131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:08]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon hefur gert ágætlega grein fyrir sjónarmiðum okkar í þessu máli og hann vék sérstaklega að stöðu unglækna sem hefur verið það sem er einna gagnrýniverðast varðandi vinnutíma og lög og reglur sem um hann gilda. Ég sat fund utanríkismálanefndar þegar þetta mál var afgreitt úr nefnd og gerði það með fyrirvara. Mig langar í örfáum orðum að gera grein fyrir á hverju fyrirvari minn byggist.

Ég sé að utanríkismálanefnd hefur leitað umsagnar ýmissa aðila og fengið aðila á sinn fund til að fjalla um málið. Þar á meðal er fulltrúi unglækna, frá Samtökum unglækna eins og samtökin heita. Síðan er fulltrúi frá fjármálaráðuneytinu, fulltrúi frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og fulltrúi frá Samtökum atvinnulífsins. Ég spyr: Hvernig stendur á því að Alþýðusamband Íslands er ekki fengið til að segja sitt álit, BSRB, BHM og önnur samtök sem hafa látið þessi mál til sín taka? Eðlilegast hefði verið að leita einnig til þessara heildarsamtaka, tel ég vera.

Þessi samtök eiga aðild að ráðgjafarnefnd EFTA og svona málefni fara í gegnum það ferli. Ég þekki það vel því að fulltrúi BSRB á sæti í þeirri nefnd en ég er formaður þeirra samtaka sem kunnugt er og fylgist nokkuð náið með málum. Fulltrúi samtakanna hefur verið að benda á ýmsar breytingar sem hafa átt sér stað á vinnutímatilskipuninni innan Evrópusambandsins sjálfs. Vinnutímatilskipunin á sér alllanga sögu en hér á landi var hún fest í kjarasamninga árið 1997. Hún var innleidd með kjarasamningunum það ár af aðilum vinnumarkaðar og er markmiðið að stuðla að umbótum, einkum að því er varðar vinnuumhverfi til að tryggja aukið öryggi og heilsuvernd starfsmanna. Ákvæðin eru jafnframt í lögum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Menn þekkja margir efni þessara laga en nú er það svo að hjá Evrópusambandinu hafa legið fyrir drög um að breyta vinnutímatilskipuninni og er það gert m.a. með tilliti til dóma sem hafa fallið en tillögurnar sem fram hafa komið eru hins vegar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins en ekki verkalýðssamtökunum. Þau hafa gagnrýnt þær hugmyndir sem uppi eru á vinnuborði framkvæmdastjórnarinnar.

Í gildandi tilskipun er viðmiðunartímabil við útreikning á meðalvinnutíma á viku fjórir mánuðir. Í undantekningartilvikum er heimilt að lengja tímabilið í sex mánuði eða í 12 mánuði en þá með heildarsamningum, þ.e. samningum sem gerðir eru á milli aðila vinnumarkaðarins. Í vinnutímasamningunum frá 1997 var samið um sex mánuði sem meginreglu en jafnframt að það verði heimilt með kjarasamningum að lengja tímabilið í 12 mánuði. Þá þarf staðfestingu heildarsamtakanna til.

Samkvæmt breytingum sem ég gat um og eru komnar frá framkvæmdastjórn Evrópusambandsins yrði meginreglan áfram sú að viðmiðunartímabilið skuli ekki vera lengra en fjórir mánuðir. Hins vegar er lagt til að lengja megi viðmiðunartímabilið í 12 mánuði en það er ekki lengur skilyrði að til þess þurfi samninga aðila vinnumarkaðarins, heldur samráð eða „consultation“ eins og það er orðað á ensku. Það hefur verið gagnrýnt af heildarsamtökum launafólks í Evrópu, ETUC, European Trade Union Confederation, að verið sé að fella niður þennan öryggisþátt þar sem oft hefur verið haldið fram af hálfu vinnuveitenda að samráð þýði ekki það sama og samkomulag.

Hæstv. forseti. Ég vil aðeins vekja athygli á því að þessar tilskipanir eru stöðugt að taka breytingum og það er mikilvægt fyrir Íslendinga að fylgjast mjög vel með því sem er að gerast á þessum vettvangi. Við höfum EFTA-nefnd þingsins sem á að sinna slíkum málum en því miður gerðist það í upphafi þess þings sem nú situr að fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs var settur út úr þeirri nefnd, eða náði öllu heldur ekki kjöri inn í hana, og tel ég það afar slæmt því að reynslan sýnir okkur að frá fulltrúum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs koma oft gagnrýnin sjónarmið auk þess sem við lögðum okkur sérstaklega eftir því að kynna okkur hvað var að gerast á þeim vettvangi sem lýtur sérstaklega að stöðu launafólks. Ég er ekki að gefa það í skyn að aðrir geri það ekki, sinni ekki sínum störfum, ég segi hins vegar að að þarna komu fram mikilvæg viðhorf sem ég óttast að verði ekki kynnt á fundum nefndarinnar eftir að aðild okkar að henni lauk.

Ég styð að öðru leyti þetta þingmál og er einfaldlega að gera almennar athugasemdir um vinnulagið og brýna okkur í því að fylgjast mjög vel og á gagnrýninn máta með því sem er að gerast á vettvangi Evrópusambandsins og snertir okkur sérstaklega.