131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:07]

utanríkisráðherra (Davíð Oddsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er nú ekki mikið fyrir að mæla til útgjalda en ég legg til að sjónvarpstæki á skrifstofu hv. þingmanns verð bætt. Það virðist a.m.k. eitthvað að talinu sem kemur út úr því apparati. Ég svaraði hv. þm. Ögmundi Jónassyni með mjög afgerandi hætti hvað þetta efni varðar.

Varðandi varnarmálin og þá þætti hefur tekist að koma þeim að á æðstu stöðum í Bandaríkjunum og það hefur öllu máli skipt. Það hefur verið gert í beinum samtölum, ekki bara einu sinni heldur oftar en einu sinni, við forseta Bandaríkjanna. Það hefur verið gert með atbeina tveggja aðalritara Atlantshafsbandalagsins fyrir atbeina íslenskra stjórnvalda. Það hefur síðan verið gert með símtölum og samtölum við núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Það hefur verið gert með símtölum og samtölum við fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Að halda því fram að ekki hafi verið unnið að þessu máli af festu og einurð, þó að ekki hafi það enn verið leiddar til hafnar þær viðræður sem við væntum að gætu hafist í janúar síðastliðnum. Það eru sannarlega ekki merki um að við höfum ekki haldið stíft og hart á málum.

Það vekur hins vegar undrun að hv. þingmaður skuli ekki hafa áhyggjur af því að formannskandídat í Samfylkingunni, sem hv. þingmaður styður, skuli ætíð, jafnan og alltaf hafa lýst því yfir að hún telji að varnarviðbúnaðurinn í Keflavík sé gamall. Það var ekki á þeim tíma sem hún studdi friðarhreyfingarnar og starfaði á vettvangi Alþýðubandalagsins og Kvennalistans. Það var ekki á þeim tíma. Það hefur jafnan verið og síðast í umræðunni í kringum kosningarnar, sem hv. formannsefni var forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar. Hún hlýtur að vekja athygli á Suðurnesjum, þessi afstaða hv. þingmanns í framboðsmálum til formennsku í Samfylkingunni.