131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Breyting á XVIII. viðauka við EES-samninginn.

435. mál
[11:27]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég verð að endurtaka að ég er óánægður með að það skuli ekki liggja fyrir af hálfu íslenskra stjórnvalda við afgreiðslu þessara breytinga á vinnutímatilskipuninni eitthvað um hvernig menn hugsa sér framhaldið í þessum efnum, þá alveg sérstaklega hvað varðar unglækna eða lækna í starfsnámi.

Það er að sjálfsögðu alveg rétt að ýmis sjónarmið vakna í því máli, sem lúta bæði að stöðu okkar litlu eða fámennu eininga, sérhæfðum deildum og eins hvað varðar það að menn fái næga starfsþjálfun og reynslu. Þetta snertir einnig ósköp einfaldlega mannlega þætti eins og þá að það kann að vera freistandi fyrir menn að vinna frekar í lengri lotum í senn og fá svo lengri hvíldartíma á milli, fá t.d. heilar helgar o.s.frv. Mér er vel kunnugt um að menn horfa á ýmis vandamál af því tagi sem snúa að báðum aðilum, bæði að stofnunum, spítölunum og líka að unglæknunum sjálfum.

En það er ósköp einfaldlega hvorki málefni Landspítala – háskólasjúkrahúss, Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri eða annarra slíkra heilbrigðisstofnana eitt og sér né er það alfarið málefni unglæknanna hvernig frá þessu er gengið. Við þurfum að undirbúa það að uppfylla ákvæði þessarar tilskipunar um lágmarkshvíldartíma og um hámarkslengd vinnuviku. Við höfum til þess skamman tíma og erum þegar í ónáð með að gera það þannig að það uppfylli skilyrði þeirrar aðlögunar sem veitt var. Hámarksaðlögunartíminn var settur átta ár og á hann gengur nú. Og þá og því aðeins er aðildarríkjum heimilt að nýta hann að það sé gert í samræmi við þær takmarkanir, þau skilyrði og þau þrep sem innbyggð eru í hann. Því er ekki til að dreifa hjá okkur Íslendingum. Nánast engu hefur verið breytt í þessum efnum enn þá og þarf auðvitað að takast á við það.

Hér eru líka viðkvæmir kjaralegir þættir undir. Að sjálfsögðu hafa læknar ekki hug á því að breytingarnar verði þannig framkallaðar að þær kalli á kjararýrnun. Það hlýtur hver og einn að skilja að markmið þeirra er að um breytingarnar verði samið þannig og frá þeim gengið að þeir haldi launum sínum. Það mun þýða nokkur viðbótarfjárútlát hjá heilbrigðisstofnunum. Það er algerlega óumflýjanlegt, rétt eins og það gerði þegar ákvæði vinnutímatilskipunarinnar voru innleidd hvað varðar lækna og sérfræðinga. Þá stóðu menn einfaldlega frammi fyrir því að það var ekki um annað að ræða en að taka á reksturinn þann kostnað sem þessu var samfara.

Ég hefði talið, frú forseti, æskilegt að heyra eitthvað frá stjórnvöldum um það hvernig málin standa að þessu leyti og hvað menn eru að hugsa sér að gera á næstu mánuðum og vikum. Það má auðvitað segja að það hafi staðið upp á okkur í utanríkismálanefnd að krefja menn betur svara um það og fá meiri upplýsingar um það. Við reyndum það þó upp að vissu marki með viðtölum við forsvarsmenn stofnana og unglækna en það skilaði þessu sem er a.m.k. mat mitt á stöðunni að menn séu ekki hænufeti nær því að hrinda þessu í framkvæmd en þeir voru fyrir tveimur árum. Það er auðvitað alveg óásættanlegt og við hljótum að ætla okkur að fylgja því betur eftir á næsta þingi eða svo að einhver markviss áætlun verði sett í gang um það hvernig breytingunum verður fyrir komið.