131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:09]

Jón Gunnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Já, það er rétt, að það hefur vakið athygli á Suðurnesjum að sá sem hér stendur styðji Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í formannsslag í Samfylkingunni. Það má kannski segja að hæstv. utanríkisráðherra hafi að einhverju leyti sett fót undir þau orð sem ég lét frá mér í blaðagrein, þ.e. að andstæðingar Samfylkingarinnar ættu ekki að ráða því hvern við kysum sem formann í Samfylkingunni heldur ættum við, sem værum flokksbundin í þeim flokki og hefðum kjörgengi og atkvæðisrétt, að gera upp við okkur hvern við vildum hafa sem formann en láta sem vind um eyru þjóta orð andstæðinga okkar úr öðrum flokkum um það hvað þeim hugnaðist í þessum efnum.

Ég hef unnið með Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur í framtíðarhópnum um stefnumótun Samfylkingarinnar. Ég hef engar áhyggjur af stefnu Samfylkingarinnar í öryggis- og varnarmálum og engar áhyggjur af stefnu Samfylkingarinnar í málefnum varnarstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli því að ég veit að sú stefna gengur ekki gegn hagsmunum Suðurnesja.

Hæstv. utanríkisráðherra sagði: Hvað er þingmaðurinn að fara? Er ekki verið að vinna, er ekki verið að gera eitthvað? Ég er búinn að eiga bein samtöl við Bush oftar en einu sinni, tala við tvo aðalritara, núverandi og fyrrverandi aðalritara NATO, búinn að eiga samtöl og símtöl við fyrrverandi og núverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Colin Powell og Condoleezzu Rice.

Ég spyr á móti: Getur verið ásættanlegt, eftir að málið er búið að vera á þessu háa stigi allan þennan tíma, að það gerist ekki neitt? Sjáum við fram á að sú afstaða sem bandarísk stjórnvöld lýstu þegar þau sögðu án fyrirvara: Við erum farin, verið þið bless, að sú afstaða sé kannski ákveðið virðingarleysi við Íslendinga og það virðingarleysi haldi áfram (Forseti hringir.) í þeim samræðum sem nú eru í gangi?