131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Mannréttindasáttmáli Evrópu.

648. mál
[17:42]

Frsm. allshn. (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég vil að gefnu tilefni ítreka það að með því frumvarpi sem hér er til umfjöllunar er einungis verið að lögfesta 14. samningsviðauka mannréttindasáttmálans. Eins og ég vék að í framsögu minni áðan er þessum viðauka fyrst og fremst ætlað að auka skilvirkni Mannréttindadómstólsins með þrennum hætti. Eins og fram kemur í greinargerð með frumvarpinu sem liggur fyrir þinginu hefur málafjöldi fyrir dómstólnum margfaldast undanfarin ár og alveg augljóst er að við þessu þurfti að bregðast með þeim aðgerðum sem viðaukinn m.a. felur í sér.

Að öðru leyti hlýt ég að gera athugasemdir við að í tengslum við þetta afmarkaða mál skuli tekin upp umræða um fjöldamörg önnur mál sem eru þessu þingmáli algerlega óviðkomandi. Hv. þingmaður vísar í ræður manna sem haldin eru við tilefni allt önnur og ótengd þessum 14. viðauka mannréttindasáttmálans. Mér fannst vera farið hér um víðan völl. Mér fannst þetta vera kannski ágætis framboðsræða en afskaplega lítið hafa með þetta þingmál að gera.