131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[11:44]

Jónína Bjartmarz (F):

Frú forseti. Ég á það erindi helst upp í ræðustólinn að lýsa yfir stuðningi við frumvarpið. Það háttar svo til að þó að ég eigi sæti í allsherjarnefndi var ég fjarverandi þegar málið var afgreitt úr nefndinni og stend þar af leiðandi ekki að því sem nefndarmaður samkvæmt nefndarálitinu en kom að vinnu nefndarinnar í málinu.

Hv. þm. Bjarni Benediktsson, framsögumaður og formaður allsherjarnefndar, hefur rakið forsögu frumvarpsins og fór líka yfir þær breytingar sem nefndin leggur til á frumvarpinu og gerði það ágætlega þegar umræðan hófst og er litlu við það að bæta. Það sem ég vildi koma inn á er forsaga málsins, að upphaflega var lagt fram frumvarp af hálfu dóms- og kirkjumálaráðherra á síðasta þingi, frumvarp að heildarlögum um fullnustu refsinga. Það fór svo um það mál að það hafði ekki verið sent til umsagnar áður og ekki höfðu aðrir komið að því en starfsmenn ráðuneytisins. Málið var síðan sent út til umsagnar og á grundvelli þeirra viðbragða sem urðu við frumvarpinu, eins og það lá fyrir, var ákveðið að fara ekki fram með það heldur leggja fram nýtt frumvarp á þessu þingi sem nú hefur verið gert.

Með frumvarpi þessu er verið að leitast við að setja heildarlög um réttindi og aðbúnað fanga í fangelsum hér á landi og m.a. verið að lögfesta ákvæði um fullnustu refsinga sem hafa bæði verið í reglugerðum og eins í starfsreglum fangelsa.

Það kemur fram í athugasemdum við lagafrumvarpið og er skýrt tekið fram að nýja frumvarpið er unnið í samstarfi við Fangelsismálastofnun. Á vegum stofnunarinnar hefur samhliða því sem unnið var að endurgerð þessa frumvarps verið unnið að því að fram færi stefnumótunarvinna og í þeirri stefnumótunarvinnu var samin skýrsla um markmið í fangelsismálum og um framtíðaruppbyggingu fangelsanna. Í þeirri skýrslu er tekið á mjög mörgum mikilvægum álitamálum sem hafa verið í almennri umræðu í þjóðfélaginu mörg undanfarin ár sem varða framkvæmd laga um fullnustu refsinga. Mig langar, frú forseti, að vísa til þessarar skýrslu en þar segir m.a., með leyfi forseta:

„Tilgangur með rekstri fangelsa er að fullnusta refsidóma samkvæmt efni þeirra þannig að dæmdir menn taki út þá refsingu sem þeim hefur verið ákvörðuð í dómi. Fangelsismálastofnun telur að það sé meginmarkmið með fangelsun að hún fari fram með öruggum hætti þannig að réttaröryggi almennings sé tryggt og tilætluð sérstök og almenn varnaðaráhrif fangelsisvistarinnar séu virt.

Að lokinni refsivist snýr fangi aftur út í samfélagið og því er þjóðfélagslega hagkvæmt að draga úr líkum á endurkomu hans í fangelsi vegna nýrra afbrota. Fangelsismálastofnun telur mikilvægt að sett verði þau markmið að föngum verði tryggð örugg og vel skipulögð afplánun, að mannleg og virðingarverð samskipti verði höfð í fyrirrúmi og að fyrir hendi verði aðstæður og umhverfi sem hvetur fanga til að takast á við vandamál sín. Til að ná fram þessum markmiðum þarf að setja fram einstaklingsbundna áætlun um framvindu afplánunarferils sérhvers fanga í upphafi refsivistar. Áætlun þessi fæli í sér þætti eins og áhættumat, meðferðarþörf, getu til náms og/eða vinnu, sálfræðilegan, félagslegan og annan stuðning. Eftir þessari áætlun yrði síðan unnið með viðkomandi fanga á afplánunartímanum af menntuðu og þjálfuðu starfsfólki og áætlunin endurskoðuð reglulega. Þegar kemur að lokum afplánunar viðkomandi yrði stuðlað að því, í samvinnu við fangann, að hann ætti fastan samastað, hefði góð tengsl við fjölskyldu og/eða vini, kynni að leita sér aðstoðar og næði að fóta sig í samfélaginu.“

Það segir með réttu í athugasemdum við frumvarpið að við afgreiðslu þess sé nauðsynlegt að líta til þessarar skýrslu og þeirra sjónarmiða um framtíð fangelsismála sem þar er að finna. Það segir líka að dóms- og kirkjumálaráðherra muni á grundvellli skýrslunnar og með vísan til þess hver verður afgreiðsla frumvarpsins móta tillögur um næstu skref varðandi byggingu nýs fangelsis.

Ástæðan fyrir því að ég vitna til þessarar skýrslu er að meginefni sú að í henni er að finna ákveðna hugmyndafræði sem mönnum þótti skorta í frumvarpinu sem fram kom á síðasta þingi um hver markmiðin með refsingum skuli vera, að það séu tvíhliða makmið, annars vegar að fullnusta refsidóma og hins vegar hljóti fangelsisrefsingin að miða að því að fækka endurkomum, fækka þeim tilfellum að einstaklingar lendi aftur í fangelsi vegna nýrra afbrota. Það eru þessi samhliða markmið. Það má segja að frumvarpið allt taki mið af þessu og það sé miðað við að mæta þessum tvenns konar markmiðum og jafnframt að þær breytingartillögur sem allsherjarnefnd leggur til með nefndarálitinu miði allar að því sama. Það segir í athugasemdunum að við afgreiðslu frumvarpsins verði tekið mið af því við mótun næstu skrefa varðandi byggingu nýs fangelsis. Það liggur alveg ljóst fyrir og kemur fram í nefndaráliti allsherjarnefndar að það eru tiltekin takmörk sem byggingarnar sem við búum við setja okkur varðandi m.a. efni frumvarpsins. Þannig er t.d. nefnt í nefndarálitinu hversu óheppilegt það sé, eins og komið hefur fram í mörgum umsögnum, að vista gæsluvarðhaldsfanga með afplánunarfanga. Ástæðan fyrir því að það er gert í dag er sú að húsakostur fangelsa hér á landi býður ekki upp á annað fyrirkomulag. Úr þessu verður ekki bætt nema með viðbótarbyggingum og viðbótarfjármagni til fangelsismálanna.

