131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:08]

Sólveig Pétursdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður Kolbrún Halldórsdóttir talaði um það áðan að konur hefðu notið meiri réttinda þegar Saddam Hussein var við völd. Hvaðan hefur hún þær upplýsingar? Við getum jú sagt sem svo að það hafi verið ákveðið jafnrétti í Írak á þeim tíma vegna þess að allir voru kúgaðir jafnt, jafnt konur sem karlar. En hvers vegna eru konur inni á heimilum í dag? Það er ekki vegna þess að það sé stefna stjórnvalda sem eru kosin á lýðræðislegan hátt. Það er vegna hryðjuverkamanna sem hafa þessi áhrif á borgara í Írak. Þess vegna þarf að taka til höndum og hjálpa fólkinu í þessu ríki við uppbyggingu á borgaralegu samfélagi og efla lýðræði.

Ég stóð hér aðallega upp vegna þess að mér fannst mjög sérstakt hvernig hv. þingmaður talaði um mannréttindamál og spyr hvort hún telji að íslensk stjórnvöld taki ekki alvarlega þær athugasemdir sem hún fór hér yfir, og hvort hv. þingmaður sé ekki sammála því mati sem er almennt á Íslandi á alþjóðavettvangi, þ.e. að Ísland sé lýðræðisríki þar sem mannréttindi eru höfð í hávegum. Það er það álit sem við njótum. Hún nefndi sérstaklega mál eins og t.d. nauðgunarmál í sambandi við skýrsluna þar sem fjölgað hefur mjög kærum til lögreglu. Ég tel að ástæðan sé sú að við höfum verið með opna umræðu á Íslandi og leitað eftir úrræðum til að taka á þessum málum og sem betur fer hefur það orðið til þess að fórnarlömb í slíkum málum þora að kæra þessi mál. Svo er aftur annað mál ástæðan fyrir því hvers vegna dómar eru færri. Við vitum vel að sönnunarbyrði í slíkum málum er erfið og vissulega þarf að halda áfram að skoða þau mál, (Forseti hringir.) en það er líka verið að gera það.