131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[10:59]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Það er varla hægt að láta þessa umræðu fara fram án þess að á það verði aðeins drepið hvernig Íslendingar standa að vígi gagnvart innleiðingu þeirra þátta þessarar tilskipunar sem þegar hafa verið til umfjöllunar á Alþingi áður, þá auðvitað sérstaklega hvað varðar málefni lækna í starfsnámi. Þar háttar einmitt svo til um þessar mundir að Ísland er komið í ónáð og hefur nýtt, og meira en nýtt, alla þá fresti sem það hefur til að hrinda þeim hlutum í framkvæmd. Auðvitað hefði verið ánægjulegra ef samhliða þessu máli hefði verið hægt að upplýsa um það hvernig búið væri að hrinda því í framkvæmd og takast á við það á íslenskum heilbrigðisstofnunum, einkum og sér í lagi stóru sjúkrahúsunum þar sem læknar eru í starfsnámi, Landspítala – háskólasjúkrahúsi og Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, hvað varðar breytingar á rekstri þar, mönnun deilda og annað því um líkt sem þetta kemur inn á.

Fyrst má segja um þessa vinnutímatilskipun almennt, eða þessar samevrópsku reglur, um ýmis ákvæði sem varða öryggi og hollustuhætti á vinnustöðum, rétt starfsmanna og þar með talið til eðlilegs hvíldartíma, að þarna var á ferðinni samræming á reglum sem voru auðvitað að verulegu leyti til staðar í löggjöf ríkja. Sérstaklega átti það við um Norðurlöndin sem með sinn tiltölulega þróaða vinnumarkað voru í flestum tilvikum jafn vel, og í sumum tilvikum betur, sett en þessi vinnutímatilskipun hafði í för með sér. Sumt af því á sér langan aðdraganda, annað skemmri. Það fór þó auðvitað ekki hjá því að reglurnar höfðu áhrif á einstakar stéttir og hvað Íslendinga varðaði muna menn sjálfsagt umræður um þau áhrif sem þetta hafði á flutningastarfsemi í landinu og hvíldartíma bílstjóra. Auðvitað eru aðstæður hér sérstakar og þetta getur komið mismunandi við eftir starfsgreinum og eftir þeim aðstæðum sem þar er við að búa.

Sjómannastéttin og farmannastéttin eru að hluta til með sérreglur í þessum efnum eins og kunnugt er og þannig mætti fara yfir það hvernig þetta kom við einstaka hópa. Langmestu áhrifin held ég að verði þó að segja að þetta hafði eða átti að koma til með að hafa á t.d. lækna, bæði sérfræðinga í starfi og lækna í starfsnámi. Þegar þessar reglur komu til framkvæmda og ekki voru neinar undanþágur til að styðjast við, hvað varðaði t.d. sérfræðinga á sjúkrahúsum, varð að gera hér talsverðar ráðstafanir sem kostuðu nokkur fjárútlát vegna þess að það vaktakerfi sem hafði verið við lýði án hvíldartíma fékk ekki staðist eftir að hinar nýju evrópsku reglur um hvíldartíma komu til sögunnar. Sérstaklega kom þetta við reksturinn á minni deildum, á fámennum sérhæfðum deildum þar sem kannski 3–4 sérfræðingar gengu vaktir og erfitt var um vik að uppfylla ákvæðin um lágmarkshvíldartíma nema með ráðningu viðbótarstarfsmanna.

