131. löggjafarþing — 120. fundur,  2. maí 2005.

Happdrætti.

675. mál
[18:04]

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Frú forseti. Eins og kom fram í máli hv. formanns allsherjarnefndar ríkti bæði vilji og skilningur nefndarmanna á þeim umsögnum og athugasemdum sem við fengum til nefndarinnar frá hagsmunaaðilum sem reka happdrætti. Það er því ljóst að nefndin tók inn talsvert mikið af breytingum og breytingartillögum sem frá þeim aðilum komu og er það auðvitað vel. Við fengum fjölda gesta á okkar fund og fór fram afar fróðleg umræða. Margar af þeim athugasemdum sem nefndinni bárust lutu ekki beinlínis að ákvæðum þessa frumvarps heldur miklu frekar að ákvæðum í öðrum lögum, þ.e. sérlögum um peningahappdrætti sem eru til endurskoðunar í dómsmálaráðuneytinu, eins og hæstv. dómsmálaráðherra gat um í flutningsræðu sinni og sömuleiðis er tíundað í greinargerð með frumvarpinu.

Það má auðvitað til sanns vegar færa sem fram hefur komið að ákveðin rök eru fyrir því að setja öll lög um happdrætti í einn lagabálk. Þá er ég með í huga heildarlög þar sem fram kæmu t.d. heildarviðhorf löggjafans til happdrætta. Þar yrði skilgreind þörfin fyrir opinbert utanumhald og sömuleiðis þörfin fyrir fyrirbyggjandi aðgerðir gegn spilaáráttu eða spilafíkn og hömlur gegn því að hægt sé að höfða til barna, fatlaðra eða þeirra sem sárlega eru peningaþurfi um ríkidæmi og lausn allra fjárhagserfiðleika með þátttöku í happdrætti.

Um eitt þessara atriða fjallaði nefndin dálítið og ég er afar ánægð með að inn í nefndarálitið skuli hafa ratað eftirfarandi setning, með leyfi forseta:

„Þá leggur nefndin áherslu á að við endurskoðun sérlaga um peningahappdrætti sem boðuð er í greinargerð með frumvarpinu verði sérstaklega tekið til skoðunar hverjir skuli bera ábyrgð á fyrirbyggjandi aðgerðum gegn spilafíkn og hvernig þeirri ábyrgð verði háttað.“

Það er auðvitað mjög mikilvægt að sérstaklega í þeim happdrættum sem alið geta á spilafíkn sé tiltekið á hvern hátt hið opinbera ætlar að koma til móts við þarfir þeirra sem eiga um sárt að binda eða rata í erfiðleika vegna spilafíknar. Ljóst er að spilafíkn er vaxandi vandamál ekki bara hér á landi heldur alls staðar í kringum okkur og sömu lögmál virðast gilda um hana hér og annars staðar. Hins vegar verður að segjast eins og er að ekki eru allar tegundir happdrættis jafnhættulegar í þessum efnum. Það má segja að flokkahappdrættin sem sjaldan er dregið í, happdrætti sem hafa fyrst og fremst vörur sem vinninga eru kannski ekki svo aðlaðandi fyrir spilafíkla, hafa ekki neina beina þýðingu við myndun þessarar áráttu. Hins vegar má segja að skafmiðahappdrættin, bingóin, tombólurnar og svo öll peningahappdrættin, lottóið og slíkt falli frekar að þeim skilmálum eða þeim atriðum sem þurfa að vera til staðar þegar áhrif spilafíknar eru til skoðunar. Segja má um sérstök ákvæði um ábyrgðina á fyrirbyggjandi aðgerðum að kannski sé eðli málsins samkvæmt réttara að slík ákvæði komi inn í þau lög sem eru nú til endurskoðunar heldur en akkúrat þetta frumvarp sem hér er fjallað um.

Í umsögn um frumvarpið frá Samtökum áhugafólks um spilafíkn er getið um þessi atriði og eitt af þeim atriðum sem kemur fram í umsögninni varðar það að auðvitað þurfi að vera ljóst hvers konar tegundir happdrættis það eru sem þessi lög ná raunverulega yfir. Samtökin benda okkur á að nauðsynlegt sé að taka af allan vafa um það í reglugerð og við tökum undir það í nefndarálitinu. Samtök um spilafíkn segja að það að tala eingöngu um happdrætti sem almennt hugtak valdi ákveðnum ruglingi þar sem tilboð til almennings um að græða stórfé á margvíslegan annan hátt en eftir hefðbundnum happdrættisleiðum virðist eiga að falla undir þessi lög nema um þau gildi sérlög. En þá spyr maður sig hvort þessi lög gildi um bingó, tombólur og ýmiss konar skafmiða. Þetta er að mati þeirra sem standa að Samtökum áhugafólks um spilafíkn of óljóst og ýtir að þeirra mati undir þörf fyrir einn heildstæðan lagabálk.

Ég tel eðlilegt að starfsfólk dóms- og kirkjumálaráðuneytisins sem hefur þessi mál til skoðunar taki mið af þessari umsögn og öðrum þeim sem komu til nefndarinnar við umfjöllun málsins því að hér eru afar þarfar ábendingar sem skiptir máli að komist í hendur þeirra sem eru að endurskoða lögin.

Það er grafalvarlegt mál hversu spilafíknin hefur náð tökum á mörgu fólki og mörgum á Íslandi ekki síður en í nágrannalöndum okkar og það er auðvitað eðlilegt að opinberir aðilar viðurkenni þá ábyrgð sem á þeim hvílir í þessum efnum og tryggi að forvarna sé gætt og þær séu unnar skipulega og í opinni samvinnu við þá sem standa t.d. að þessum samtökum áhugamanna um spilafíkn því það er ákall um það í samfélaginu að út í slíkar forvarnir sé farið og það finnst mér vera rétti vettvangurinn að gera þegar við erum að fjalla um happdrætti og lagaramma um þau.

Að öðru leyti má segja að góð sátt hafi verið um málið í nefndinni. Ég fagna því og finnst að vinnan í nefndinni hafi leitt það af sér að með breytingartillögunum sem við leggjum fram held ég að við séum með nokkuð skothelt frumvarp sem hv. formaður nefndarinnar lagði til áðan að verði samþykkt og ég sé ekki að meinbugir verði á því hjá löggjafarsamkundunni.