131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:14]

Magnús Þór Hafsteinsson (Fl):

Virðulegi forseti. Mig langaði til að koma hér upp í dag öðru sinni til að fjalla aðeins nánar um ræðu hæstv. utanríkisráðherra sem hann flutti í morgun um utanríkismál. Það er nú þannig til háttað á minni skrifstofu að sjónvarpið virkar og ég hef því getað fylgst með umræðum í dag og mér hafa þótt þær bæði áhugaverðar og fyrir margt athygliverðar. Það hefur kannski blásið mér í brjóst, veitt mér innblástur til að koma hingað í annað sinn, ég skal ekki um það segja.

Hæstv. utanríkisráðherra hóf ræðu sína hér í morgun m.a. á því að tala um Evrópusambandið og þar hygg ég nú, þó að við séum ósammála um ástandið í Palestínu, að við séum nokkuð sammála um pólitíkina varðandi Evrópusambandið. EES-samningurinn hefur verið okkur til gæfu og ég sé enga ástæðu til þess að við Íslendingar séum neitt að daðra við inngöngu í þetta samband.

Mig langar núna, af því að rétt vika er til þingkosninga í Bretlandi, til að vekja athygli á því að Íhaldsflokkurinn, þ.e. systurflokkur eða bróðurflokkur hæstv. utanríkisráðherra í Bretlandi, hefur meitlað og mótað nýja stefnu í sjávarútvegsmálum. Innan Íhaldsflokksins eru öfl sem eru mjög ósátt, og hafa ávallt verið, við aðild Breta að Evrópusambandinu. Gríðarleg óánægja ríkir á Bretlandseyjum, bæði í Skotlandi og líka sunnar í Bretlandi, með hina svokölluðu sameiginlegu fiskveiðistefnu Evrópusambandsins. Breski Íhaldsflokkurinn hefur farið í þessa kosningabaráttu núna með svokallaðan grænan pappír sem hann kynnti fyrr í vetur. Sá inniheldur nýja fiskveiðistefnu, nýja fiskveiðipólitík sem breskir íhaldsmenn vilja innleiða á Bretlandseyjum.

Sú pólitík líkist mjög þeirri sem við í Frjálslynda flokknum höfum verið að boða, líkist mjög þeim áherslum sem við höfum viljað leggja á fiskveiðistjórnarmál, sjávarútvegsmál hér á Íslandi. Það er náttúrlega fyrir marga hluti nokkuð athyglivert að einmitt Sjálfstæðisflokkurinn skuli í lengstu lög halda áfram að verja þá sjávarútvegsstefnu sem fylgt hefur verið hér á landi í tvo áratugi þrátt fyrir að það hafi sýnt sig að hún hafi ekki skilað því sem hún átti að skila. Ég get alveg sagt: Því miður. Ég ætla ekki að segja að menn hafi ekki lagt af stað með góðar áætlanir og fögur fyrirheit en því miður hefur fæst af því gengið eftir. Ég held að við verðum bara að fara að viðurkenna það. Sérstaklega í ljósi nýjustu fregna af ástandi og horfum þorskstofnsins verðum við að fara að viðurkenna að þetta hefur alls ekki gengið upp hjá okkur. Við erum ekki á þeirri vegferð sem við ætluðum í þegar við lögðum af stað fyrir rúmlega 20 árum.

En nóg um það, virðulegur forseti, ég ætla ekki að eyða dýrmætum mínútum í að þvarga yfir þessu, það verður að bíða betri tíma, en mig langar aðeins til að fara yfir helstu atriðin í nýrri sjávarútvegsstefnu breska Íhaldsflokksins okkur öllum til upplýsingar. Það kerfi byggist sem sagt á því að breskir íhaldsmenn vilja hverfa frá kvótastýrðum fiskveiðum í botnfiski, eins og við viljum gera í Frjálslynda flokknum, þeir vilja taka upp sóknarstýrt fiskveiðikerfi. Þeir vilja líka leggja blátt bann við brottkasti á fiski og það höfum við að sjálfsögðu hér við Ísland líka þó að það hafi reyndar verið vandamál um margra ára skeið. Þeir vilja leggja áhersluna á lokun veiðisvæða til að vernda fiskstofna og það er liður í því sem við í Frjálslynda flokknum höfum boðað ásamt því að vera með sóknarstýrt kerfi, þ.e. að við getum lokað ákveðnum svæðum til að vernda fiskstofna eða hluta fiskstofna, til að mynda hrygningarstofn fyrir veiðum þegar hann er að hrygna. Þeir vilja líka loka svæðum tímabundið og það er að sjálfsögðu aðferð sem okkur hugnast. Þetta eru aðferðir sem hafa verið notaðar hér á Íslandi, þ.e. lokun svæða til lengri tíma og síðan til skemmri tíma í bland við kvótakerfið hér á landi.