Ég minnist þess t.d. að Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri þurfti að fara í allverulegar breytingar og fá þó nokkrar fjárveitingar til að mæta þessum áhrifum. Það tókst og engum finnst það annað en sjálfsagt í dag að menn tókust á við þessar breytingar og leystu úr þeim. Þeim mun undarlegra er það, frú forseti, að enn er allt í þoku hvað varðar þann þátt málsins hér sem snýr að læknum í starfsnámi, sem sagt læknakandídötum sem lokið hafa grunnnámi í læknisfræði en eru að vinna á spítölunum kandídatsár sitt eða eru lagðir af stað í sérnám sem felst í vinnu á deildum. Sáralítið virðist hafa gerst í þessum málum árum saman og ég held að það hljóti að verða að segjast að þær upplýsingar sem komu fram í utanríkismálanefnd um þetta efni og vörðuðu stöðuna á t.d. Landspítala – háskólasjúkrahúsi vekja verulega undrun í ljósi þess hversu langan tíma menn hafa haft til að búa sig undir og glíma við þetta. Í aðalatriðum virtist mér málið standa á nákvæmlega sama stað og það gerði fyrir tveimur ef ekki þremur árum þegar utanríkismálanefnd var með þessi mál síðast til umfjöllunar af sambærilegum ástæðum, að verið var að innleiða breytingar eða nýja hluti sem vörðuðu vinnutímatilskipunina.

Auðvitað er það alveg út úr öllu korti að menn skuli ekki hafa undirbúið a.m.k. þessar breytingar þannig að fyrir liggi nú áætlun um það hvernig menn vinni sig út úr þessu og komist hjá því að sæta kærum og klögumálum sem er þó í mínum huga ekki aðalatriði þessa máls heldur hitt, að hið forneskjulega fyrirkomulag sem þarna hefur viðgengist er úr takti við allt sem ætti að viðgangast í nútímanum. Það er algerlega fráleit hugsun að þessi einstaki hópur manna, læknar í starfsnámi, sé einhver sérstök vinnudýr sem notað sé út úr umfram eiginlega alla aðra og að öll viðhorf um lágmarkshvíld og að menn séu sæmilega upplagðir í vinnu sinni séu látin lönd og leið í þessu tilviki frekar en öðrum. Það er mjög hlálegt að menn skyldu ráðast í nauðsynlegar breytingar vegna lækna og sérfræðinga en ekki ráða við að gera þetta hvað varðar lækna í starfsnámi.

Í þessu tilviki er væntanlega út af fyrir sig ekki um annað að ræða en að staðfesta þessa ákvörðun sameiginlegu nefndarinnar og falla frá fyrirvörum hvað hana snertir. Það er samt ómögulegt annað en að nefna þessa stöðu málsins í sömu andrá. Nú man ég ekki alveg nákvæmlega hvar kærumál á hendur Íslandi fyrir vanefndir á þeim þáttum vinnutímatilskipunarinnar sem fyrir lágu eru á vegi staddar en það er gott ef ekki að kærumál sé beinlínis lagt af stað í EES-ferlinu, þ.e. að allar undanþágur, málflutningur og rökstuðningur sé tæmt og ekkert annað eftir en að Ísland fái úrskurð í hausinn. Það þarf ekki endilega að vera heimsendir í mínum huga, sérstaklega ekki ef menn hafa góðan málstað gagnvart því máli sem reynir á fyrir hinu evrópska kerfi, en það er afar dapurlegt að það skuli vera hlutur af þessu tagi sem verður e.t.v. fyrstur til að draga Ísland alla leið á endastöð og að við fáum sem sagt slíkan dóm eða slíkan úrskurð vegna vanefnda á innleiðingu gerðar af þessu tagi.

Ég sé fyrir mitt leyti, frú forseti, kannski ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð en held að það sé alveg óhjákvæmilegt að vakin sé athygli á þessu. Auðvitað væri eðlilegt að hæstv. ráðherrar sem fara með framkvæmd þessara mála hér, svo sem hæstv. félagsmálaráðherra sem fer með vinnuverndarmál og hæstv. heilbrigðisráðherra, gerðu einhverja grein fyrir því hvernig þessi mál eru á vegi stödd og hvernig Ísland hugsar sér að standa að verki í þessum efnum allra næstu mánuðina. Það kom lítið fram um þetta, að segja má ekki neitt, í framsöguræðu formanns utanríkismálanefndar og mér finnst ekki boðlegt að Alþingi fari í gegnum þetta mál án þess að staðan sé rædd og upplýst. Auðvitað væri eðlilegt að þess væri óskað að hæstv. ráðherrar gerðu grein fyrir því hvernig staða málsins er metin af hálfu stjórnvalda og hvað sé að frétta af þeim bænum um þessi mál.