í ljós að þær eignast færri börn og börn þeirra eru almennt heilsuhraustari en börn kvenna sem litla sem enga skólagöngu hafa fengið. Í þessu sambandi má minnast á verkefni Matvælaáætlunarinnar, Skóli fyrir mat, sem hvetur börn til að mæta í skólann gegn matargjöfum. Barnahjálpin hefur einnig vakið sérstaka athygli á barnaþrælkun, en talið er að um 246 milljónir barna séu í ánauð vinnuþrælkunar. Börn allt niður í fimm ára gömul eru þannig notuð við ýmiss konar vinnu. Þau eru þannig svipt barnæskunni og grundvallarréttindum barna. Á þessum málum verður við að taka. (Forseti hringir.)

Hæstv. forseti. Ég hef lokið máli mínu en það er ljóst að utanríkismálin eru fjölskrúðugur og spennandi vettvangur og það er óhætt að gera ráð fyrir því að opin umræða um utanríkismál eigi eftir að verða dýpri og meira krefjandi í nánustu framtíð.