131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[15:43]

Jón Bjarnason (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum utanríkismál og hæstv. utanríkisráðherra hefur flutt Alþingi munnlega skýrslu sína um framvindu utanríkismála eða framvindu mála sem íslensk utanríkisþjónusta hefur beitt sér fyrir og staðið að og tekið þátt í á alþjóðavettvangi.

Það er náttúrlega augljóst mál að þegar við hlýðum á þá ræðu og skýrslu utanríkisráðherra speglast þar bæði áhersla og stefna núverandi ríkisstjórnar í utanríkismálum, að sjálfsögðu. Sum þau atriði sem hæstv. utanríkisráðherra hefur dregið hér upp í utanríkismálum ganga svo sannarlega í berhögg við t.d. stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs í utanríkismálum og einmitt þar speglast þær andstæður.

Þó eru ákveðin atriði í ræðu utanríkisráðherra sem ég vil hér taka undir. Ég styð vissar áherslur sem þar eru dregnar fram, m.a. í ferðamálum og á alþjóðavettvangi. Þar er einmitt lögð áhersla á og áréttað hið gríðarlega mikilvægi ferðaþjónustunnar í íslensku efnahagslífi. Þar er minnst á að um 15% af nettógjaldeyristekjum þjóðarinnar komi frá ferðaþjónustunni og allar líkur benda til að forsendur séu fyrir því að þær bara haldi áfram að aukast, og nokkuð með svipuðum hraða og á síðustu árum.

Ég tek undir þær áherslur sem þar eru dregnar upp og harma reyndar að á fjárlögum þessa árs skuli hafa verið skornar niður á annað hundrað milljónir króna fjárveitingar til markaðssetningar í ferðamálum erlendis. Það er ekki alveg í takt við áherslur hæstv. utanríkisráðherra. Engu að síður er þó ástæða til að taka undir þau orð sem sett eru fram í ræðu ráðherrans.

Annað atriði sem er minnst á í ræðu hæstv. utanríkisráðherra er að unnið sé að fríverslunarsamningum við Færeyjar. Í undirbúningi er samningur við Grænland um fríverslun. Eins og hæstv. ráðherra tók fram í ræðu sinni er ávallt gleðiefni að ganga frá jákvæðum samningum sem báðir aðilar eru ánægðir og sáttir með við nágranna okkar eins og Færeyinga og Grænlendinga. Ég tek heils hugar undir þær áherslur sem hæstv. utanríkisráðherra dregur fram varðandi Færeyjar og Grænland.

Ýmis fleiri atriði getur líka verið ástæða til að fara jákvæðum orðum um, herra forseti, en ég ætla þó að víkja hér að öðru.

Ég sagði í upphafi að það væri mikill munur á ákveðnum meginatriðum í utanríkisstefnu þessarar ríkisstjórnar og þeirrar stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur í utanríkismálum. Við þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs höfum lagt fram á Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnu Íslands í alþjóðasamskiptum þar sem rakin eru grunnatriði í utanríkisstefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill hafa sem hornstein fyrir utanríkismál á vegum íslensku þjóðarinnar. Með leyfi forseta langar mig til að vitna hér aðeins í tillögu til þingsályktunar sem þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa flutt. Þar segir:

„Alþingi ályktar að hagsmuna Íslands verði best gætt með því að landið varðveiti sjálfstæði sitt og fullveldi og standi utan ríkjasambanda en hafi við þau sem besta samvinnu með sérsamningum án aðildar. Þannig verði sjálfstæð og óháð staða landsins nýtt til að treysta samskiptin við ríki, bandalög og markaði beggja vegna Atlantshafsins og við aðra heimshluta. Sérstök áhersla verði lögð á þátttöku í vestnorrænu og norrænu samstarfi og aðra svæðisbundna samvinnu í okkar heimshluta, þátttöku í starfi Sameinuðu þjóðanna, starfi Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu og starfi Evrópuráðsins.

Vegna EES-samningsins og annarra framtíðarsamskipta við Evrópusambandið verði af Íslands hálfu leitast við að þróa þau í átt til tvíhliða samninga um viðskipti og samvinnu.“

Í ályktun okkar var einnig einmitt lagt til að kosin yrði nefnd skipuð fulltrúum allra þingflokka til að vinna með ríkisstjórninni við nánari útfærslu slíkrar stefnumótunar. Hvort sem var vegna þessarar áherslu í tillögu okkar eða með öðrum hætti til komið ákvað núverandi utanríkisráðherra, þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Davíð Oddsson, að skipa nefnd á ákveðnu sviði utanríkismála, þ.e. varðandi tengsl og samskipti Íslands við Evrópusambandið, bæði í nútíð og framtíð, hvað gæti best beðið okkar þar.

Ég tel að sú tillaga að skipa þá nefnd hafi verið einmitt mjög gott innlegg í þróun og stefnumörkun í íslenskum utanríkismálum.

Ég leyfi mér í þessu sambandi að benda á að það er skoðun mín, og fleiri þingmenn Vinstri grænna hafa einmitt lagt hana fram, að telji menn að EES-samningurinn sé orðinn íþyngjandi, óþægilegur eða þjóni ekki hagsmunum okkar á viðunandi hátt eigum við að sjálfsögðu að kanna hvort þróa megi þann samning upp í tvíhliða samning milli Íslands og þá Evrópusambandsríkjanna, sem og þá að þróa tvíhliða samninga við önnur ríki heimsins. Þeir samningar yrðu gerðir á forsendum samningsaðilanna sem þar ættu hlut að máli og ég tel að gæti orðið farsælt.

