131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[11:36]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það er vel þegar við förum fram með stefnumótun til nokkurra ára og málin þróast á þann veg að menn eru að mestu leyti sammála um hana eins og gerðist í því máli sem við ræðum, um ferðamál. Nefndin náði saman um áherslur þingsályktunartillögunnar og auðvitað afar ánægjulegt þegar slíkt gerist.

Hins vegar þarf þó nokkuð til að koma til að ná fram þeim markmiðum sem þingsályktunartillagan til áranna 2015 mælir fyrir um en þar er m.a. vikið að því, sem nefndin var algerlega sammála um, að efla byggðina í landinu og viðhalda henni. Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og hef oft sagt það í þessum ræðustól að ég teldi að það væri íslensku þjóðinni afar mikilvægt til framtíðar litið að byggðin færi ekki halloka í landinu, að við héldum landinu í byggð og gætum þar af leiðandi eflt okkur sem ferðamannaland framtíðarinnar. Við erum í fullri alvöru að tala um að innan ekki margra ára, 10 ára eða svo, verði hér milljón ferðamenn á hverju einasta ári. Við þurfum auðvitað að taka á móti þeim og dreifa þeim um landið og hafa möguleika til að gera það með eðlilegum hætti.

Það er varla hægt að tala um ferðamennsku og framtíðarhorfur í þeirri atvinnugrein án þess að víkja í örstuttu máli að samgöngumálum þó að ég ætli ekki að gera það að meginefni máls míns um þessa ályktun um ferðamál. Þó er það staðreynd sem við stöndum því miður frammi fyrir að landshlutarnir eru mjög misjafnlega settir að því er varðar samgöngur og samgöngumál. Ég vænti þess að alþingismenn og þjóðin öll hafi tekið eftir því hvernig vestfirskir vegir eru um þessar mundir, nánast ófærir, aðalþjóðleiðir inn á norðanverða Vestfirði svo dæmi sé tekið. Það verður ekki við það unað til framtíðar að málin séu þannig. Því miður blandast umræðan samgönguáætluninni sem við munum væntanlega taka til umfjöllunar fyrir lok þessa þings, en þar er ákveðið að hægja á afar nauðsynlegum framkvæmdum.

Hæstv. forseti. Ég var þeirrar ánægju aðnjótandi í gær að keyra til Hornafjarðar á degi verkalýðsins og hitta þar fólk og flytja þar mál mitt sem ég var beðinn um. Ég verð að segja eins og er að mér leið ákaflega vel að keyra hinn teppalagða veg alla leið til Hornafjarðar, 457 km minnir mig, án þess að fara nokkurn tíma út á malarveg. Að vísu eru enn þá nokkrar einbreiðar brýr á leiðinni en víðast er aðkeyrslan að þeim með þeim hætti að það sést til þeirra og yfir þær flestar nokkuð langt þannig að það er ekki eins og um blindbeygjur eða sérstakar beygjur að brúm sé að ræða. Ég verð að segja að ég er afar sáttur við það sem tekist hefur að gera varðandi þjóðleiðina í Suðurkjördæmi að þessu leyti. Ég hafði því miður ekki tíma til að renna inn á neina afleggjara og skoða þá vegna þess að þetta er nokkur ferð að fara en það er auðvitað mjög ánægjulegt þegar heill landshluti býr við að komast nánast endanna á milli í kjördæminu án þess að þurfa nokkurn tíma út á malarveg að fara. Ég óska þeim í Suðurkjördæmi til hamingju með þennan góða áfanga í vegamálum.

Með sama hætti veit ég að sanngjarnir þingmenn í Suðurkjördæmi líta til okkar í Norðvesturkjördæmi með nokkurri vorkunn. Þeir mundu eflaust vilja styðja okkur í að við kæmumst upp úr drullunni. Við förum kannski í fyrsta áfanga ekki fram á meira en að við förum upp úr moldardrullunni sem allra fyrst. Þá verð ég að segja að ég er afar vonsvikinn með að fresta eigi framkvæmdum í samgönguáætluninni og færa til framkvæmdafé á svæðum þar sem engin þensla er mælanleg, á svæðum sem vissulega hafa verið að reyna að bæta sig í ferðamennskunni og hafa reynt að laða til sín ferðamenn til að efla atvinnustig í landshlutunum og á svæðum þar sem t.d. aðalatvinnuvegurinn, sjávarútvegur, hefur dregist saman og aflaheimildin minnkað. Ég ætla ekki að fara að rökræða það hér, en þetta er staðreynd.

