131. löggjafarþing — 119. fundur,  29. apr. 2005.

Utanríkismál, munnleg skýrsla utanríkisráðherra.

[16:43]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í fyrsta lagi er það misskilningur að ég hafi verið að draga eitthvað í land varðandi ummæli mín um kosningarnar í Írak þegar ég sagði að þær hefðu verið í skötulíki. Auðvitað mætti hafa miklu stærri orð um það. Það kom mér ekki á óvart að kosningaþátttaka var mikil og að fólk vildi kjósa. Það er bara lýðræðislegur vilji friðelskandi fólks að koma á eðlilegu stjórnarfari. Það má segja að ef þátttakan var 7,5–8 milljónir hafi hún verið mikil miðað við aðstæður að þessu leyti. Samanborið við það sem gerist í okkar heimshluta er þetta hins vegar ekki mikið. Það er talið að 13 milljónir hafi verið á kjörskrá og 58% þeirra hafi kosið en langt undir helmingi kosningarbærra manna tók þátt í kosningunum.

Um lygarnar og ósannindin í tengslum við árásina á Írak og hernámið og stríðsglæpina, pyntingar í fangelsum o.s.frv., má hafa langt mál. Sömuleiðis um Allawi forsætisráðherra. Það eru ekki sögusagnir, þetta voru fréttir sem voru sagðar í fjölmiðlum á Vesturlöndum, þegar hann myrti nokkra unglinga í fangelsi í Írak en það hefur ekki þótt þess virði að kanna á okkar bæjum.

Ég vil víkja aðeins að umræðunni um kjarnorkuvopn. Ég ætla ekki að leggja neinn annan skilning í orð hæstv. ráðherra en ég tel að búi að baki þeim eins og þau eru meint frá innstu hjartans rótum. Hættan við kjarnorkuvopn, hver svo sem hefur þau á hendi, er einmitt sú að menn telji sig vera að koma í veg fyrir aðra og stærri ógæfu með að beita þeim. Þess vegna eru þau ekki aðeins hættuleg í höndum þeirra sem maður telur vera skálka, heldur í höndum allra.

Mér var það mikið áhyggjuefni, og meira en það, það var hálfgert (Forseti hringir.) áfall þegar ég heyrði fulltrúa bandaríska (Forseti hringir.) sendiráðsins í Reykjavík lýsa því að þetta hefði verið heppilegt og að það væri engin eftirsjá (Forseti hringir.) yfir því á þeim bænum að hafa beitt þessum vopnum.