Ég vil síðan aðeins víkja að öðru atriði í utanríkismálunum. Nokkrir sem hafa tekið til máls í þessari umræðu hafa lýst för sinni til Palestínu og Ísraels nú nýverið. Ég verð að segja hér að þessi ferð var mjög áhrifarík, fyrst og fremst að koma til þessa ríkis, Palestínu-/Ísraelsríkis, sem ég las um sem barn, eins og fleiri. Jafnhliða sem við lásum Íslandssöguna, um Snorra Sturluson og landnámið og alla Íslandssöguna, lásum við biblíusögurnar, og Hebron, Betlehem og Dauðahafið voru nánast alveg jafnnærri okkur og Reykholt og Skálholt, a.m.k. lásum við það jöfnum höndum og hrifumst með. Þess vegna var afar áhrifaríkt að koma á þessar slóðir og finna að maður á vissan hátt þekkti sig.

Það var líka áhrifaríkt að ferðast á meðal þessara þjóða, bæði á meðal palestínsku þjóðarinnar og þeirrar ísraelsku. Þá rifjaðist upp forsagan um stofnun Ísraelsríkis sem gerðist í lok síðustu heimsstyrjaldarinnar, þegar henni lauk og þjóðir heimsins voru að gera upp þau dapurlegu og hryllilegu atriði í þeirri harmsögu allri, seinni heimsstyrjöldinni, sem voru helförin gegn gyðingum. Þá var ákveðið að stofnað skyldi Ísraelsríki árið 1948 og Sameinuðu þjóðirnar beittu sér fyrir því árin 1947 og 1948.

Árið 1947 er hið palestínska land afhent Sameinuðu þjóðunum og eftir umfjöllun þar lögðu Sameinuðu þjóðirnar til stofnun tveggja ríkja á þessu landi, Ísraelsríkis og Palestínu. Nágrannalöndin voru náttúrlega ekki hrifin af þessari skipan og upphófust þá deilur og stríð sem standa enn. Í stríði tapa alltaf allir.

Þegar við vorum að ferðast um hið palestínska ríki sáum við hvernig þessu hertekna landi hefur verið skipt upp í svæði með múrum, það var verið að múra einstaka borgir inni. Jarðirnar voru fyrir utan múrana. Í einni borg sem við komum var bara eitt meginhlið sem var vaktað en annars var hún alveg hringgirt. Íbúarnir voru afgirtir frá fjölskyldum sínum sem voru utan múranna, frá löndum sínum og jörðum og atvinnu sinni. Fólkið sem var utan múranna var afgirt frá því að sækja skóla, sjúkrahús eða aðra almenna þjónustu og þá fylltist maður að sjálfsögðu mikilli depurð, ekki síst þegar rökin sem leidd eru fyrir þessu eru þau að þetta þurfi að gera í öryggisskyni. Í öryggisskyni þarf að ryðja land meðfram þessum gríðarlega háa múr, a.m.k. 400 metra land beggja megin við múrinn, þar sem enginn má koma. Þar var svokallað öryggissvæði. Ef menn missa boltann sinn inn á þau svæði eiga þeir á hættu að verða skotnir eins og nýlegt dæmi í fréttum sannar. Þá verður maður dapur og mjög sorgmæddur.

Þegar við komum inn í Jerúsalem og fórum þar inn í þann borgarhluta sem Ísraelsmenn ráða og inn í stórverslun sem þar var, miklu stærri en við þekkjum hér, voru þar vopnaðir verðir við allar dyr. Til að komast inn í þessa verslun þurftum við nánast að afklæðast og allt var gegnumlýst. Bara Ísraelsmönnum var hleypt inn í þessa verslun og svo öðrum þeim sem voru talið óhætt að sleppa þarna inn, eins og í þessu tilfelli okkur Íslendingunum. Inni í versluninni voru alls staðar hermenn með alvæpni. Allt þetta var gert í öryggisskyni og til að vernda friðinn.

Friður — undir þessum kringumstæðum getur aldrei orðið friður. Við upplifðum þennan gríðarlega ótta sem alls staðar var, meðal Ísraelsmanna og Palestínumanna. Palestínumenn hafa ekki einu sinni yfir landi að ráða. Það er verið að tala um heimastjórn Palestínu í ákveðnum borgum en landinu ráða Ísraelsmenn og þeir ráða hvenær þeim þóknast að taka af þeim þetta sjálfstjórnarvald, ef það má kalla það svo, sem er bara sjálfstjórnarráð.

Bæjarhlutar Palestínumanna voru lokaðir og fólk stóð í biðröðum til að komast út og inn úr bænum sínum. Þeir urðu kannski að bíða klukkutíma eða lengur og máttu ekki fara á bílnum sínum yfir.

Herra forseti. Þetta öryggi sem er nú í Ísrael og Palestínu er ógnun við heimsfriðinn. Að byggja upp öryggi með þessum hætti getur aldrei leitt til friðar. Bygging þessara múra í Ísrael og Palestínu er mér hryllingur. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hér: Hafa Íslendingar (Forseti hringir.) mótmælt á alþjóðavettvangi byggingu þessara aðskilnaðarmúra í Palestínu og Ísrael (Forseti hringir.) sem er ein mesta ógnunin við heimsfriðinn að mínu mati, a.m.k. á þessu svæði?