131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[13:31]

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Mig langar í máli mínu um munnlega skýrslu hæstv. utanríkisráðherra að drepa á fáeina punkta, bæði það sem hæstv. ráðherra kom inn á í ræðu sinni og einnig annað sem ég tel að þurfi að ræða. Vonandi fást einhver viðbrögð við því. Ég vona að hæstv. utanríkisráðherra sjái sér fært að vera við umræðuna, hann er væntanlega á leiðinni.

Með skýrslu hæstv. utanríkisráðherra fylgdi skjal sem ber yfirskriftina Stefnumið Íslands í þróunarsamvinnu 2005–2009. Enginn þeirra þingmanna sem talað hefur í umræðunni til þessa hefur gert skjalið að umræðuefni, en ég leit svo á að það væri uppistaðan í því sem hæstv. utanríkisráðherra væri að segja og skjal sem að sjálfsögðu þyrfti að ræða á þingi en ekki bara í hv. utanríkismálanefnd.

Frú forseti. Án nokkurs vafa er brýnasta verkefni stjórnmálamanna á okkar dögum að leysa stóran hluta mannkyns úr viðjum fátæktar, en rúmur milljarður jarðarbúa skrimtir á innan við 70 kr. á dag. Hlutverk Íslands í þessu efni er jafnmikilvægt og annarra vestrænna ríkja þótt stærri séu. Ríki heims hafa enda sett sér markmið sem miða að því að útrýma fátækt, tryggja að mannréttindi séu virt og sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda. Þessir þrír þættir; mannréttindi, útrýming fátæktar og sjálfbær nýting náttúruauðlinda, verða ekki aðskildir.

Svo að markmiðunum sem ríki heims hafa sett sér í þúsaldaráætlun Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru árið 2000 og einnig samþykktum Beijing-ráðstefnunnar um réttindi kvenna verði náð á fyrri hluta þessarar aldar verða aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hvert og eitt að gera framkvæmdaáætlanir um hvernig þau hyggist leggja sitt af mörkum. Íslensk stjórnvöld þurfa að mínu viti að vinna slíka framkvæmdaáætlun, tímasetja markmið hennar og ráðstafa fjármunum til hennar að sjálfsögðu. Slík áætlun ætti að vera grunnur að samvinnu okkar við fátæk ríki og grundvöllur málflutnings Íslands hjá stofnunum Sameinuðu þjóðanna. Slík áætlun á einnig að stefna að því að ná markmiði Sameinuðu þjóðanna, sem við höfum samþykkt að undirgangast, að hlutfall vergrar þjóðarframleiðslu sem fer til þróunarsamvinnu verði 0,7%.

Mikilvægt er einnig að stjórnvöld efli skilning almennings á orsökum fátæktar og þekkingu almennings á aðstæðum fólks í snauðustu löndum heims. Með fræðslu má opna augu fólks fyrir nauðsyn þess að allir axli ábyrgð á því að útrýma örbirgð, enda eru örlög fólks hinum megin á hnettinum samtvinnuð okkar hvort sem okkur líkar betur eða verr.

Afnám misréttis gegn konum gengur eins og rauður þráður í gegnum þau markmið sem Sameinuðu þjóðirnar hafa sett sér á nýrri öld. Hlutskipti kvenna og baráttan fyrir fullum mannréttindum þeirra verður að vera kjarninn í utanríkisstefnu Íslendinga, því annars nást aldrei háleit markmið sem sett hafa verið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna eða annars staðar.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur í tæpan aldarfjórðung unnið að tvíhliða verkefnum með fátækustu ríkjum heims, flest hafa verið í Afríku. Nú hyggst stofnunin færa út kvíarnar til Srí Lanka og Nikaragúa. Ásamt því að auka framlög til verkefna á vegum ÞSSÍ er einnig tímabært að huga frekar að fjölhliða verkefnum á þessu sviði. Í því skyni þarf að efla samstarf ÞSSÍ og frjálsra félagasamtaka og gera nauðsynlegar breytingar á lögum um þróunarsamvinnu. Einnig þarf að huga betur að beinum framlögum til verkefna á vegum stofnana Sameinuðu þjóðanna, eins og kemur reyndar fram í stefnumörkun þeirri sem hæstv. ráðherra lagði fyrir, því sú reynsla sem býr meðal starfsfólks og stofnana Sameinuðu þjóðanna nýtist mjög vel.