Ég vænti þess að hv. þingmenn muni eftir skýrslu Byggðastofnunar sem kom út árið 2001, ef ég man rétt, sem sýndi samhengi þess þegar aflaheimildir fara úr byggðarlögum og fækkun íbúa, en á árunum 1995–2000 færðust til aflaheimildir frá Ísafirði og Hnífsdal upp á 9 þús. þorskígildi og þær drógust saman um tæp 50%. Á sama tíma fækkaði störfum í fiskvinnslu á þeim stöðum um 430, fóru úr 660 minnir mig og niður í um 200 störf. Íbúunum fækkaði einnig um 433 á sama tíma. Í lokaorðum skýrslunnar, ég man þau glöggt, sagði að ljóst væri að beint samhengi væri á milli atvinnunnar, fækkun aflaheimilda og fólksfækkunar á viðkomandi landsvæðum. Þess vegna hafa Vestfirðingar og aðrir víða á landinu, á Norðvesturlandi, Norðausturlandi og við Breiðafjörð verið að líta til ferðamennskunnar, hvernig efla mætti atvinnustigið í landinu að því er varðar ferðamennsku.

Mikið hefur verið talað um að reyna að efla ferðamennskuna og menn hafa lagt verulega á sig í þeim efnum. Sveitarfélögin hafa gert það, þau hafa verið að reyna að styrkja sín svæði með upplýsingaöflun og auglýsingum og styrkja samtök sem unnið hafa að uppbyggingu ferðaþjónustu o.s.frv. Ríkið hefur vissulega gert það líka. Við skulum ekki gleyma því að settir voru verulegir fjármunir í að auglýsa upp ferðamennskuna í kjölfar þess bakslags sem varð í ferðamennsku almennt í heiminum eftir hryðjuverkin í Bandaríkjunum á sínum tíma. Ég held að það hafi út af fyrir sig verið rétt ákvörðun að gera það og að við höfum notið þess í þó nokkrum mæli. Við upplifðum það á síðasta ári að fá að meðaltali nánast þúsund ferðamenn á hverjum einasta degi eða þar um bil í heimsókn til Íslands

Hér er því vissulega um vaxandi atvinnugrein að ræða og ber að horfa til þess sem við getum gert til þess að styrkja ferðamennskuna og efling hennar er auðvitað talsvert háð því, að mínu viti, að byggðin í landinu haldist. Það er mikils virði fyrir okkur Íslendinga að byggðin veikist ekki og að staðarþekking, þekking á svæðum landsins, og söguþekking sé til staðar í byggðunum og að fólkið sem þar býr búi yfir þessari þekkingu, ásamt auðvitað menningu sinni og sögu atvinnuháttanna, og geti með skilmerkilegum hætti komið slíku á framfæri við ferðamenn sem vilja sækja okkur heim.

Það er að mínu viti algjörlega ljóst að þegar ferðamönnum fjölgar svo hratt sem hér hefur gerst á undanförnum árum ber okkur að horfa til þess að við verðum að dreifa ferðamönnum um landið. Til þess þurfum við m.a. góðar samgöngur, alla vega þurfum við öruggar samgöngur á helstu leiðum milli landsvæða, þó svo að samgöngurnar séu breytilegar innan svæðanna, enda sækja náttúrlega sumir ferðamenn í að fara vegslóða sem við erum jafnvel að leggja niður. Við megum heldur ekki gleyma því að ferðamenn vilja oft fara yfir fjöll í stað þess að fara í gegnum þau eins og við viljum. Það sýnir líka kannski hvað við erum sein í hugsun að þessu leyti að sums staðar höfum við ekki haft rænu á að halda vegum akfærum yfir fjöllin þar sem við höfum gert jarðgöng. Ég nefni göngin undir Breiðadals- og Botnsheiðar þar sem ferðamenn kynnu að hafa áhuga á að keyra í rólegheitum yfir heiðina og njóta útsýnisins, en við sem ferðumst á milli staða A og B förum í gegnum fjöllin og fögnum því í hvert skipti þegar það tekur tíu mínútur að rúlla þessar leiðir.

Það er auðvitað ýmislegt hægt að gera til að auka möguleika ferðamannanna. Ég nefni t.d. svæði eins og Strandir sem þarf mikið á því að halda vegakerfið verði lagfært. Ég nefni t.d. sem hugsanlega ferðamannaleið, sumarleið úr Ófeigsfirði á Ströndum og yfir í Ísafjarðardjúp sunnan Drangajökuls, sem gæti búið til nýjan hring fyrir ferðamenn þannig að þeir þyrftu ekki að keyra norður Strandirnar og sömu leið til baka, heldur gætu valið sér nýjan ferðamannahring. Ég nefni að halda við sumarleiðum þannig að þær séu færar öllum venjulegum bílum yfir sumartímann þó að þær lokist að sjálfsögðu að hausti þegar fer að snjóa og ekki er ætlast til að þeim sé haldið opnum.

