131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Ferðamál.

678. mál
[16:16]

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég stenst ekki mátið að leggja nokkur orð í belg í þeirri ágætu umræðu sem hér fer fram, um ferðamál og málefni ferðaþjónustu. Ekki er vanþörf á að málefni þeirrar atvinnugreinar fái hér einu sinni sæmilega, sómasamlega og ítarlega umfjöllun. Mér finnst að vísu sá galli helstur á þeirri umræðu að helstu ábyrgðaraðilar málsins, t.d. hæstv. samgönguráðherra og formaður samgöngunefndar, skuli ekki mega koma því við að vera við umræðuna. Það hefði verið ánægjulegt að sjá þá sýna henni áhuga og þeim sjónarmiðum sem þingmenn reifa í þeim efnum. Þeir verða að eiga það við sjálfa sig, hæstv. ráðherra og hv. formaður samgöngunefndar, hvort þeir eru bundnari af öðru mikilvægara en umræðunni sem hér fer fram.

Margt er gott í þessari þingsályktunartillögu og því vinnuferli sem hún er hluti af. Ég er þá ekki síst að vitna í skýrslu um meginmarkmið í ferðamálum á árabilinu 2006–2015 sem liggur til grundvallar. Þingsályktunartillagan er í raun fyrsti hlutinn af þeirri skýrslu eða því nefndastarfi sem þar er saman dregið og á rót sína að rekja til þess að hæstv. samgönguráðherra Sturla Böðvarsson setti slíka vinnu af haustið 2003. Það má líka segja að þetta sé svolítill angi af því að samræma betur ýmis mál á sviði fjarskipta, samgöngu- og ferðamála sem heyra undir þetta ráðuneyti.

Samhengisins vegna ætla ég að byrja á að drepa á það sem hv. síðasti ræðumaður, hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir, gerði að umtalsefni undir lok ræðu sinnar. Ég tek undir þau orð og geri að mínum, að ýmislegt sé jákvætt í skýrslunni að finna sem varðar samhengi ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar og umhverfismála og þar sé orðin veruleg bragarbót á frá því sem var í árdaga þegar menn töldu sig geta gert út á náttúru Íslands og að hún seldi sig sjálf. Þá töldu menn að ekki þyrfti að hafa miklar áhyggjur, landið væri stórt, ómengað, ósnortið og væri sem slíkt ótæmandi auðlind og endalaus söluvara, þótt ekki væri síðan alltaf fullt samræmi í því sem menn gerðu eða létu ógert í umhverfismálum á sama tíma. Vitund manna um mikilvægi þess að gæta þessarar auðlindar, náttúrunnar og ímyndar landsins að því leyti, er gjörbreytt frá því sem áður var. Meðvitund þeirra sem starfa í ferðaþjónustunni er almennt orðin mjög rík í þessum efnum. Það er engin tilviljun að í hópi rekstraraðila í ferðaþjónustu, leiðsögumanna og þeirra sem koma að þeim málum, er að finna marga eindregnustu náttúruverndarsinna landsins. Þeir upplifa það daglega í gegnum störf sín hvers virði okkur er hin ósnortna náttúra Íslands, að því marki sem hún er það enn, og ekki síður sú tilfinning ferðamanna um víða veröld og þeirra sem skipuleggja ferðamál og selja þjónustu á því sviði, að til Íslands sé slíka hluti að sækja.

Þó eru aðrir þættir sem mættu vera betur úr garði gerðir en svo að taka það fram að náttúru Íslands skuli vernda og hún skuli, ásamt menningu þjóðarinnar og fagmennsku í rekstri, vera ráðandi þáttur í þróun íslenskra ferðamála, að álagi af ferðaþjónustunni skuli dreift betur, að Ísland eigi að vera í forustu í umhverfisvænni ferðaþjónustu o.s.frv. Aðrir þættir eru heldur magrir og ég tek undir það með síðasta ræðumanni að t.d. skilgreining á því með hvaða hætti menn ætla að tryggja að uppbygging og þróun ferðaþjónustunnar lúti lögmálum sjálfbærrar framvindu á komandi árum er óbotnuð í þessari tillögu. Hér er í raun, eins og reyndar með ýmislegt fleira, fyrst og fremst látið sitja við falleg orð á blaði. En þegar kemur að sundurliðaðri framkvæmdaáætlun eða því hvernig eigi að fjármagna þá hluti sem kosta fjárútlát þá er skilað auðu.

Það er náttúrlega ekki hægt, virðulegu forseti, annað en að vekja athygli á þeirri staðreynd að þessi tillaga til þingsályktunar um ferðamál er flutt af ráðherra í ríkisstjórn sem hefur á sinni samvisku hluti af því tagi gagnvart náttúru landsins og ímynd Íslands á þessu sviði sem raun ber vitni. Við skulum ekki tala neina tæpitungu um það, herra forseti. Þetta er sama ríkisstjórnin og ber ábyrgð á Kárahnjúkavirkjun, Kárahnjúkavandanum í hagkerfinu sem svo er hnyttilega farið að kalla í blaðagreinum. Hún ber ábyrgð á hinni blindu og umfangsmiklu stóriðjustefnu sem er í eðli sínu, í veigamiklum atriðum, a.m.k. eins og hún er framkvæmd og að henni staðið, algerlega andstæð flestöllum jákvæðum markmiðum í þessari tillögu, þ.e. að hlúa að náttúru landsins, gæta hennar, byggja á orðstír Íslands sem lands sem búi að slíkri náttúru, byggja á umhverfisvænni ferðaþjónustu og þar fram eftir götunum.