Á grundvelli framkvæmdaáætlunar í þróunarsamvinnu, sem ég hef lagt til að stjórnvöld eigi að semja, eiga stjórnvöld að marka stefnu um þátttöku okkar í starfi Alþjóðabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins einnig. Mikilvægt er að Ísland veiti þeim stofnunum aðhald og verði málsvari þeirra sem ekki eiga sæti í stjórnum þeirra og eiga oftar en ekki undir högg að sækja gagnvart Alþjóðabankanum eða Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er hlutverk okkar, frú forseti, að sjá til þess að rödd þeirra veiku, rödd þeirra fátæku, heyrist innan þeirra stofnana eins og annars staðar á alþjóðlegum vettvangi.

Í stefnumiði því sem hér liggur fyrir um þróunarsamvinnu segir, með leyfi forseta: „Hvað ein þjóð aðhefst hefur áhrif á aðrar.“

Það er hverju orði sannara og óhætt að fagna því að þetta stefnumið skuli hafa verið lagt fram til kynningar þannig að hv. þingmenn geti farið yfir og væntanlega rætt ítarlegar og betur á fundum hv. utanríkismálanefndar.

Ég verð þó að segja og ítreka það sem ég hef áður sagt að stefnumið í slíku stefnuplaggi þarf að fylgja einhvers konar framkvæmdaáætlun sem er bæði tölusett og tímasett og setur stjórnvöldum skýr verkefni og markmið til að vinna eftir. Þetta snýst ekki bara um betri vinnubrögð, þetta snýst einnig um að allir viti hvað er í gangi. Þannig er líka auðveldara að hafa yfirsýn og veita stjórnvöldum sannarlega aðhald í þeim verkefnum sem þau starfa að.

Ég hef, ásamt þingmönnum úr öllum stjórnmálaflokkum sem sæti eiga á Alþingi, lagt fram tillögu til þingsályktunar um skipan nefndar um mótun stefnu á sviði þróunarsamvinnu Íslands við önnur ríki. Tillagan var einnig lögð fram í fyrra og er nú lögð fram aftur nokkuð breytt, en því miður hefur ekki unnist tími til að mæla fyrir henni á hinu háa Alþingi í vetur. Þar leggja flutningsmenn til við stjórnvöld að sett verði á fót sérfræðinganefnd sem vinni út frá tilteknum markmiðum sem að mörgu leyti samrýmast þeim markmiðum sem sett hafa verið fram í stefnumiðum um þróunarsamvinnu, þó e.t.v. séu áherslurnar ekki alveg þær sömu. Þó eru þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna meðal annars lögð til grundvallar; nauðsyn þess að efla menntun, mannréttindi og frelsi kvenna og stúlkubarna um allan heim, nauðsyn þess að efla heilsugæslu og samvinnu við frjáls félagasamtök.

Mér þætti ráð að sú tillaga sem hér liggur fyrir fengi afgreiðslu á hinu háa Alþingi í vetur þannig að hægt væri að vinna frekar það stefnumið sem hér liggur fyrir um þróunarsamvinnu og setja niður framkvæmdaáætlun til langs tíma, hvort sem það eru næstu fjögur ár eða jafnvel næstu tíu ár, þannig að fyrir liggi nákvæmlega hvernig Ísland og íslensk stjórnvöld hyggist standa að þessu. Það er margt gott sem fram kemur í því stefnuplaggi sem hæstv. ráðherra hefur lagt fyrir, en að mínu viti er það ekki nógu ítarlegt að því leyti að það er svolítið abstrakt og það er ekki sagt um það nákvæmlega hvernig við ætlum að ná markmiðunum, en m.a. með því að útfæra þetta nýtum við líka þá fjármuni betur sem við verjum til þróunarsamvinnu. Ég hygg að við í þessum sal séum öll sammála um að nýta þurfi þá vel, ekki síst í ljósi þess að nú hafa stjórnvöld lofað og staðið við að hækka framlög til þróunarsamvinnu og þau munu hækka umtalsvert á næstu árum. Ég tel mjög brýnt að þeim fjármunum sé vel varið og að um það sé þverpólitísk samstaða hvers konar verkefni og hvers konar vinnu við förum í, því eins og allir vita erum við náttúrlega að ráðstafa skattfé Íslendinga í samvinnuna.

Svo það gleymist ekki í umræðunni er í þingsályktunartillögunni, sem ég hef gert að umræðuefni og þingmenn úr öllum flokkum flytja með mér, lagt til að stefnan verði sett á að framlag Íslands nái 0,7% af vergri þjóðarframleiðslu árið 2015, eftir tíu ár. Þá mundum við halda svipuðum hraða í aukningu framlaga eins og verið hefur á undanförnum missirum og árum næstu tíu árin. Auðvitað þýðir það að vinna þarf mjög vel í því hvers konar verkefni við tökum að okkur. Það hittir þannig á að það er sama árið og aðildarríki Sameinuðu þjóðanna hyggjast ná þúsaldarmarkmiðum sínum og ég hygg að það væri vel við hæfi að við næðum markmiðinu á sama tíma.