Ég held að við þurfum að huga að þessu öllu við skipulag ferðaþjónustunnar til framtíðar. Þetta er líka þáttur í því sem samgöngunefnd var sammála um að bæta inn í ályktunina, þ.e. orðunum „sterk byggð“ í 1. tölul. 1. mgr. ályktunarinnar sem hljóðar nú svo: „Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.“ Nefndin var sammála um að bæta þessum orðum við og vekja sérstaka athygli á því að sterk byggð væri í raun og veru stór þáttur í því að viðhalda atvinnustigi á landinu og hafa möguleika á því að taka við þeim fjölda ferðamanna sem hingað koma væntanlega á næstu árum og áratugum.

Ég held að um það sé enginn ágreiningur í þjóðfélaginu að við viljum efla ferðamannaþjónustuna og horfum til þess að sú þjónusta verði sífellt stærri atvinnuvegur í landinu. Við skulum líka minnast þess að ef við stöndum vel að verki í ferðamannaþjónustunni erum við líka þar með að stórum hluta að vernda náttúru okkar, náttúruminjar og náttúrusögu landsins. Við þurfum að horfa til þess þegar við ætlum að hafa góðar tekjur af ferðamennskunni að náttúran er okkur mikils virði, þó að við munum alltaf eftir sem áður þurfa að vega og meta nýtingu hennar til heilla fyrir þjóðina, vonandi, ef við stígum þar rétt og skynsamleg skref.

Ég vil líka minna á það sem segir hér þingsályktunartillögunni: „Unnið verði markvisst gegn leyfislausri starfsemi og skattsvikum.“ Þetta var slagorð dagsins í gær, 1. maí, að vinna gegn svartri atvinnustarfsemi sem rífur niður kjör launafólks í landinu og ekki bara það heldur hefur afar neikvæð áhrif á öllum sviðum fyrir þjóðfélagið. Ég held að verkalýðshreyfingin sé algjörlega sammála um að standa vörð um það að koma í veg fyrir að svört atvinnustarfsemi vaxi hér á landi, hvort heldur er í verktakaþjónustu eða í ferðamannaiðnaðinum og ferðamannaþjónustunni. Ég ætla rétt að vona að þjóðin öll sé sammála því og því sjónarmiði sem við erum að setja fram í þessari þingsályktunartillögu hvað þetta varðar.

Við þurfum að jafna álaginu á landið og út á það gengur aðalþemað í þessari ræðu minni að ég tel að til þess að gera það þurfum við að halda landinu í byggð. Við þurfum góðar samgöngur, við þurfum að koma fólki vetur, sumar, vor og haust út um landið og geta sýnt fólki það sem í boði er.

Ég vil líka láta þess getið, hæstv. forseti, að ég tel að á sumum ferðamannasvæðum sem eru mjög eftirsótt, eins og t.d. Hornstrandir, verði í framtíðinni að bjóða upp á meiri þjónustu. Við getum ekki endalaust fjölgað ferðamönnum inn á þetta svæði án þess að bjóða upp á ýmsa þjónustu sem nauðsynleg er. Það hefur auðvitað komið fram í könnunum að ferðamenn gera kröfu til þess að fá meiri þjónustu á þessum svæðum, bæði hreinlætisþjónustu og aðra aðstöðu. Við verðum að mæta þessari þróun og ferðirnar verða þá bara að vera dýrari sem því nemur, enda kann að vera að við þurfum að stýra fjölda ferðamanna inn á viðkvæmustu svæðin með skynsamlegum hætti. Þá er eðlilegt að hluti af þeirri stýringu verði til þess að við bjóðum þjónustu og seljum hana án þess að við séum að setja bein höft á fjölda ferðamanna. Það er algjörlega ástæðulaust að fólk geti ekki fengið eðlilega hreinlætisaðstöðu og þjónustu á ferðaleiðum sínum, a.m.k. á vissum áfangastöðum þar sem fólk getur gengið að því. Við neyðumst til að horfa á þetta og tala um það. Það verður ekki við það unað í framtíðinni að við höfum ekki aðstöðu fyrir ferðamenn að þessu leyti. Við þurfum auðvitað að byggja það upp samhliða því að við þurfum að byggja upp þjóðvegakerfið og sumarleiðir sem hægt er að fara yfir háannatímann því það mun dreifa ferðamönnunum um landið.