Þessar mótsetningar, herra forseti, koma náttúrlega strax upp í hugann þegar maður fer að skoða þessi mál. Ég vík kannski betur að þeim síðar í máli mínu en ætla næst að fjalla betur um rekstrarþáttinn og stöðu ferðaþjónustunnar sem greinar. Það vantar ekki upp á að hér er m.a. talað um að það þurfi að skapa henni góð skilyrði.

Í kafla um rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar ræða menn um opinber gjöld af aðföngum og búnaði til ferðaþjónustu, að þau þurfi að samræma við það sem gerist í nágrannalöndunum, að tryggja þolinmótt fé eða fjármagn til fjárfestinga og markaðssetningar. Þar er rætt um að vinna gegn skaðlegum undirboðum eða svartri starfsemi, sem sagt leyfislausri starfsemi, skattsvikum og öðru slíku sem grefur undan löglegum og heiðarlegum rekstri.

Menn hafa eða höfðu áhyggjur af því, að vísu er lögð til breyting á því í nefndaráliti, að opinberir aðilar stundi atvinnustarfsemi í samkeppni við einkarekin ferðaþjónustufyrirtæki. Þar var nokkuð harkalega að orði kveðið. Það var nánast eins og ákveðið hefði verið að úthýsa hinu opinbera af þessum markaði og það mætti hvergi að koma. Ég held að ekki væri hyggilegt að ganga svo langt og orðalagið sem samgöngunefnd leggur til í breytingartillögu sinni er að mínu mati skárra og má þó deila um það. Það er t.d. augljóst að menn eru komnir út í ógöngur ef ekki má nýta áfram hér á landi, eins og gert hefur verið með góðum árangri og gert var, ekki síst á mestu uppbyggingarárum ferðaþjónustunnar, opinbert húsnæði yfir sumartímann til að auka afköstin í ferðaþjónustunni.

Menn geta auðvitað orðið svo heilagir í einhverri misskilinni samkeppnishugsun að þeir máli sig alveg út í horn í þeim efnum, að það megi t.d. ekki nota heimavistarskóla eða annað opinbert húsnæði til reksturs sumarhótela. Vissulega hafa stundum komið upp núningsmál í þeim efnum en þau eru til þess að leysa þau en ekki að fara út í slíkar öfgar. Orðalag í opinberri stefnu um ferðamál sem menn gætu sótt sér stoð í til þess að herja á aðkomu opinberra aðila að nokkru af því tagi gengur náttúrlega ekki. Hvað með tjaldstæði sveitarfélaga, svo dæmi sé tekið, ef þetta orðalag stæði svona? Væri það þá þannig að um leið og einhver aðili setti upp svipaða þjónustu í einkarekstri í nágrenninu þá yrði sveitarfélagið bara að hætta að veita slíka þjónustu á sínum vegum? Nógu vitlaust er það t.d. að sveitarfélag, ekki langt í burtu, ku hafa verið kært fyrir að hafa ókeypis á tjaldstæði. Það væri ekki verjandi samkeppnislagabrot að veita einfaldlega slíka þjónustu án endurgjalds, sem ég sé ekki að sé stórkostlegur glæpur ef það má vera til þess að laða að ferðamenn og koma því sveitarfélagi betur á kortið í ferðaþjónustu, sem var í því tilviki að byggja sig upp og koma sér af stað. Ég sé ekki að það sé heldur neinn glæpur að bjóða ferðamönnum einfaldlega upp á það, ef menn kjósa svo í einu sveitarfélagi, að veita slíka þjónustu án endurgjalds. Þannig að þessu orðalagi þarf að hyggja og ég fagna því að þó skuli gerð tilraun til að laga það með breytingartillögu meiri hlutans.

Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar ræðst að öðru leyti af ýmsu, t.d. þeim liðum sem nefndir eru hér og taldir upp í töluliðum 1–5 undir fyrirsögninni Rekstrarumhverfi ferðaþjónustunnar. En þar er ekkert minnst á og ekkert komið inn á, og hvergi í þessari tillögu, sambúð ferðaþjónustunnar við aðrar atvinnugreinar, annað atvinnulíf og efnahags- og gengisstefnuna í landinu, sem er auðvitað það stóra sem ferðaþjónustan stynur undan núna, þ.e. sambúð hennar við Kárahnjúkavandann í efnahagsmálunum, við hina glórulausu stóriðjustefnu ríkisstjórnarinnar sem hefur keyrt upp þenslu í hagkerfinu og þrýst gengi krónunnar upp í tengslum við varnaðaraðgerðir efnahagsstofnana eins og Seðlabankans til að verja stöðugleikann sem valda ferðaþjónustu sem og öðrum samkeppnis- og útflutningsgreinum miklum erfiðleikum um þessar mundir. Þeir erfiðleikar fóru að gera verulega vart við sig á síðari hluta síðasta árs. Þá fóru ferðaþjónustuaðilar einfaldlega að merkja það að veltan dróst saman í viðskiptum sem þeir töldu sig ganga að sæmilega vísum vegna bókana og áætlana. Þetta hefur síðan ágerst á þessu ári.

