131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:02]

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður gagnrýndi alþjóðavæðinguna. Fyrir u.þ.b. 20–30 árum var atvinnuleysi í Indónesíu um 50% og þeir sem voru atvinnulausir fengu engar bætur enda ekkert velferðarkerfi þar. Þeir lifðu sem sagt við engar tekjur og voru skínandi fátækir og algjörlega háðir neyðarhjálp fjölskyldumeðlima. Síðan var erlendu fjármagni hleypt inn í landið og nú er nokkuð mikil atvinna í Indónesíu, þar er reyndar enn þá dálítið atvinnuleysi en miklu minna en var. Fólkið fær laun, þó að þau séu reyndar mjög lág á okkar mælikvarða, og það getur lifað. Er þetta eitthvað slæmt í huga hv. þingmanns?

Hv. þingmaður minntist ekkert á Írak og ég saknaði þess. Vill hv. þingmaður enn þá að Saddam Hussein sé við völd og gerir hún lítið úr þeim kosningum þar sem fólk í Írak, almennir borgarar, lögðu sig í lífshættu til að kjósa?