131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Mannréttindasáttmáli Evrópu.

648. mál
[17:29]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum um mannréttindasáttmála Evrópu, frá allsherjarnefnd.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund fulltrúa frá dómsmálaráðuneytinu en umsagnir bárust vegna málsins frá Persónuvernd, ríkissaksóknara, Alþýðusambandi Íslands og Mannréttindaskrifstofu Íslands.

Í frumvarpinu er lagt til að 14. viðauki við samninginn um verndun mannréttinda og mannfrelsis frá 4. nóvember 1950 (mannréttindasáttamála Evrópu) verði lögfestur. Meginefni viðaukans varðar breytingar á eftirlitskerfi mannréttindasáttmálans, einkum hvað varðar meðferð kæru á fyrstu stigum og fullnustu dóma dómstólsins, en helsti tilgangur viðaukans er að auka skilvirkni Mannréttindadómstóls Evrópu svo að markmiðum sáttmálans verði náð.

Gildistaka ákvæða samningsviðaukans auðveldar dómstólnum að takast á við þann mikla fjölda kæra sem reynast ótækar til efnismeðferðar og í vissum tilvikum mun einn dómari geta tekið ákvörðun um frávísun kæru í stað þriggja dómara nefndar áður. Þá er bætt við nýju skilyrði fyrir því að kæra teljist tæk til efnismeðferðar þannig að vísa skal kæru frá ef ekki verður séð að kærandi hafi orðið fyrir umtalsverðu óhagræði vegna meints brots. Þá verður hægt að afgreiða „endurtekin mál“ með skilvirkari hætti en áður þar sem þriggja dómara nefnd fær heimild til að dæma í málum þar sem dómstólinn hefur áður leyst úr sambærilegum álitaefnum, í stað sjö dómara deildar nú. Auk þess verður unnt að ljúka máli með sátt á öllum stigum í stað þess að það sé eingöngu hægt í málum sem eru tæk til efnismeðferðar eins og nú er.

Aðrar breytingar sem samningsviðaukinn felur í sér lúta einna helst að því að sjálfstæði dómara er aukið með lengri kosningu, til níu ára í stað sex ára áður, auk þess sem ráðherranefndinni eru veitt ný úrræði varðandi eftirlit með fullnustu dóma og Mannréttindadómstólnum falið hlutverk við fullnustu þeirra. Þá verður Evrópusambandinu heimilað að gerast aðili að mannréttindasáttmálanum.

Nefndin leggur til smávægilegar breytingar á fylgiskjali, en í því er texti samningsviðaukans felldur inn í megintexta sáttmálans sjálfs. Breytingarnar lúta eingöngu að samræmingu á orðalagi þannig að orðin „samningur“ og „samningsviðauki“ verði notuð í stað orðanna „sáttmáli“ og „viðbótarsamningur“.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeirri breytingu sem fram kemur í fyrirliggjandi þingskjali 1218.