Menn verða að varast að einblína á ferðamannafjöldann. Það er fleira sem skiptir máli en sú tala erlendra ferðamanna sem kemur til ársins, það skiptir kannski ekki síður og jafnvel enn þá frekar máli hve miklu þeir síðan eyða meðan á dvöl þeirra stendur og hversu mikið situr eftir í landinu af þeim fjármunum sem þeir höfðu handa á milli. Það segja mér glöggir menn á þessu sviði að sé kannski besti og næmasti mælikvarðinn á samkeppnisstöðu landsins í raun, þ.e. þróun meðaleyðslu ferðamannsins í heimsóknum til landsins. Það er mælt út frá viðbótarkaupum eða kaupum ferðamanna á varningi, minjagripum eða hvað það nú er, sem þeir telja sig hafa ráð á að láta eftir sér þegar þeir koma til landsins. Ferðin sjálf er yfirleitt pöntuð með löngum fyrirvara og greitt inn á hana á grundvelli fyrirhugaðs fasts umsamins verðs en svo kemur að þeim fjármunum sem ferðamaðurinn hefur handa á milli og hefur áætlað að eyða í ferðinni, án þess að ég haldi því endilega fram að allir séu svo nákvæmir að þeir hafi það útreiknað upp á krónu og aura, en þeir koma með tiltekin verðmæti, oftast í mynt síns eigin lands og þegar þeir skipta henni þá ræður gengið í þeirri yfirfærslu því hvaða kaupmátt þeir hafa gagnvart þjónustu og varningi í landinu. Það liggur í hlutarins eðli. Sá næmi mælikvarði fór að slá verulega út á síðari hluta meginferðamannatímans á síðasta ári. Þá fóru ýmsir þjónustuaðilar, svo sem minjagripaframleiðendur, framleiðendur iðnvarnings og annars sem er mikið selt í ferðaþjónustunni, að verða varir við að draga fór úr þeim kaupum sem vænta hefði mátt miðað við fjölda ferðamanna.

Hér ráða aðstæður sem eru að verulegu leyti heimatilbúnar og hæstv. ríkisstjórn ber höfuðábyrgð á að hafa skapað, með stóriðjustefnu sinni, skattalækkunarstefnu sinni og fleiri aðgerðum og ekki síður aðgerðaleysi. Þó eru fyrst og fremst þrír meginþættir sem skýra þensluna og erfiðleikana sem við er að glíma í hagkerfinu núna, þ.e. stóriðjustefnan, skattalækkanirnar og ástandið á fasteignamarkaði, eins og kunnugt er. Þetta stafar Seðlabankinn m.a. mjög skýrt í sínum ritum og ríkisstjórnin eða stjórnvöld bera verulega ábyrgð á öllu þessu þótt þau verði ekki borin þeim sökum að stjórna alfarið því sem sjálfstæðar fjármálastofnanir gera á markaði, en þau hafa samt með stefnu sinni og gegnum starfsemi Íbúðalánasjóðs ákveðin áhrif þar.

Virðulegur forseti. Veltutölur, verðlagning og útreikningar á þessari grein eru að sjálfsögðu næmir fyrir því þegar við umreiknum hlutina í íslenskar krónur, hvernig gengið er skráð. Það á auðvitað við um allar sambærilegar greinar þannig að menn ættu að hafa það í huga í þessum efnum þegar þeir bera hlutina saman.

Fróðlegt væri að fara betur yfir ýmis atriði í þessu sambandi, virðulegur forseti, og þá ekki síst að blaða í skýrslunni sem er til grundvallar og dregur að verulegu leyti fram upplýsingar úr skýrslu sem Hagfræðistofnun háskólans gerði um þjóðhagsleg áhrif ferðaþjónustu. Sem betur fer hefur mönnum miðað heilmikið áleiðis við að greina stærð ferðaþjónustunnar, að draga hana út úr í athugunum á þjóðhagslegum áhrifum einstakra atvinnugreina. Það getur augljóslega verið umdeilanlegt í ýmsum tilvikum hvað eigi að flokka beint sem ferðaþjónustu og hvað tilheyri öðru atvinnulífi þegar um samsettar atvinnugreinar er að ræða. Nærtækustu dæmin þar eru t.d. samgöngur, menning, afþreying eða gististaðir og annað því um líkt. Að hve miklu leyti er þetta til staðar vegna ferðaþjónustunnar sem slíkrar, þ.e. tengt því að innlendir og erlendir ferðamenn noti sér þjónustuna og að hve miklu leyti er þar um að ræða annað atvinnulíf? Þá byggja menn á ákveðnum rannsóknum eða könnunum og nota tiltekin viðmiðunarhlutföll sem eru skásta aðferðin til að reyna að átta sig á og meta umfang greinarinnar. Þar hefur mönnum farið verulega fram frá því fyrir um 15 árum, þegar sáralitlar aðgreindar eða niðurbrotnar þjóðhagslegar upplýsingar um ferðaþjónustuna sem slíka lágu fyrir.

Ég minnist þess hve fátækleg gögnin voru sem menn höfðu handa á milli á árunum 1989–1990 þegar unnið var í framtíðarstefnumótun á sviði ferðamála, m.a. í nefnd sem þáverandi hv. alþingismaður Hjörleifur Guttormsson veitti forstöðu. Eitt af atriðunum sem tilgreint var í erindisbréfi þeirrar nefndar var einmitt að reyna að meta og átta sig á, betur en áður hafði verið gert, þjóðhagslegu umfangi og mikilvægi greinarinnar. Þá voru ákaflega fáar aðgreindar upplýsingar fáanlegar í hagskýrslum. Það sem menn höfðu helst var einföld talning á erlendum ferðamönnum sem komu til landsins og fjöldi gistinátta. En mönnum hefur miðað heilmikið áfram í þessum efnum og þær upplýsingar eru ákaflega fróðlegar. Enn er ég fyrst og fremst að vitna til þess sem fram kemur í fylgiskjali með þessari tillögu að ferðamálaáætlun og þar er aðallega stuðst við skýrslu sem Hagfræðistofnun háskólans vann.