Breskir íhaldsmenn leggja áherslu á að notuð séu veiðarfæri sem hafa góða kjörhæfni, geta þá veitt ákveðnar tegundir eða ákveðna stærð af fiskum. Þetta höfum við haft hér líka í kvótakerfinu. Við í Frjálslynda flokknum viljum leggja svolítið öðruvísi áherslur á þessi mál en gert hefur verið í fiskveiðistjórn hér við land fram til þessa, m.a. leggja meiri áherslu á svokallaðar krókaveiðar þegar verið er að veiða tegundir botnfiska. Ég ætla ekki að fara nánar út í það.

Íhaldsmennirnir vilja leggja áherslu á að það verði lágmarksstærðir á fiski, að menn hafi einhver viðmiðunarmörk eins og við höfum reyndar hér í kvótakerfinu. Þeir vilja að sjálfsögðu að bátar verði háðir veiðileyfum og það viljum við einnig í Frjálslynda flokknum þó að við viljum hafa þetta tiltölulega rúmt í minnsta flotanum enda teljum við að minnstu bátarnir í strandveiðiflotanum verði aldrei nein ógn við neina fiskstofna. Það eru aðrir þættir eins og veðurfar og þess háttar sem hafa hömlur.

Þetta eru helstu liðirnir í nýrri fiskveiðistefnu breskra íhaldsmanna. Það sem skilur fyrst og fremst á milli þess sem við höfum hér við land og þess sem þeir vilja innleiða við Bretlandsstrendur er að þeir vilja afnema kvótastýringuna og telja að það sé miklu vænlegra fyrir breskt þjóðfélag og þá sérstaklega sjávarbyggðirnar því að fiskveiðar hafa þrátt fyrir allt verið mikilvægar á ákveðnum svæðum við Bretlandseyjar. Þó að þær skipti mjög litlu máli í heildartilliti fyrir þjóðfélagið allt eru þær mjög mikilvægar til að mynda í Norðaustur-Skotlandi, í sjávarbæjunum þar. Þangað hef ég komið og einmitt orðið var við þessa miklu óánægju, ekki síst með árangursleysi fiskveiðistjórnar Evrópusambandsins sem er algjör hryllingur og hefur verið lengi, það vitum við. Ég bið bara allar góðar vættir að hjálpa mér ef sú fiskveiðistjórn ætti eftir að hellast yfir okkur hér á Íslandi því að þó að það hafi verið slæmt hér yrði það enn verra ef Evrópusambandið kæmist með puttana í það, það er alveg á hreinu.

Það er sem sagt mikil óánægja með árangursleysið en líka er mikill ótti við það að þjóðir sunnan úr álfunni, sunnan úr Evrópu, sæki norður á bóginn og leggi undir sig mið heimamanna. Þetta er raunveruleg og mjög alvarleg hætta sem blasir við fólki á Bretlandseyjum, þ.e. að þjóðir eins og Spánverjar og Portúgalar sem búa yfir miklum fiskveiðiflotum sæki norður á bóginn. Mér hefur verið tjáð það í þessum sjávarútvegsbæjum að það sé stöðugur þrýstingur af hálfu þessara þjóða að fá að komast norður á bóginn, komast í Norðursjóinn, fá að veiða norður af Bretlandseyjum allt upp að færeysku lögsögunni og jafnvel enn lengra. Bretar eiga mjög í vök að verjast, Skotar einkum og sér í lagi, andspænis þessum þrýstingi frá Evrópusambandinu.

Í það heila, virðulegi forseti, fagna ég því að það er ekkert að sjá í þessari ræðu sem gefur tilefni til að óttast að ríkisstjórnin ætli neitt að fara að daðra við aðild að Evrópusambandinu.

Tíminn líður hratt, herra forseti. Mig langaði til að koma inn á annað mál. Það eru náttúrlega ótal mörg athygliverð mál sem hæstv. utanríkisráðherra minntist á í ræðu sinni í morgun sem hefði verið gaman að ræða svolítið nánar. Ég kom aðeins inn á ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs í fyrri ræðu minni. Það er eitt mál einkum og sér í lagi sem mig langar til að ræða, sem enginn hefur minnst á fram til þessa, og það eru þau atriði sem hæstv. utanríkisráðherra kom inn á í lokaorðum sínum. Þar er á ferðinni stórmál, mjög ánægjulegt að ríkisstjórnin skuli hafa hafið vinnu við það að undirbúa málsókn okkar fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag gegn Noregi vegna hins svokallaða Svalbarðamáls. Þetta hygg ég, virðulegi forseti, að sé kannski eitt mikilvægasta utanríkismál okkar Íslendinga um þessar stundir. Ég er í raun og veru ekki í neinum vafa um það. Þarna eru í húfi alveg gríðarlegir hagsmunir, framtíðarhagsmunir, fyrir okkur Íslendinga. Norðmenn eru að reyna að slá eign sinni á gríðarlega stórt svæði, bæði landsvæði og hafsvæði norðaustur af okkur, og á þessum svæðum eru miklar auðlindir, ekki bara fiskstofnar heldur líka olía og gas.