Hæstv. utanríkisráðherra gerði Íslensku friðargæsluna að umræðuefni. Mig langar að víkja lítillega að henni en hún hefur áður verið rædd í dag. Í stefnumiðum um þróunarsamvinnu er talað um að þróa þurfi leiðir í friðargæslunni og samvinnunni. Hvort það þýðir að þróa eigi frekar leiðir í þær áttir sem hæstv. utanríkisráðherra hefur tilkynnt okkur í dag, þ.e. að auka þátttöku Íslands í friðargæsluverkefnum sem krefjast vopnaburðar og eru á stríðssvæðum skal ég ekki segja, en vil hins vegar taka það fram við umræðuna að eins og komið hefur á daginn í fréttaflutningi gengur ekki að þeir sem við sendum af landi brott til verkefna sem þessara, hættulegra verkefna, séu ekki nógu vel tryggðir. Ég veit að verið er að vinna í þessu og að hæstv. ráðherra hefur lýst skoðun sinni á því, en það má benda á það í umræðunni að m.a. fyrir hjálparstarfsmenn á vegum Alþjóða Rauða krossins er keypt sérstök trygging sem hægt er að kaupa hjá tryggingafélögum um allan heim býst ég við. Hún er auðvitað dýr og mikil, en það er trygging sem tryggir fólk sem starfar á átakasvæðum. Það segir sig sjálft að það þarf að gera það líka fyrir íslenska friðargæsluliða. Ég held að það hafi kannski minnst með það að gera í hvaða stéttarfélagi þeir eru, þetta er bara spurning um að staðið sé þannig að flutningunum og störfum þeirra að sómi sé að og öll réttindi fólksins séu tryggð.

Einnig vil ég víkja að umhverfismálunum, frú forseti. Þau hafa verið gerð lítillega að umræðuefni í dag. Nú hefur komið á daginn í nýlegri könnun sem gerð var hér á landi að 75% Íslendinga, ¾ hlutar þjóðarinnar, hafa áhyggjur af hugsanlegum og yfirstandandi loftslagsbreytingum. Þetta er mjög hátt hlutfall. Fólki er greinilega ofarlega í huga staða umhverfismála og ástandið á jörðinni, ekki bara í okkar nánasta umhverfi heldur um allan heim. Ég held að fólk skynji almennt mjög ríka ábyrgð okkar á því hvernig fram vindur, bæði í samningum um umhverfisvernd, á alþjóðlegum vettvangi og einnig hér heima fyrir um hvernig við getum tekið á því að draga úr útstreymi gróðurhúsalofttegunda til þess að vinna gegn loftslagsbreytingum.

Í ljósi þessarar niðurstöðu er óneitanlega ankannalegt að lesa það sem birt er á heimasíðu ráðuneytisins og ræður þeirra sem þar starfa og tala fyrir hönd Íslands á alþjóðlegum vettvangi. Það er eins og menn vilji draga úr því að loftslagsbreytingar hafi þau áhrif sem þau eru í raun hafa og vísindamenn um allan heim hafa staðfest, m.a. í miklum skýrslum á borð við þá sem unnin var á vegum Norðurskautsráðsins á síðasta ári. Íslendingar höfðu m.a. forgöngu um gerð hennar. Nú eru sendiherrar Íslands farnir að tala um „mögulegar loftslagsbreytingar“, svo ég þýði nú beint úr ensku. Ég velti því fyrir mér hvort þeir hafi verið að lesa skáldsögur eftir Michael Crichton eða einhverja fleiri um að kannski sé þetta bara ekki að gerast, á meðan vísindalegar sannanir benda til annars. Ábyrgð okkar er engu minni en ábyrgð annarra þjóða í því að vinna gegn loftslagsbreytingum af mannavöldum. Það verðum við að gera.

Ég sé, frú forseti, að tími minn er því miður á þrotum. Mig langar í blálokin að spyrja hæstv. utanríkisráðherra um hugsanlegan vopnaviðskiptasáttmála. Ég veit að Ísland styður gerð hans en ég vildi inna hæstv. ráðherra eftir því hvað hafi verið gert frá því að stuðningi var lýst yfir við gerð slíks sáttmála í desember 2003. Hvað hefur verið gert á vegum ráðuneytisins til þess að vinna að því að fá aðrar þjóðir með í það mikilvæga verkefni að tempra vopnaviðskipti?