131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[15:00]

Jón Bjarnason (Vg) (frh.):

Frú forseti. Við ræðum hér tillögu til þingsályktunar um ferðamál. Ferðaþjónustan er orðin einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og sá atvinnuvegur sem vex hvað hraðast núna. Hún skiptir gríðarlega miklu máli í öllu atvinnulífi og við hana eru bundnar miklar vonir og væntingar. Þessi tillaga til þingsályktunar um ferðamál er í rauninni fyrsta alvörutilraunin til þess að setja ferðamálum umgjörð af hálfu þingsins og marka stefnu og áherslur í ferðamálum til lengri tíma. Það er í sjálfu sér tímamótavinna sem hér er verið að taka á af hálfu Alþingis. Í ræðu minni fyrr í dag gerði ég grein fyrir ýmsum grunnatriðum varðandi málið og vakti athygli á því að númer eitt er lögð áhersla á að náttúra Íslands, menning þjóðarinnar, sterk byggð og fagmennska sé undirstaða og forsenda og hornsteinn íslenskrar ferðaþjónustu.

Það var einn þáttur sem ég átti eftir að ræða um og það var einmitt ýmislegt varðandi fagmennskuna. Ég var rétt kominn að því að minnast á stöðu leiðsögumanna og leiðsagnarmálin um landið, um stöðu landvarða og annarra sem gegna veigamiklu hlutverki í að gæta þessara náttúruverðmæta sem jafnframt eru eitt höfuðaðdráttaraflið fyrir ferðamenn.

Ég hefði talið að í þessari þingsályktunartillögu hefði átt að nefna sérstaklega hálendi landsins, að um það þurfi að setja sérstaka umgjörð. Lögð er áhersla á áframhaldandi uppbyggingu þjóðgarða í tillögunni og að stuðla að ferðaþjónustu sem samþættir útivist og náttúruvernd. Það er mjög gott. Ég er sammála því að leggja þarf áherslu á mikilvægi þjóðgarðanna og að þjóðgörðum eða verndarsvæðum, svæðum sem eru sérstök náttúruvætti, séu gerð sérstök skil í þingsályktunartillögunni, en ég tel að skýra þurfi fagmennskuna sem lögð er áhersla á í tillögunni hvað varðar upplýsingar, leiðsögn og annað.

Það komu ágætar ábendingar frá Landssambandi björgunarsveita sem bentu á hversu mikilvægt það væri að það sé skipulagður formlegur farvegur í að fræða fólk sem væri að fara t.d. inn á hálendið og ekki síst að gæta þess að slíkar ferðir séu undir formlegri leiðsögn, að ekki sé þar fólk á ferð, jafnvel í hópum, án þess að þar sé leiðsögn, án þess að með í hópnum sé aðili sem kunni ekki aðeins á náttúruna og þekki söguna og menninguna sem verið er að upplifa, heldur viti einnig hvernig bregðast skuli við ef eitthvað gerist.

Á það var bent sérstaklega, bæði af hálfu Landssambands björgunarsveita og Félags leiðsögumanna og einnig fleiri aðilum, að skoða þurfi hvort hleypa eigi hópum erlendis frá, t.d. erlendum ferðaskrifstofum með hópferðir um hálendið, án þess að gert sé skylt að leiðsögumaður sé í hópnum sem annaðhvort hefur fengið menntun og viðurkenningu frá íslenskum aðilum og sé þá Íslendingur eða erlendir leiðsögumenn sem hafi hlotið staðfestingu hér á landi. Umgengni sem hafa þarf á hálendinu er svo sérstök að mér finnst að skoða eigi hvort sett verði um það sérstök lagaumgjörð og er það nefnt hér.

Hvergi er heldur nefnd í þessari þingsályktunartillögu staða menntunar leiðsögumanna eða annarra slíka fagaðila sem ég tel að skipti lykilmáli í uppbyggingu á faglegri ferðaþjónustu eins og lögð er áhersla á í þingsályktunartillögunni. Mér finnst að líka hefði átt nefna stöðu landvarðanna eða hvernig menn ætla bæði að varðveita en einnig að koma á framfæri og sýna náttúruvætti sem einmitt er lögð áhersla á að sé ein meginundirstaðan í ferðaþjónustunni og við erum öll sammála um.

