131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:25]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni, formanni utanríkismálanefndar, fyrir þessi svör og þessar skýringar, sem eru fullnægjandi um sumt en annað tel ég eftir sem áður gagnrýnisvert. Enda þótt fulltrúa Alþýðusambandsins hafi verið boðið að koma til fundar er svo að sjá að önnur heildarsamtök hafi ekki einu fengið málið til umsagnar. Ég tel að svo hafi ekki verið og þeim hafi ekki verið boðið að sækja fund nefndarinnar. Þar vísa ég í BSRB og BHM, þótt mér sé ekki kunnugt um hvort BHM hafi fengið þetta mál til umsagnar.

Málið snertir að sjálfsögðu allan vinnumarkaðinn, bæði í einkarekna og opinbera geiranum. Þetta eru mál sem menn hafa að sjálfsögðu látið sig mjög varða. Ég er því fylgjandi að ákveðinn sveigjanleiki verði í skipulagi vinnunnar. Það er nokkuð sem oft hefur verið íslenska tarnaþjóðfélaginu til góðs, að geta lagað sig að aðstæðum sem uppi eru hverju sinni. En þá er spurningin hvort það sé gert á jafnræðisgrundvelli, að menn semji um málin en sé ekki samkvæmt einhliða valdboði að ofan.

Með þessu er ég ekki að gagnrýna íslensk stjórnvöld en ég vek athygli á því að þær breytingar sem verið er að gera á vettvangi Evrópusambandsins á þessum vinnutímatilskipunum eru ófullnægjandi að mínu mati. Þær byggja á einhliða ákvörðunarvaldi atvinnurekandans þar sem áður hafði verið gert ráð fyrir samkomulagi á milli aðila. Þá er ég að vísa í viðmiðunartímabilið sem vinnutíminn skal grundvallaður á.