Enginn má skilja orð mín svo að þeir aðilar sem sinntu gagnasöfnun á þessu sviði á árum áður, svo sem Þjóðhagsstofnunin sáluga og Hagstofan, hafi ekki unnið sitt verk samkvæmt bestu samvisku en í raun var ferðaþjónustan tæpast skilgreind sem eiginleg eða sjálfstæð atvinnugrein fyrr en fyrir 15 árum. Menn litu á þetta sem aukabúgrein, svo ég segi ekki hobbí eða áhugamál. Það kom mönnum því í opna skjöldu þegar farið var að reikna það betur út og athuga hversu mikilvæg hún var í raun og veru orðin, strax á þessum tíma, á árunum 1985–1990, svo maður tali ekki um stöðuna eins og hún er í dag.

Auðvitað er það ævintýri líkast, herra forseti, þegar skoðað er að atvinnugreinin skuli hafa vaxið að meðaltali um 6% á ári, miðað við aðsókn erlendra ferðamanna, á 45 ára tímabili. En þannig er það að meðaltali, að frá því um 1960 hefur ferðaþjónustan vaxið um 6% á ári mælt út frá fjölda erlendra ferðamanna og er engin ástæða til að ætla að innlendir ferðamenn séu eftirbátar í því. Sem betur fer hafa ferðalög Íslendinga um eigið land einnig aukist verulega. Helgarferðir innan lands hafa komið til sögunnar og bætt verulega afkomu ferðaþjónustunnar yfir vetrartímann. Það væri ágætt að menn hefðu það í huga að þetta jafngildi því að fjöldi ferðamanna, í þessu tilviki erlendra ferðamanna, tvöfaldist á rúmlega 10 ára fresti, þ.e. á 12 ára fresti.

Velta þessarar greinar í þjóðhagsbúskapnum kemur mönnum líka í opna skjöldu. Menn eru með tölur úr skýrslum yfir hreinar gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu og þær hafa verið að þokast upp úr 30 og í áttina að 40 milljörðum kr. síðustu árin. En þá er bara um að ræða hin beinu áhrif, beinar gjaldeyristekjur, ef við erum að tala um erlenda ferðamenn. Ef við hyggjum jafnframt að umsvifum, þ.e. heildarumsvifum greinarinnar í hagkerfinu, kemur annað og meira í ljós. Þannig segir í greinargerðinni að veltan sem verður til í hagkerfinu vegna erlendra ferðamanna — þar munu menn notast gögnin frá árinu 2002 frekar en 2003 en það skiptir ekki öllu máli því að stærðargráðan er eftir sem áður sú sama — megi ætla að sé um 45 milljarðar kr., þ.e. hún er þá sjálfsagt komin yfir 50–55 milljarða kr. í dag. Síðan eru notaðar ýmsar aðferðir til að áætla óbein og afleidd áhrif af þessari veltu og þá koma satt best að segja ótrúlegar tölur í ljós. Þannig fá menn út, með því að nota ákveðna margfaldara, þ.e. þeir hjá Hagfræðistofnun háskólans, að heildarumsvif í hagkerfinu vegna útgjalda erlendra ferðamanna séu vel yfir 90 milljarðar kr. Það munar um minna. Þá eru menn að vísu komnir með bæði bein, óbein og afleidd áhrif.

Þetta er gott að menn ræði og hafi í huga þegar ferðaþjónustan á í hlut, að hún dreifir afrakstri sínum eða áhrifum mjög vel um hagkerfið og er að því leyti með allra heppilegustu atvinnugreinum. Hún byggir á aðföngum og þjónustu frá fjölbreyttum og mjög breiðum hópi aðila í þjóðfélaginu og að sama skapi dreifist afraksturinn mjög víða þegar margir eru þátttakendur í eða njótendur þeirrar veltu sem koma erlendra ferðamanna, og þess vegna ferðalaga Íslendinga um eigin land, skapar þegar upp er staðið, gegnum hin beinu og óbeinu og afleiddu áhrif eins og rannsóknir Hagfræðistofnunar háskólans á heildarveltuumsvifum í hagkerfinu sýna. Þegar þeir taka síðan innlenda ferðamenn með í reikninginn, þ.e. ferðalög Íslendinga um eigið land, þá bætist við velta upp á um 15 milljarða kr. og með sömu margfeldisáhrifum, með því að nota sömu margfaldara, fer það upp í 30 milljarða kr. Þá eru þessi heildarveltuumsvif sem koma erlendra ferðamanna til landsins og ferðalög Íslendinga um eigið land valda í íslenska hagkerfinu komin upp í 120 milljarða kr. og munar um minna í hagkerfi sem veltir um 800–850 milljörðum í ár, þ.e. ef við tökum landsframleiðsluna sem að vísu er kannski ekki alveg sambærilegar mælieining í þessu tilviki og verður að hafa fyrirvara. En þetta sýnir mönnum stærðargráðuna sem hér er á ferðinni.