Norðmenn gera sér mjög vel grein fyrir því að þarna eru miklar auðlindir. Nýverið kom út stór og viðamikil skýrsla á vegum utanríkisráðuneytisins í Noregi, skýrsla upp á einar 130 blaðsíður. Það var nefnd sérfræðinga sem skilaði af sér vinnu sem hófst fyrir réttu einu og hálfu ári, að ég hygg, og þar er einmitt bent á það að á þessum svæðum sé að finna mikilvægar auðlindir með tilliti til olíu, kola og einnig gass.

Það er mín bjargfasta trú og skoðun að við Íslendingar eigum að sýna Norðmönnum fulla hörku í þessu máli og eigum að halda áfram ótrauð að undirbúa málsókn fyrir Alþjóðadómstólnum í Haag gegn Norðmönnum því að ég hygg að við munum ekki vinna þetta mál öðruvísi en fyrir dómstólum. Það er alveg fullreynt, að ég tel, að Norðmenn muni nokkuð gefa eftir. Þeir hafa verið vanir að beita fyrir sig klókindalegri pólitík sem gengur út á það að ávinna sér eins konar hefðarrétt, fara hljóðlega um í von um að engir mótmæli svo alvarlega að eftir verði tekið. Þetta hefur tekist ágætlega fram að þessu. Þeir hafa náð eins konar þegjandi samkomulagi við Rússa sem virðast jafnvel vera með þeim í einhverju samkrulli um þessi mál sem síðan gengur þá út á það að halda hinum fyrir utan. Evrópusambandið virðist ekki hafa sýnt þessu mjög mikinn áhuga, enda hefur kannski Evrópusambandinu verið mútað með veiðikvótum í Barentshafi í gegnum árin. Þá standa einungis eftir Íslendingar og ég hygg að það hljóti að verða hlutverk okkar að fá skýra niðurstöðu í þetta mál, mjög skýra niðurstöðu um það hver eigi í raun og veru tilkall til yfirráða á Svalbarða og hafsvæðinu þar allt í kring.

Hæstv. utanríkisráðherra talar nokkuð skýrt um þetta mál í ræðu sinni, mun skýrar og ítarlegar um þetta mál en mörg önnur mál sem hann kom inn á þar á undan. Ég verð að segja að ég hef líka fylgst með fréttum það sem af er degi og mér finnst undarlegt að enginn fréttamiðilll skuli hafa greint frá þessu starfi og lagt áherslu á það að beina kastljósinu einmitt að þessu máli. Hér er á ferðinni mjög mikilvægt og stórt mál. Það passar líka vel inn í árstíðina, nú er að koma vor og síldin að ganga hér yfir. Enn er ógengið frá samningum um skiptingu síldarinnar við Evrópusambandið, Norðmenn og Færeyinga, og það er að sjálfsögðu einnig mjög stórt utanríkismál því að þessi síldarstofn er í mjög örum vexti, verð á síld afskaplega hagstætt um þessar mundir og þarna því um gríðarleg verðmæti að ræða.

Í það heila, virðulegi forseti, fer þessari umræðu að ljúka reikna ég með. Ég vil að lokum lýsa undrun minni á því að við höfum ekkert séð til ferða þingmanna Famsóknarflokksins í þessari umræðu í dag. Ég held að Framsóknarflokkurinn eigi eina fjóra fulltrúa í utanríkismálanefnd Alþingis, enginn þeirra hefur sést við umræður í dag. (Gripið fram í.) Mér þykir þetta mjög skrýtið því að fyrrverandi utanríkisráðherra og núverandi hæstv. forsætisráðherra er jú formaður Framsóknarflokksins og ég hygg að það hefði ekki skaðað að hv. þingmenn Framsóknarflokksins, hins ríkisstjórnarflokksins, hefðu komið hingað, látið ljós sitt skína og tekið þátt í umræðum og þá um leið að sjálfsögðu staðið fyrir máli sínu. Utanríkismálin eru mjög mikilvægur málaflokkur, þar er af mörgu að taka og það er hægt að hreyfa við ótal mörgum mikilvægum þjóðþrifamálum í umræðu á svona degi. Þetta hygg ég að sé alvarlegur afleikur hjá vinum okkar í Framsóknarflokknum. Við skulum bara vona að þeir sitji á skrifstofum sínum og að sjónvarpstækin þeirra séu í lagi þannig að þeir hafi þá a.m.k. vitað hvað fór hér fram og hvernig púlsinn er í utanríkismálaumræðu (Gripið fram í: Sammála því.) á Íslandi í dag.

Það er engin ástæða fyrir stjórnmálaflokk að hætta að fylgjast með utanríkismálum þó að hann ráði ekki lengur yfir utanríkisráðuneytinu.