131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:17]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Þetta er búin að vera um margt athyglisverð umræða hér í dag og ég vil þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir góða og gagnmerka ræðu. En ég verð að segja nákvæmlega eins og er að þessi síðasta umræða er búin að vera um margt athyglisverð.

Það er náttúrlega alveg ótrúlegt og ég held að það hljóti, virðulegi forseti, að vera séríslenskt að til séu stjórnmálamenn í hinum vestræna heimi og þó víðar væri leitað sem eru að reyna að gera sérstakan kvenréttindafrömuð úr Saddam Hussein. Það liggur alveg fyrir að báðir alþýðubandalagsflokkarnir, Vinstri grænir og Samfylkingin, hafa gert þetta hér úr þessum ræðustóli og annars staðar. Hér talaði hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir um það hreinlega að þetta hefði nú verið betra þegar Saddam Hussein hefði verið hvað varðaði konur í Írak og sagði að konur gætu ekki farið núna út úr húsi í Írak.

Virðulegi forseti. Ég vil benda á að í nýrri ríkisstjórn Íraks eru sjö konur. Og ég vil benda á að milljónir manna hættu lífi sínu við að fara út úr húsi til að greiða atkvæði í síðustu kosningum í Írak, bæði karlar og konur. Ég held að stjórnarandstöðunni væri nær að tala ekki eins og hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði og nefndi — ég skrifaði það niður eftir honum — að kosningarnar í Írak hefðu verið í skötulíki, þegar milljónir manna hættu lífi sínu þar sem búið var að hóta því og að einhverju leyti var framkvæmt að þeir sem tækju þátt í kosningunum mundu jafnvel gjalda þess með lífi sínu af hálfu hryðjuverkamanna. Hv. þm. Ögmundur Jónasson kom hér upp og sagði að þetta hefðu verið kosningar í skötulíki. Í sama andsvari talaði hann um að hann bæri virðingu fyrir fólki. (ÖJ: Það ber enginn virðingu fyrir hernámi.) Sá aðili, virðulegi forseti, sem segist bera virðingu fyrir fólki og kallar það að það hætti lífi sínu fyrir einhverjar kosningar í skötulíki, ég segi að slíkur málflutningur gangi ekki upp. Kaldi raunveruleikinn er sá að ef alþýðubandalagsflokkarnir hefðu haft sitt fram væri Saddam Hussein enn þá við völd í Írak, það liggur alveg fyrir.

Í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er farið yfir nokkra þætti, m.a. öryggismálin. Nú er það ekki svo að sá sem hér stendur sakni kalda stríðsins, því fer víðs fjarri, en það liggur hins vegar alveg fyrir að þær ógnir sem við stöndum frammi fyrir í dag, þó að þær séu allt öðruvísi, eru í raun engu minni en þær voru þá. Það var að mörgu leyti einfaldara að átta sig á ógninni þegar kalda stríðið var, en núna stöndum við frammi fyrir því að með tiltölulega lítilli fyrirhöfn geta aðilar, hópar, komið sér upp kjarnorkuvopnum og öðrum gereyðingarvopnum og hika ekki við að beita þeim gegn saklausu fólki eins og við þekkjum.

Ég styrkist alltaf í þeirri trú minni, það tengist því að hér var rætt um þróunarmálin, og ég tek undir það með þeim þingmönnum sem talað hafa úr flestum flokkum og sömuleiðis hæstv. utanríkisráðherra, að það er afskaplega mikilvægt og er siðferðileg skylda okkar að reyna að bæta hag þeirra jarðarbúa sem hafa hvað minnst, því að það er svo sannarlega stór hluti þeirra sem hefur það skelfilegt. Og það er skelfilegt á okkar tímum að horfa fram á að jafnvel milljónir manna á ári hverju deyi úr hungri og hafi ekki í sig og á. (Gripið fram í.)