Hví er ég að rekja þetta, virðulegi forseti? Það er m.a. vegna þess að ég held að það sé kominn tími til þess að Íslendingar, ráðamenn sérstaklega, sem hafa með ákvörðunum sínum, aðgerðum eða aðgerðaleysi bein áhrif á hlutina, átti sig á stærð og þjóðhagslegu mikilvægi ferðaþjónustunnar. Það er með ólíkindum að menn skuli hafa komist upp með það fram undir síðustu ár að tala um ferðaþjónustuna eins og hreina aukagetu sem engu máli skipti og að hagsmunum hennar væri hægt að ýta til hliðar án rökstuðnings þegar von hefur verið á einhverri fabrikku. Þá skiptir engu máli að það kynni að hafa áhrif og jafnvel skaðleg áhrif á hagsmuni þessarar stóru og miklu vaxtargreinar sem hefur staðið upp úr öllu öðru íslensku efnahagslífi og atvinnulífi samfellt í 40 ár. Það er þannig. Það má finna kannski afmörkuð dæmi um tímabil þar sem einstakar greinar, t.d. þjónustuiðnaður við sjávarútveg, lyfjaiðnaður eða annað því um líkt, hafa skotist hratt upp á stjörnuhimininn. En ef við tökum þetta langa tímabil bið ég menn um að nefna mér grein sem vaxið hefur annað eins að meðaltali á 35–45 ára tímabili og ferðaþjónustan hefur gert. Ég held að það dæmi sé ósköp einfaldlega ekki til og tel algerlega á hreinu að þetta er vaxtargrein íslensks atvinnulífs númer eitt.

Það er full ástæða til að hamra svolítið á þessu í ljósi umræðna um að í ferðaþjónustu séu ekki þeir hagsmunir sem menn þyrftu að gera sér rellu út af í tengslum við ákvarðanir á öðrum sviðum sem eru beinlínis andstæðar atvinnugreininni. Að því leyti hefur gætt ótrúlegrar tilhneigingar fram á síðustu ár til að gera lítið úr, svo ég segi það eins og það kemur mér fyrir sjónir, þeim miklu áhrifum sem vöxtur þessarar greinar hefur fært inn í þjóðarbúið. Það kann að hluta til að vera vegna þess að áhrif hennar eru býsna ósýnileg eða dulin. Þau koma í það ríkum mæli fram í óbeinum og afleiddum áhrifum í öðrum atvinnugreinum. Það þarf sérstakar rannsóknir til að draga fram hve stór þáttur ferðaþjónustunnar er í vexti í samgöngukerfinu, menningu, afþreyingu, iðnaði og öðru slíku.

Annar þáttur þessa máls sem mér finnst líka ástæða til að draga sérstaklega fram, herra forseti, og er komið ágætlega inn á í greinargerðinni, eru auðvitað byggðaáhrifin og byggðasjónarmiðin í þessum efnum. Kannski liggja vænlegustu möguleikar okkar Íslendinga sem yfir höfuð í boði eru til að reisa merki einhverrar árangursríkrar og raunverulegrar byggðastefnu — sem verulega hefur skort upp á að væri til staðar í landinu, hún hefur mest verið á pappírunum hingað til — í ferðaþjónustunni fyrir utan eflingu menntunar og bætts aðgengis að menntun og bættum samgöngum í landinu og þetta er náttúrlega allt nátengt. Það er enginn vafi á því að sem atvinnugrein hefur ferðaþjónustan í sér fólgna gríðarlega jákvæða möguleika til þess að styrkja búsetu og bæta lífskjör og afkomu manna vítt og breitt úti í byggðum landsins. Það eru einfaldlega allra hagsmunir, það blasir við. Það er ekki verið þar að taka eitt af einhverjum og færa það öðrum. Það sem málið snýst um er að reyna að hafa jákvæð áhrif á og stýra vexti og þróun ferðaþjónustunnar þannig að byggðarlög og landshlutar sem ekki hafa nema að takmörkuðu eða að mjög litlu leyti verið þátttakendur í þeim vexti undanfarið verði það alveg sérstaklega á komandi árum. Það er bráðnauðsynlegt fyrir alla. Það er náttúrlega þarft og nauðsynlegt fyrir viðkomandi byggðarlög en það er bráðnauðsynlegt fyrir landið í heild og þar kemur aftur bæði að umhverfisáhrifunum og mikilvægi þess að dreifa álagi ferðaþjónustunnar um landið og gera landið allt og íbúa landsins alls að þátttakendum í þessari grein þannig að álagið verði hvergi óviðráðanlegt og ekki hljótist stórkostleg spjöll af.

Þá snýst þetta auðvitað um að draga úr þeirri miklu samþjöppun ferðaþjónustunnar og þeim toppum sem verða á suðvesturhorninu, fyrst og fremst á höfuðborgarsvæðinu og í höfuðborginni, og jafna þessum straumi, þessu álagi út um landið, auðvitað ekki síst á hámarksálagstímanum en í raun og veru líka jöfnum höndum að gera þetta í formi heilsársuppbyggingar og heilsársferðaþjónustu. Ferðaþjónustan er líka að þessu leyti ákaflega heppileg vegna þess að hún byggir í eðli sínu á staðbundnum fyrirbærum þar sem staðbundin aðföng eru það aðdráttarafl sem dregur ferðamennina á svæðið hvort sem það er náttúrufegurð, sérstakt mannlíf, menning eða hvað það er. Það eru yfirleitt í eðli sínu fyrirbæri sem ekki verða flutt burtu og í sumum tilvikum eru það einmitt hagsmunir ferðaþjónustunnar að varðveita menningu og einkenni þeirra svæða sem í hlut eiga eins og þau eru.