Í öðru lagi var ræddur í nefndinni réttur fanga til útiveru og tómstunda. Hann hefur samkvæmt reglunum verið ein klukkustund á dag og spurt var hvort ekki væri ástæða til að rýmka hann í eina og hálfa klukkustund á dag. Þá kom aftur fram sú afstaða hjá þeim sem starfa hjá Fangelsismálastofnun og nefndarmönnum að það væri mikilvægara að þessi tími væri rýmri, en aðstæður í fangelsum landsins bjóði ekki í öllum tilvikum upp á frekari útivist. Það eina sem nefndin getur gert er að árétta að þetta sé lágmarksréttur fanga sem beri að virða. En þetta er enn eitt dæmið um að það er húsakosturinn og aðbúnaðurinn sem kemur í veg fyrir að hugsanlega væri hægt að ganga lengra í því að tryggja ákveðin lágmarksréttindi fanga í þessum lögum.

Í þriðja lagi, og það sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hafði mörg orð um áðan í ræðu sinni, er okkur þessi þröngi stakkur sniðinn með tilliti til heilbrigðisþjónustu í fangelsunum. Eitt brýnasta úrlausnarefnið í fangelsismálum, sem m.a. allsherjarnefnd tekur undir í nefndaráliti sínu, er að tryggja að í framtíðaruppbyggingu fangelsanna verði reist sjúkradeild fyrir sakhæfa fanga sem þurfa á bráðameðferð að halda, m.a. vegna alvarlegra persónuleikaraskana og annarra geðsjúkdóma. Þetta held ég að sé eitt brýnasta viðfangsefnið og eins og ég sagði er þetta enn eitt dæmið um að það þarf aukið fjármagn inn í þennan málaflokk til að hægt sé að tryggja að til staðar séu viðeigandi byggingar og aðbúnaður til að tryggja föngum sem eru að taka út refsivist m.a. þá heilbrigðisþjónustu sem þeir eiga rétt á.

Hitt sem mig langar aðeins að vekja athygli á er að fangar bæði fyrir og eftir að þeir fara í afplánun eiga sama rétt og allir aðrir samkvæmt almannatryggingalögum til greiðsluþátttöku í þeirri þjónustu sem þeir fá samkvæmt reglum almannatryggingalaga um sjúkratryggingar.

Af því að hv. þm. Margrét Frímannsdóttir nefndi enn og aftur bréf sem forstöðumaður Fangelsismálastofnunar hafði sent hæstv. heilbrigðisráðherra þá velti ég því fyrir mér hvort þetta sé fyrst og fremst vandi sem leysa eigi á vegum heilbrigðisráðuneytisins og beina eigi spjótum þangað eða hvort þetta sé málefni sem heyri eingöngu undir dómsmálaráðuneytið. Mér segir svo hugur að þetta sé málefni sem þessi tvö ráðuneyti þurfi að leysa í sameiningu og það sýnir okkur enn og aftur hvernig tiltekin málefni geta lent á gráu svæði þegar þau eru á verksviði fleiri en eins ráðherra og fleiri en eins ráðuneytis. Til að geta tryggt föngum sérstaka heilbrigðisþjónustu, hvort heldur það er geðheilbrigðisþjónusta eða annað, inni í fangelsunum þarf aðbúnaðurinn fyrst og fremst að vera til staðar vegna þess að þó svo að menn afpláni refsivist eiga þeir sama rétt á heilbrigðisþjónustu og allir aðrir. Hins vegar í þeim dæmum þar sem menn búa við bráðan vanda og leita hefur þurft lausna og þeir hafa verið sendir á viðeigandi stofnanir, t.d. geðdeild Landspítala – háskólasjúkrahús, þá er alveg ljóst að með því fyrirkomulagi sem þar er, með auknu göngudeildarstarfi og minni innlögn, eru ekki aðstæður til að taka á móti föngum með tiltekin geðvandamál. Þess vegna legg ég áherslu á þegar talað er um heilbrigðisþjónustu fanga að það sé fyrst og fremst vandamál sem leysa þurfi sameiginlega, a.m.k. af þessum tveimur ráðuneytum, og að menn hafi frekar þá aðkomu að málinu að hvetja til samstarfs til að lausn fáist á því.

Frú forseti. Fyrst og fremst vil ég lýsa yfir stuðningi við frumvarpið almennt og fullum stuðningi við allar þær breytingartillögur sem hv. allsherjarnefnd leggur til á málinu sem ég tel allar vera til mikilla bóta. Meðal annars vegna skorts á fjármagni, vegna þess að ekki er búið að ljúka því að móta heildarstefnu um uppbyggingu fangelsa á Íslandi, eru okkur settar ákveðnar hömlur í frumvarpinu um hvaða réttindi og aðbúnað við getum tryggt föngum, ég ætla ekki að endurtaka það, en ég hef þegar nefnt nokkur tilvik, eins og aðstöðuna til útiveru og hreyfingar, og heilbrigðisþjónustuna.