En ég styrkist í þeirri trú minni að mjög erfitt sé að koma á öryggi og friði í heiminum og mannsæmandi lífskjörum nema mannréttindi séu virt í viðkomandi löndum. Það er auðvitað umhugsunarefni og við hljótum að líta til þess sem kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, og ég vil leyfa mér að vitna í, með leyfi forseta:

Þar segir: „Það veldur áhyggjum þegar horft er til pólitískrar og efnahagslegrar þróunar víða um heim á undanförnum áratugum hversu ríkin í Afríku sunnan Sahara hafa almennt staðið í stað eða þeim jafnvel hrakað þrátt fyrir stórfellda þróunaraðstoð. Árið 1990 höfðu 227 milljónir Afríkubúa undir einum bandaríkjadal til framfærslu á dag en áætlað er að árið 2015 verði fjöldinn að óbreyttu komin í 340 milljónir.“

Þetta segir okkur að augljóslega er ekki sama hvernig staðið er að málum og við sjáum svo sem mýmörg dæmi víðs vegar um heiminn um að það fer mjög mikið eftir því hvernig stjórnarfar er í viðkomandi landi og hvernig menn haga sér líka í innanlandsmálum hvernig til tekst. Við sjáum ýmis dæmi um ríki sem hafa verið á fátækum svæðum sem hafa samt sem áður komið málum þannig fyrir að þeim hefur vegnað vel.

Ég lít svo á að það sé líka siðferðileg skylda okkar, fyrir utan að það er okkar hagur eins og allra, að stuðla að fríverslun í heiminum. Ég er afskaplega sáttur við það að sjá og geta tekið einhvern veginn þátt í því á vettvangi EFTA, þar sem ég sit í þingmannanefnd EFTA, að EFTA hefur verið kröftugt og sérstaklega á síðustu missirum í að klára fríverslunarsamninga við ýmis lönd. Í ræðu hæstv. ráðherra er einmitt farið yfir hvað EFTA hefur verið að gera í Asíu. Svo sannarlega finnst mér líka mikið fagnaðarefni að við séum að tengjast vinum okkar og frændum Færeyingum styrkari böndum með fríverslunarsamningi. Ég tel að því meiri samskipti sem við höfum við þessa vini okkar, Færeyinga og Grænlendinga, því betra og við eigum alveg sérstaklega að rækta samskipti okkar við þær góðu þjóðir. Þó svo að við eigum eðli máls samkvæmt ekkert að binda okkur við það, við eigum að hafa góð samskipti við allar þjóðir, en það að rækta frændsemina við þessar þjóðir finnst mér vera mjög mikilvægt. (Gripið fram í: Hvað með Kanada?)

Ég tel, og það kemur fram í ræðu hæstv. ráðherra, að grundvöllurinn að velgengni okkar á undanförnum árum og við getum í rauninni litið á meira en undanfarin ár, við höfum tilhneigingu til þess að gleyma að um aldamótin 1900 vorum við fátækasta þjóð í Evrópu að því er talið var, en núna stöndum við hins vegar í allt öðrum sporum. Við höfum gert þetta m.a. með ákveðnum breytingum á íslensku efnahagslífi og breytingum sem ég vonast til að gangi aldrei til baka, þ.e. með auknu frjálsræði í efnahagslífinu, lækkun skatta, einkavæðingu og öðru slíku. Það er okkar lán að við höfum haft stjórnmálamenn sem hafa þorað að koma þeim breytingum áleiðis.

Ég sé fram á að næstu skref hjá okkur, þó að við séum ekkert búin hvað það varðar, þá held ég að það væri markmið í sjálfu sér að við reyndum að skilgreina betur viðskiptastefnu Íslands og á einhverju árabili mundum við halda áfram að lækka tolla og vörugjöld, eins og þó hefur verið gert, og jafnvel að hafa það sem markmið að afleggja þá á sem flestum vöruflokkum algjörlega. Ég held að það mundi bara ýta undir viðskipti og hagvöxt hér og þá held ég að ekki sé nauðsynlegt að binda okkur við samninga Alþjóðaviðskiptastofnunar, WTO, eða aðra þá viðskiptasamninga sem við gerum því að það er hagur þeirrar þjóðar sem opnar lönd sín fyrir viðskiptum að gera slíkt. Þá er ég ekki að vísa til þess að það eigi við alla hluti. Stærsti hlutinn af vörugjöldum er af ökutækjum, bensíni og dísilolíu, sömuleiðis áfengisgjald og tóbaksgjald. Ég átta mig alveg á því að það gilda öðruvísi hugmyndir á bak við þau gjöld. Til dæmis eru áfengis- og tóbaksgjöld partur af öðrum hugmyndum, heilbrigðisforsendum og öðru slíku, og ætla ég ekki að ræða það nú. Sömuleiðis veitir okkur ekki af fjármunum sem við nýtum af vörugjöldum af ökutækjum og eldsneyti til að byggja upp vegakerfi okkar, því að þó að við höfum náð byltingu á undanförnum árum hvað það varðar er enn þá mjög mikið eftir. Við erum fámenn þjóð í stóru landi og þar eru stór verkefni fram undan og ég sé ekki að þau klárist á næstu árum þótt við héldum áfram með sama krafti og við höfum gert fram til þessa.