Það er t.d. ekkert út í loftið að menn í Sviss og víðar í Ölpunum leggja þá ríku áherslu á að varðveita búskaparmunstur og ásýnd þeirra svæða. Af hverju skyldi það vera að menn leggja svona mikið upp úr því að varðveita t.d. smábúskap í Ölpunum þar sem eru kýr á beit með bjöllur um hálsinn eða hvað það nú er? Jú, það er af því að þetta er óaðskiljanlegur hluti af þeirri ímynd, þeirri menningu og þeirri ásýnd svæðanna ásamt náttúrunni auðvitað sem dregur ferðafólk að. Það er varan sem seld er um allan heim, fegurð Alpanna með snævi krýndum fjallatoppum og grænum grösum í bröttum hlíðum þar sem kýr og geitur eru á beit með bjöllu um hálsinn og bændur í pokabuxum að stugga við þeim og reka þær til, svo maður lyfti sér aðeins upp í skáldlegar hæðir á lýsingum á þessu án þess að ég ætli að fara að jóðla. Ég lofa því.

Að öllu gamni slepptu, virðulegi forseti, liggur byggðaþátturinn í þessu máli þannig að það er nánast hvergi eins rakið að menn reyni að slá tvær flugur í einu höggi og hlúa að uppbyggingu einnar atvinnugreinar um leið og þeir horfa til hinna jákvæðu áhrifa sem það geti haft í byggðarlegu tilliti. Það er fallega um þetta fjallað í þingsályktunartillögunni að ýmsu leyti en það er með sömu veikleikum þegar kemur að því að tilgreina það sem við á að éta. Til dæmis hvernig menn ætli að hrinda þeim hlutum í framkvæmd, hvað menn ætli að gera beinlínis til að láta hlutina þróast á þennan veg, til þess að stappa stálinu í menn og til þess að hvetja menn til uppbyggingar og fjárfestinga, þá er fáu til að dreifa. Ég held t.d. að setja hefði þurft miklu meiri kraft í fjárveitingar til uppbyggingu innviða, sérstaklega í samgöngumálum á þeim svæðum þar sem það stendur mönnum mest fyrir þrifum en verið er að gera samtímis í vegáætlun eða samgönguáætlun sem hér er líka til umfjöllunar. Vissulega er verið að sýna þar lit. Það er jákvætt svo langt sem það nær að ferðaþjónustuvegir séu komnir þar inn sem sérstakur vegaflokkur þó að reyndar sé síðan, þegar á hólminn er komið, fært undir þau formerki fjárveitingar í ýmsa venjulega vegi sem komu okkur þingmönnum sumum á óvart að skyldu allt í einu flokkaðir sem slíkir. Vegir sem eru ósköp einfaldlega venjulegar tengingar milli byggða eða jafnvel vegir innan byggða sem hafa verið eknir í áratugi svo ekki sé sagt aldir og menn höfðu kannski ekkert sérstaklega tengt ferðaþjónustunni fram að því að þetta skýtur upp kollinum núna. Það er t.d. alveg augljóst mál að heilsársvegasamgöngur meðfram Jökulsá á Fjöllum þannig að menn komist að Dettifossi helst beggja megin frá er klassísk og augljós ferðamannaleið. Sérstaklega er ekki hægt að rífast um það þeim megin sem slíkur vegur er í raun alls ekki til staðar þ.e. að vestan. Það verður ekki um það deilt að sú uppbygging er auðvitað alveg sérstaklega í þágu ferðaþjónustunnar, enda er ekki byggð á leiðinni og megintilgangur þess að leggja þann veg er að koma ferðamönnum að þeim náttúrugersemum sem þar er að sjá, Dettifossi og auðvitað fyrirbærunum í Jökulsárgljúfri.

Það má líka segja að framkvæmdir t.d. í nágrenni við Gullfoss og Geysi, að gera þar betur í samgöngumálum en menn hefðu kannski gert ella byggðarinnar einnar vegna, megi flokka undir ferðaþjónustu. Þannig gæti líka átt við um margt fleira. Ég held líka að eyrnamerkt fjármagn til markaðsaðgerða þurfi að vera til staðar í ríkulegum og myndarlegum mæli. Það er eitt af fáum tækjum sem stjórnvöld virkilega geta beitt án þess að mismuna aðilum að því tilskildu að sjálfsögðu að það sé vel undirbyggt og rökstutt og þjóni þeim yfirlýstu og samþykktu markmiðum Alþingis t.d. eins og hér er verið að leggja niður um þróun í greininni, að beita slíkum tækjum t.d. til sérstakrar markaðssetningar á byggðarlögum sem verið er að reyna að draga með og hjálpa á legg sem fullgildum þátttakendum í ferðaþjónustu. Þar erum við ekki endilega alltaf að tala um stórar fjárhæðir.

