131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:06]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er erfitt að eiga málefnaleg skoðanaskipti við hv. þingmann um þetta mál þegar hann hangir í því að þetta sé spurning um hvort ég sé stuðningsmaður Saddams Husseins eða ekki. Ég er ekki stuðningsmaður Saddams Husseins og hef aldrei verið. Ég hef aldrei stutt neina harðstjóra, hvorki í huga mínum né hjarta, og það kem ég vonandi aldrei til með að gera. Þannig horfi ég á málin. Það breytir hins vegar engu um ólögmætt árásarstríð Breta og Bandaríkjamanna í Írak og sjónarmið mín og skoðanir mínar á því árásarstríði. Ég veit t.d. að konur undir stjórn Saddams Husseins höfðu það ekkert mjög skítt. Þær gátu unnið, þær gátu farið í háskóla, þær gátu keypt bíla, en þær geta það ekki í dag. Þær eru bundnar inni á heimilum sínum og þora ekki út fyrir hússins dyr af ótta um líf sitt og barnanna sinna. Þær eru fangar í eigin landi með börnin sín og fjölskyldur sínar að reyna að sjá fyrir þeim og það eru afar veikburða tilburðir. — Hv. þingmaður hristir höfuðið og skælbrosir yfir þessu, en þetta er bara málið eins og það er í dag. Ég hef upplýsingar mínar frá alveg áreiðanlegum heimildum, frá konum sem búa og starfa í Írak. Hv. þingmaður þarf því ekkert að skælbrosa eða hrista höfuðið yfir þessu. En þetta sem ég segi nú er heldur ekki stuðningsyfirlýsing til Saddams Husseins.