Ég held að mjög æskilegt sé að við ræðum á vettvangi þingsins hvernig við viljum standa okkur í þróunaraðstoð og hvernig við viljum standa að henni. Það er augljóst að ekki hefur allt gengið upp hjá Vesturlöndunum hvað það varðar. Ég vitnaði í klásúlu úr ræðu hæstv. ráðherra sem er bara ein enn staðfestingin á því að þrátt fyrir að menn hafi staðið að aðstoð hefur það ekki skilað sér. Það er auðvitað til lítils ef það skilar sér ekki til þessa fátæka fólks í þessum heimshlutum og við verðum því að vera gagnrýnin á það hvernig við stöndum að þróunaraðstoð.

Á síðasta þingi fór ég til New York í aðalstöðvar Sameinuðu þjóðanna og fylgdist þar með störfum þingsins. Það var um margt mjög athyglisvert. Það var t.d. mjög athyglisvert að heyra fulltrúa frá Afríku ræða þar þessi mál. Mér er minnisstætt þegar fulltrúar þeirra ríkja héldu þar miklar ræður sem í stuttu máli gengu út á að það þýddi lítið að vera að hugsa um einhverja þróunaraðstoð, hún væri góð og blessuð og sjálfsagt og mikilvægt að standa að henni, en vesturveldin, ríku þjóðirnar þyrftu að opna markaði sína ef ætti að koma málum þannig fyrir að menn gætu lifað sómasamlegu lífi í þessum löndum og að þær þjóðir yrðu efnahagslega sjálfstæðar í raun.

Við þurfum ekki annað en að líta til okkar eigin lands og setja okkur í þau spor að við sem erum fyrst og fremst útflutningsþjóð, þó svo að við séum að skjóta styrkari stoðum undir efnahagslífið og fleira, byggjum enn þá afkomu okkar að mjög stórum hluta á útflutningi á matvælum, í þessu tilviki fiski, og við værum ekki með þau lífskjör sem við erum með í dag ef markaðir hjá þeim þjóðum sem við berum okkur saman við væru lokaðir fyrir vörur okkar, það er bara svo einfalt. Ef menn væru með gríðarlega tolla og vörugjöld á þeim vörum þá væri erfitt að halda uppi lífskjörum hér á Íslandi. (Gripið fram í.) Það liggur þess vegna alveg fyrir að við þurfum að líta gagnrýnin á slíka þætti hjá okkur. Ég efast ekki um að alger samstaða er meðal þingmanna og þjóðarinnar að reyna að hjálpa vinum okkar sem búa víðs vegar um heiminn og búa við mismunandi lífskjör, sum mjög slæm, en það er ekki sama hvar það er gert og hvernig. Einn þáttur í því að bæta lífskjör þeirra er að opna markaði okkar fyrir þeirra vöru. Við eigum eðli málsins samkvæmt að huga að því hvernig við getum haft gott fordæmi í þeim efnum. Ég átta mig alveg á að þar koma inn mörg sjónarmið og í mörg horn er að líta í því efni, en maður mundi ætla að það að lækka innflutningshöft, hvaða nöfnum sem þau nefnast, á ýmsum vörum, ég tala nú ekki um á vörum sem eru ekki einu sinni framleiddar hér á landi, hlyti að vera skref í rétta átt, bæði gott fyrir íslenskt efnahagslíf og svo sannarlega mundi það hjálpa því fólki sem stendur að framleiðslu á slíkum vörum.