Við þekkjum það sjálfsagt, mörg hver, sem höfum kynnst því baksi sem menn í afskekktum byggðum standa frammi fyrir, þeim barningi þegar þeir eru hreinlega að sinna lágmarksþörfum í þessum efnum eins og að gefa út einn bækling, að þröskuldurinn þar sem er næstum óyfirstíganlegur getur ósköp einfaldlega verið prentkostnaður upp á nokkur hundruð þúsund krónur. Það er þannig. Ég þekki dæmi um lítil ferðamálasamtök sem hafa farið bónleið til búðar, hafa verið að baksast við að reyna að fá fjárstuðning, kannski fengið eitthvað örlítið en þó ekki nóg. Það er mönnum næstum ofviða og menn safna skuldum af því einu að gefa út í lágmarksupplagi kynningarbækling á því sem í boði er á sviði ferðaþjónustu í viðkomandi byggðarlagi. Jafnvel bara tiltölulega litlir fjármunir sem gengju til að styrkja sérstaklega slíka hluti og kannski á eitthvað stærri mælikvarða, t.d. að vera með sérstakan stuðning í gangi til að efla heilsársþjónustuna þar sem hún er að komast á legg úti um landið, er auðvitað gríðarlega mikilvægt vegna þess að það dregur einmitt straum ferðamannanna út um landið á þeim árstíma sem hefur verið hvað erfiðastur fram að þessu. Ég nefni þar sem dæmi hina stórmerkilegu uppbyggingu sem verið hefur í Mývatnssveit á allra síðustu árum í þeim efnum þar sem allt í einu eru farnir að koma erlendir ferðamenn, jafnvel frá fjarlægum löndum eins og Japan, um hávetur til þess að horfa þar á norðurljósin, ekki til þess eins auðvitað en megintilgangur ferðarinnar er kannski sá að komast í slíka náttúru og slíkt umhverfi og eiga einhverja von í því, ef menn eru heppnir með veður, að fá að sjá norðurljós dansa á himni. Þetta eru hlutir sem eru geysilega mikilvægir og skiptir miklu máli að hægt sé að standa vel við bakið á. Þá er aftur og aftur komið að því sama, það eru peningarnir, það eru fjármunirnir, það eru möguleikarnir á því að gera það sem gera þarf.

Ég ætla að nefna hérna, eins og Kató gamli, til að gleyma því ekki í þessari ræðu frekar en öðrum, mitt gamla og nýja áhugamál í þessum efnum þar sem ég er algerlega sannfærður um að stendur okkar ákaflega fyrir þrifum og það er að hafa ekki beinar millilandaflugsamgöngur, a.m.k. einhvern hluta ársins, frá fleiri stöðum en Keflavík og þetta litla sem er frá Reykjavík, sem sagt héðan af suðvesturhorninu einu. Það er alveg augljóst mál, það er alveg sama hvernig við veltum því öllu saman fram og til baka, að langróttækasta aðgerðin, og sú sem mundi hafa mest að segja í sambandi við að dreifa álagi og þar með um leið tekjum og afrakstri ferðaþjónustunnar út um landið, væri að taka ferðamennina inn í landið eða flytja þá aftur frá landinu á fleiri stöðum þannig að uppbygging ferðalaganna breyttist og sá flöskuháls og sú uppsöfnun eða samþjöppun allra ferðalaga sem að óbreyttu verður sjálfkrafa á suðvesturhorninu og höfuðborgarsvæðinu, ef þessu væri eitthvað hægt að breyta. Nú stendur beinlínis í skýrslunni — þeir eru að vísu ákaflega varkárir í orðum þessir menn, enda miklir markaðssinnar eins og kunnugt er og voru með upphaflega textann þannig að banna ætti ríkinu að koma nokkurs staðar nálægt ferðaþjónustu sem einkaaðilar kynnu að vilja sinna. Það á að breyta því sem betur fer, en það er sama varkárnin á ferðinni þegar segir hér, með leyfi forseta:

„Því geti mögulega verið verjandi fyrir hagkvæmnissakir að stjórnvöld aðstoði markaðssetningu þeirra héraða hérlendis sem hafa verið síður vinsæl meðal ferðamanna og niðurgreiði ferðamannastraum til landsins utan háannar þegar fjárfestingar í greininni eru vannýttar.“ — Þetta er í raun og veru það sem ég var að ræða hér. Svo segir: „Einkum þyrfti að beina ferðamannastraumnum frá Reykjavík og til landsbyggðarinnar.“

Þetta er skiljanlegt mannamál. Og hver væri róttækasta og vænlegasta aðgerðin í þeim efnum? Jú, það væri auðvitað að reyna að stuðla að því að heilsárs eða a.m.k. hluta úr ári beinar samgöngur til og frá einhverjum ferðamannasvæðum, sem væntanlega yrðu á meginlandi Evrópu eða Bretlandseyjum til að byrja með, ættu sér stað annars staðar en frá Keflavík. Ég tel að stjórnvöld hafi allt í höndunum sem þau þurfa í þeim efnum, a.m.k. eftir samþykkt þessarar þingsályktunartillögu og þeirra skilgreininga og markmiða sem þar eru sett. Það er alveg prýðilegt að festa þetta þá bara í sessi. Það mætti að vísu kveða fastar að orði að mínu mati og óþarft að vera með neina hálfvelgju eða óþarfa varkárni í þeim efnum. Það getur ekki orðið neinum til tjóns og eingöngu allri ferðaþjónustunni í landinu til góðs ef, vel að merkja, vöxtur hennar á komandi árum verður í einhverjum mæli í því formi að ferðamenn annaðhvort komi og fari til og frá landinu eða komi inn á einn stað og fari frá öðrum. Þá held ég að menn hljóti að horfa til Akureyrar og Egilsstaða í fyrstu umferð og við getum notað sem dæmi um hvaða gildi þetta muni hafa, þau miklu áhrif sem eru af komum Norrænu til Austfjarða. Það dæmi sýnir auðvitað hvers virði það er að fá ferðamennina, hversu mikils það svæði nýtur sem fær þá til sín með fulla vasa fjár, tekur á móti þeim og býður þeim upp á þjónustu sína fyrstu sólarhringana sem þeir eru í landinu. Margir þeirra fara aldrei neitt lengra, eru kannski innan Austurlandsfjórðungs eða á norðaustanverðu landinu þá viku sem þeir stoppa.