Ég verð að segja að eitt vekur mér nokkurn ugg, hæstv. forseti, þegar við erum almennt að afgreiða þingsályktanir í hv. Alþingi, en það er sú yfirlýsing hæstv. 1. forseta hv. Alþingis, Halldórs Blöndals, sem hann lét falla í þessum ræðustól þegar við vorum í umræðu um þingsályktun sem hafði verið samþykkt samhljóða á Alþingi, því að mér fannst hæstv. forseti leggja út af því að þingsályktanir væru ekki merkara plagg en svo að þær héldu varla gildi sínu á milli kjörtímabila. Ég ætla að leyfa mér að vitna í umræðu sem hér fór fram og hv. þm. Halldór Blöndal tók þátt í þegar við vorum að ræða Þróunarsjóð sjávarútvegsins og þingsályktun um að hann hefði varðveisluhlutverki að gegna varðandi gömul skip, en það var þingsályktun sem hafði verið samþykkt samhljóða í Alþingi. Þá sagði hæstv. forseti þingsins, með leyfi forseta:

„Þó að Alþingi hafi samþykkt eitthvað í fyrndinni þá koma kosningar og nýir alþingismenn. Það er staðnaður hugsunarháttur að halda að þeir menn sem sitja á hinu háa Alþingi í dag séu bundnir við ályktun sem samþykkt var fyrir fimm árum.“

Ég held að við verðum að velta þessum orðum fyrir okkur og þessum skilningi forseta Alþingis því að við erum að fara að samþykkja tillögu til þingsályktunar til ársins 2015. Ég vænti þess að við þingmenn sem erum að vinna þetta sameiginlega í ágætu samstarfi í samgöngunefnd, undir handleiðslu góðs formanns okkar, hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar, þar sem við erum að ná samstöðu, ég vænti þess auðvitað að við séum að undirgangast þessar þingsályktanir sem stefnumótun fyrir framtíðina. Þó að vissulega geti komið upp sú staða og atriði að menn þurfi að breyta þá held ég að við hljótum að líta svo á að þingsályktun sem samþykkt er sé ekki bara nánast ómerkt plagg sem við þurfum ekki neitt með að gera, eins og mér fannst vera niðurstaðan þegar við vorum að ræða um stöðuna varðandi varðveislu gamalla skipa, að ekki þyrfti að líta neitt til þess sem Alþingi hafði samþykkt hér samhljóða í atkvæðagreiðslu og með það væri svo sem lítið gerandi.

Vissulega hef ég alltaf gert mér grein fyrir því, hæstv. forseti, að við þingmenn getum auðvitað komið fram með tillögur að lagabreytingum hvenær sem er og breytt málatilbúnaði. Ég verð hins vegar að segja að ég hef hingað til, þangað til ég heyrði þessa atkvæðaskýringu hæstv. forseta þingsins, staðið í þeirri meiningu að þegar Alþingi væri búið að samþykkja einhverja stefnumótun væri það ályktun sem ríkisstjórnin þyrfti eitthvað með að gera, vegna þess að það er jú svo að Alþingi á að vera yfir framkvæmdarvaldinu.

Ég vildi aðeins láta þessa getið í þessari umræðu. Ég mun örugglega víkja að þessu síðar í fleiri umræðum þegar við erum að samþykkja þingsályktanir, vegna þess að mér finnst það dálítið á skjön við það sem maður hefur talið ef það er svo að enda þótt við séum öll sammála í þingsalnum um að ákveðnir hlutir gangi eftir og felum það ríkisstjórninni, eins og við gerum yfirleitt með samþykkt þingsályktana, þá erum við að samþykkja stefnu fyrir hönd Alþingis en það er jú framkvæmdarvaldið sem á að reyna að fylgja þeirri stefnu. Ef við eigum að hafa það að leiðarljósi að eftir tvö ár getum við litið svo á að viðkomandi þingsályktun hafi svo sem ekkert gildi vegna þess að, eins og ég sagði áðan þegar ég vitnaði í eftirfarandi, með leyfi forseta: „Þó að Alþingi hafi samþykk eitthvað í fyrndinni þá koma kosningar og nýir alþingismenn.“ Það er auðvitað hárrétt, auðvitað gerist það.