Á þetta er líka lögð áhersla í umsögn Vegagerðarinnar. Þar er einmitt lögð áhersla á að hópar sem fara um landið, sérstaklega í óbyggðum, séu undir þeirri faglegu leiðsögn að bæði sé hægt að njóta hinnar villtu náttúru og vera einnig kunnugt um öryggisatriði og þær hættur og tálmanir sem á vegi geta orðið til þess að forðast þar vandræði og slys. Þessi atriði finnst mér líka að hefði átt að nefna frekar í þingsályktunartillögunni.

Ég hef áður minnst á það hér og ætla að ítreka það undir lok ræðu minnar, frú forseti, að tillögu til þingsályktunar um ferðamál sem hér er lögð fram, og samgöngunefnd er sammála um og stendur að, þó svo við hefðum viljað sjá þar mörg atriði ítarlegri, hefði þurft að fylgja aðgerðaáætlun, tímasett framkvæmdaáætlun og kostnaðaráætlun. Skýra hefði þurft betur út hver hlutur eða þáttur hins opinbera ætti að vera, þ.e. þáttur ríkisins í að byggja upp grunnþætti ferðaþjónustunnar. Mér finnst að það þyrfti að koma betur fram. Það hefði átt að vera leiðsögn um að gerðar yrðu afmarkaðar áætlanir, héraðsbundnar áætlanir í ferðamálum sem styddust við og nytu þeirrar megintillögu sem þingið samþykkti, á grunni þessarar almennu þingsályktunartillögu sem hér er lögð fram. Ég vil benda á að t.d. í Norðvesturkjördæmi, sem ég kem úr, hefur verið lögð vinna í svæðisbundnar stefnumarkanir í ferðamálum fyrir Vestfirði, Skagafjörð, Húnavatnssýslur, Borgarfjörð, Dali, Snæfellsnes og Hvalfjörð o.s.frv. Mér hefði fundist að í þessari tillögu mætti vera leiðsögn um að á grundvelli þeirrar hugmyndafræði og stefnumörkunar sem hér er lögð fram, yrðu unnar stefnumarkandi héraðsbundnar áætlanir um átak í ferðaþjónustu.

Ég vil benda á, frú forseti, að ég hef einmitt lagt fram tillögu til þingsályktunar um sérstakt átaksverkefni í ferðamálum fyrir Norðvesturkjördæmi, sem á margan hátt er samhljóma þeim megináherslum sem lagðar eru fram í þessari tillögu, en þar er fyrst og fremst gengið út frá möguleikum og aðstæðum innan þess kjördæmis. Til dæmis legg ég þar áherslu á að nýta skagfirsku vötnin, Héraðsvötnin, jökulárnar, til uppbyggingar ferðaþjónustu en ekki til virkjana og bendi á hversu mikilvægt er að eyða þeim þversögnum sem eru á því að einn ríkisaðilinn ætlar að virkja en annar ætlar að nýta viðkomandi auðlind til ferðaþjónustu. Þetta þurfum við að fá aðgreint.

Frú forseti. Þessi tillaga til þingsályktunar um stefnumörkun og áætlun í ferðamálum er allra góðra gjalda verð, ég hef lýst hér skoðun minni á því, en henni verður að fylgja fjármagn og tímasett verkáætlun. Tryggja verður að ferðamálin fái sinn sess í atvinnulífi þjóðarinnar, tryggja verður að ferðaþjónustan eigi líka forgang að náttúruperlunum, að hún þurfi ekki að víkja skilyrðislaust undan ef stóriðjan kallar á einhvern fallegan foss, eins og hún hefur orðið að gera á undanförnum árum í stóriðjuæði ríkisstjórnarinnar. Þessi tillaga til þingsályktunar um ferðamál krefst þess að ferðaþjónustan fái sinn viðurkennda sess í atvinnu- og menningarlífi þjóðarinnar og í 1. tölul. 1. mgr. hennar stendur einmitt: „Náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði ráðandi þættir í þróun íslenskra ferðamála.“ Þann rétt og þá kröfu viljum við gera fyrir íslenska ferðaþjónustu að hún fái þá forgangsröðun að náttúra Íslands, sterk byggð, menning þjóðarinnar og fagmennska verði hornsteinn hennar í næstu framtíð.