Nú skilur ferðaþjónusta að vísu ekkert endilega í öllum tilvikum mikið eftir sig ef menn koma vel nestaðir á sínum bíl og jafnvel birgir af bensíni. Þá er ekki endilega víst að það séu nein ósköp. Þó er það alltaf það sem það er sem er þjónustan í kringum þessa starfsemi og einhverju eyða menn yfirleitt. Jafnvel þó þýskir séu komast menn varla hjá því að kaupa sér kaffibolla einhvers staðar. En svo er það allt upp í hitt að auðvitað eru veruleg umsvif tengd því að fá menn þessa leiðina inn í landið.

Sama vitum við að menn hafa upplifað á þeim takmörkuðu tímabilum þar sem hefur verið slíkt beint flug á Egilsstaði og á Akureyri þó að þær tilraunir, því miður, fram að þessu hafi verið gerðar af vanefnum og ekki tekist sem skyldi. Nú eru að vísu um það fréttir að enn eigi að reyna í þessum efnum og væri fróðlegt að heyra hvort hæstv. samgönguráðherra hefur eitthvað af því það að segja hér hvort stjórnvöld séu að fylgjast með og eftir atvikum að reyna að styðja við bakið á því sem er verið að reyna enn á ný og varðar beint millilandaflug og þá er sérstaklega talað um Egilsstaði að vísu. En mér er reyndar kunnugt um að þar er einnig verið að skoða ýmsa slíka möguleika til og frá Akureyri.

Ég held líka að það sé kannski orðið tímabært að hugsa ýmislegt upp á nýtt og í nýju ljósi í þessum efnum. Ég hef lengi séð fyrir mér að t.d. bæði Egilsstaðir og Akureyri gætu verið miklu stærri þátttakendur í flugsamgöngunum til nágrannasvæðanna á Vestur-Norðurlöndum heldur en þau þó eru. Það er að vísu þannig að sögulega og landfræðilega liggur beint við að Akureyri hefur alltaf tengst talsvert samgöngum sérstaklega til norðurhluta austurstrandar Grænlands, Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri veitir þar þjónustu og samgöngur hafa tengst þangað. Það er stutt frá Egilsstöðum til Voga í Færeyjum og lægi að mörgu leyti beint við að eitthvert flug kæmist á þar á milli. Það gæti verið möguleiki í þeim efnum að það flugfélag íslenskt sem fyrst og fremst sinnir innanlandsflugsamgöngum og samgöngum til nærsvæðanna, sem sagt Flugfélag Íslands, væri framkvæmdaaðili í slíku tilviki ef Flugleiðir, móðurfélagið, sér sér ekki hag í því. Möguleikarnir gætu að mínu mati verið ærnir.

Ég sæi ekkert því til fyrirstöðu í þessu tilviki að við færum þá leið, ef það reyndist vænlegur kostur, sem Grænlendingar hafa farið gagnvart okkur. Þeir semja einfaldlega við íslenska aðila um að veita þjónustu í flugi til Grænlands og styrkja það með opinberu fé á tilteknum samningstíma. Íslendingar gætu alveg farið sömu leið ef það reyndist hagkvæmari lausn að semja t.d. við færeyska flugfélagið sem hefur yfir að ráða millilandaflugvélum af heppilegri stærð um að veita tiltekna þjónustu eða styrkja þá í að veita tiltekna þjónustu. Það gæti vel komið í ljós að það væri vænlegur kostur. Ég held að þetta sé atriði sem menn megi ósköp einfaldlega ekki gefast upp við að skoða og hafa sífellt í huga, þ.e. að reyna að finna leiðir til að taka einhver skref og ýta undir einhverja þróun í rétta átt í þessum efnum.

Alltaf kemur maður þá til baka og að þessu sama. Spurningin er um það hvaða fjármagn eru menn tilbúnir til að leggja í uppbyggingu og í stuðning af því tagi. Það fer því miður minnkandi ef eitthvað er akkúrat á þessu ári þegar við erum að ræða þingsályktunartillögu um stefnumótun í ferðamálum til langs tíma í fyrsta sinn og auðvitað er svolítið dapurlegt að aðstæðurnar skuli þá einmitt vera slíkar. Ég held að það verði ekki sótt nein rök í það að minni þörf sé fyrir slíkt fé núna en var kannski árin eftir atburðina 11. september 2001 eins og stundum heyrist, þegar kraftur var settur í markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu og að hluta til var tengdur henni eða eyrnamerktur henni, sem að sjálfsögðu var hið besta mál, að þörfin sé ekki lengur fyrir hendi í þeim efnum. Það fer allt eftir því hvernig menn nálgast málin og er þá ekki bara hægt að horfa til þess að það er kannski af öðrum ástæðum og nýjum og breyttum eins og sumum þeirra sem við erum hér að ræða enn þá meiri þörf fyrir að taka á í þeim efnum.

Herra forseti. Ég held ég fari að láta þessar hugleiðingar mínar nægja um málið. Ég tek að sjálfsögðu undir það sem margoft hefur verið sagt að það er margt jákvætt í þessari vinnu, í þessu ferli og ýmislegt fallega orðað og vel sagt í tillögugreininni. En veikleikarnir eru þessir sem margoft hefur verið komið hér inn á, að þegar kemur að framkvæmdinni og afli hlutanna þá er í raun skilað auðu þannig að það er skrifað í skýin hvernig mönnum gengur á komandi missirum og árum við að afla fjár og að ráðast í aðgerðir sem gætu gert það að verkum að þau markmið sem hér eru sett náist fram. Það munu þau sjálfsagt örugglega ekki gera að fullu en því meira sem hlutirnir þokuðust í rétta átt þeim mun betra.