131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[14:43]

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir andsvar hennar. Það er í sjálfu sér erfitt að svara því þar sem það var ekkert í því sem ég var sérstaklega ósammála. Ég held að við séum sammála um þetta verkefni sem fram undan er. Við Íslendingar þurfum að leggja lóð okkar á vogarskálarnar.

Þetta sem hv. þingmaður nefndi varðandi alnæmisfaraldurinn er skelfilegra en orð fá lýst. Án þess að ég ætli að reyna að gera mig að nokkrum sérfræðingi í því veit ég bara það litla sem ég hef lesið um þær aðstæður og ástæður sem eru vægast sagt hrikalegar. Þessi álfa hefur stundum verið kölluð, svo að ég vísi í ensku, virðulegi forseti, „the lost continent“ sökum þess hve hægt hefur gengið þrátt fyrir ýmsa tilburði til að laga ástandið þar. Ég fór einu sinni til Suður-Afríku þegar ég var í stjórn aþjóðasamtaka ungra mið- og hægrimanna. Einhverra hluta vegna var mér falið að fylgjast með Afríku og hjálpa þar til við að stofna samtök. Bara það að fylgjast með, það að hitta þetta fólk og heyra frá fyrstu hendi, ræða hlutina í heimalandi þess, varð mér mjög minnisstætt. Þó að ekki væri annað en bara að kveikja á sjónvarpinu og fylgjast með fréttatímanum og sjá hvað var í gangi þar, í samanburði við það sem maður sér í öðrum löndum, er lífsreynsla út af fyrir sig. Það eru svo ofsalega mörg vandamál sem þarf að taka á í þessum heimshluta. Þó að sem betur fer sé líka vin í eyðimörkinni eru stór verkefnin þar.