Ég vildi láta þessa getið vegna þess að mér fannst þetta vera þau skilaboð til okkar hv. þingmanna að þó að við samþykktum eitthvað sem þingsályktun og vilja þingsins þá værum við ekki svo bundin af því, það væri alla vega nokkuð sem menn skildu ekki binda sig við, alla vega ekki á milli kjörtímabila. Ef maður leggur út af þessari túlkun þá er ekkert með samgönguáætlun að gera t.d. eftir tvö ár. Ég vona svo sannarlega að við í stjórnarandstöðunni verðum þá komin til valda og getum farið öðruvísi í málin en núverandi ríkisstjórn með niðurskurði núna þrjú ár í röð á fjárveitingum og síðan aftur innspýtingu verulega á árunum 2007 og 2008, svo mikla innspýtingu að ég býst jafnvel við því að þau tilboð sem við fáum á árunum 2007 og 2008 í verklegar framkvæmdir verði verulega há og að af því tapist miklir fjármunir að fara svona í málin eins og við erum að leggja upp með vegna þess að það er þannig í dag að þau tilboð sem Vegagerðin hefur verið að fá hafa verið góð fyrir ríkið og Vegagerðina. Þau hafa verið undir kostnaðaráætlun, enda mælum við ekki þenslu alls staðar á landinu þótt hún mælist sums staðar, hæstv. forseti, og hef ég komið að því oft í ræðum mínum bæði um fjárlögin og annað að ég tel ekki mikla þenslu að finna í Norðvesturkjördæmi. Ég hygg að hið sama gildi um norðausturhorn landsins þó að mikið sé um að vera á Miðausturlandi. En þó mikið sé um að vera á Miðausturlandi þá fækkaði vissulega íbúum Djúpavogs og Hornafjarðar á undanförnum fimm árum um 190, um 45 á Djúpavogi og 145 á Hornafirði. Ekki er það vegna þess að þessir staðir séu óaðlaðandi eða neitt slíkt. Þetta eru staðir í fögru umhverfi með góð hafnarskilyrði og ættu að hafa alla möguleika til að blómstra. Ég vona svo sannarlega að sú þróun sem hefur verið síðustu fimm ár snúist sem allra fyrst við.

Ég tek þetta bara sem dæmi til að minna á að þó að mikið sé um að vera á Miðausturlandinu og menn muni vonandi njóta þess í framtíðinni að þar komi nýr atvinnuvegur þá teygir það sig ekki sig mjög langt út frá Miðausturlandinu, alla vega ekki eins og horfur eru. Það kynni hins vegar að breytast með verulega bættum samgöngum svo ég nefni það nú einu sinni enn varðandi þjóðvegina.

Ég er sammála þeirri stefnumótun sem við leggjum hér upp með í þingsályktun um ferðamál. Ég held að hún marki okkur ágætan ramma fyrir framtíðina og ég vonast til þess að við sem erum að samþykkja þessa tillögu og leggja hana til, höfum vilja til að reyna að vinna eftir henni á næstu árum. Auðvitað koma nýir tímar og nýir menn. Ég held að það sé gott fyrir ferðaþjónustuna ef samkomulag næst um stefnumótun sem ferðaþjónustan telur sig geta búið við. En þá verður líka að vera vilji til þess að reyna að vinna eftir henni. Hér er vissulega vikið m.a. að samgöngum, t.d. í þeim kafla ályktunarinnar sem heitir Grunngerð. Þar segir í 5. lið:

„Aðgengi að skilgreindum „seglum“ verði tryggt allt árið, sbr. skýrsluna Auðlindin Ísland.“

Ég hef viljað líta svo á að sérhver landshluti væri ákveðinn segull og síðan væru innan hvers landshluta ákveðnir seglar. Ef okkur á að takast að dreifa ferðamönnunum landið, sem ég held að sé bráðnauðsynlegt ef við ætlum að taka á móti þeim fjölda ferðamanna sem við eigum von á, þá þurfum við að hafa gott aðgengi að því sem hér er kallað skilgreindir seglar. Það er algerlega ljóst að meginmálið í því er að okkur takist á næstu árum, ekki áratugum heldur næstu árum, að bæta samgöngukerfið verulega, sérstaklega þar sem vegakerfið er slíkt að erlendir ferðamenn sem eru búnir að leigja sér lítinn bíl til að ferðast um landið lendi ekki í því að vegurinn sem þeir ætluðu að fara sé ófær fyrir þannig farartæki, að þeir sitji uppi með það.

Það er dauðans alvörumál að taka á samgöngumálunum. Ég segi, og ætla að láta það verða lokaorð mín í þessari umræðu um ferðamál, að það er algerlega óásættanlegt að búa við vegakerfi eins og það er sums staðar á landinu í dag, þar sem það dettur niður í algert drulluforæði og er nánast ekki akfært þegar þannig fer um tíðarfar á landinu.