131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:05]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Æ, ég varð fyrir vonbrigðum með svar hæstv. ráðherra. Varðandi fyrri hlutann og friðargæsluna þá sat ég úti á skrifstofu minni með opið sjónvarp og hlustaði á orðaskipti hæstv. utanríkisráðherra og hv. þm. Ögmundar Jónassonar. Mér fannst hæstv. ráðherra ekki svara því með skýrum hætti hvernig tryggingamálum þeirra manna sem særðust við skyldustörf úti í Kabúl væri háttað. Ég heyrði ekki annað en að sagt væri að það mál væri í farvegi. Það virðist vera í þeim farvegi að búið er að vísa því til úrskurðarnefndar almannatrygginga. Þessir menn virðast sem sagt ekki njóta annarra eða betri trygginga en aðrir ef um vinnuslys er að ræða, jafnvel þótt þeir séu sendir á ófriðarsvæði til að gegna þar störfum, þar sem líf og limir eru í hættu nánast allan daginn.

Það er rétt sem kemur fram hjá hæstv. utanríkisráðherra. Það var ótrúleg yfirlýsing sem kom frá bandarískum stjórnvöldum rétt fyrir kosningar, um að þeir ætluðu bara að hætta öllum varnarviðbúnaði. Þvílíkt virðingarleysi gagnvart íslenskum stjórnvöldum sem artað höfðu þennan varnarsamning öll þessi ár, með gagnkvæmri virðingu og í gagnkvæmu samstarfi, að stjórnvöld í Bandaríkjunum létu sér detta í hug, tíu dögum fyrir kosningar á Íslandi, að tilkynna til stjórnvalda að nú væru þeir bara hættir. Verið bara bless. Hæstv. utanríkisráðherra, sem þá var forsætisráðherra, tók vel á því máli, ég hef aldrei dregið úr því. En það verður að halda áfram. Það þýðir ekki að stoppa og halda þessu máli algjörlega í limbói. Menn verða að ljúka málinu á einhvern hátt. Þessi óvissa er óþolandi með öllu. Óvissan er verst. Menn geta ekkert brugðist við ef þeir vita ekki hvað er fram undan.

Ég ætla ekki að svara fyrir formannskandídat í Samfylkingunni, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, en oft hef ég nú heyrt hana tala á öðrum nótum en hæstv. utanríkisráðherra heldur fram úr ræðustól Alþingis.