131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Skattskylda orkufyrirtækja.

364. mál
[10:39]

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Alþingi hefur borist fjöldi álitsgerða vegna þessa máls og að undanskildum álitsgerðum Verslunarráðsins og Samtaka atvinnulífsins eru þær flestar mjög gagnrýnar á málið og beina því til Alþingis að þetta þingmál verði ekki lögfest en það gengur sem kunnugt er út á það að skattleggja raforkugeirann.

Með þessu frumvarpi, ef það verður að lögum, er stigið enn eitt skrefið í þá átt að markaðsvæða raforkugeirann í landinu. Hér er um að ræða grunnþjónustu sem tekur til lífsnauðsynja og mjög ólíklegt að á þessu sviði skapist virkur markaður sem komi til með að færa verðlagið niður. Út á það m.a. gengur gagnrýni verkalýðssamtakanna í landinu sem leggjast mjög eindregið gegn því að frumvarpið verði samþykkt.

Mjög alvarleg gagnrýni kemur einnig frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga sem bendir á að þetta komi til með að þrengja fjárhag sveitarfélaganna. Fjármunir verða færðir í ríkissjóð þegar fram líða stundir, við þurfum að horfa á málið til langs tíma, en að sama skapi mun minna ganga til sveitarfélaganna sem fram til þessa hafa mörg hver fært arð út úr orkugeiranum inn til samfélagsþjónustunnar til að fjármagna hana. Það eru mörg önnur atriði sem fram koma í álitsgerðum sem Alþingi hafa borist og við leggjum áherslu á að meiri hlutinn á Alþingi endurskoði hug sinn. Við munum að sjálfsögðu í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi þótt við munum styðja breytingartillögur sem fram hafa komið frá Frjálslynda flokknum þar sem reynt er að gera þó það besta úr þessu máli.