131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Fullnusta refsinga.

336. mál
[11:56]

Kjartan Ólafsson (S):

Frú forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um fullnustu refsinga. Ég er einn af þeim þingmönnum sem eiga sæti í allsherjarnefnd og hef þar af leiðandi unnið að þessu nefndaráliti. Það eru nokkur atriði sem ég vildi fara yfir. Það er búin að vera ágæt og gagnmerk umræða um frumvarpið og ég ætla ekki að fara út í endurtekningar en það eru þó atriði sem ég vil aðeins koma inn á sem mér finnst ekki hafa komið fram í umræðunni og ég vildi aðeins bæta við.

Ýmis nýmæli koma fram í frumvarpinu sem er ástæða til að fagna og því er ég auðvitað einn af þeim sem styðja samþykkt þessa frumvarps. Eitt af þeim nýmælum sem ég vil aðeins ræða, vegna þess að það tengist öðrum þáttum sem hér hafa verið til umræðu, er það sem nefndin bendir á og lagt er til í 17. gr. frumvarpsins, að við upphaf afplánunar skuli Fangelsismálastofnun í samvinnu við fanga gera meðferðar- og vistunaráætlun sem skuli endurskoða eftir atvikum meðan á afplánun stendur. Talað er um að þetta sé mikið framfaraskref en síðan komum við að þeirri staðreynd að þær aðstæður sem menn búa við í fangelsunum er ekki eins og best má vera. Mig langar aðeins að fara inn á þá umræðu og inn á þá braut vegna þess að í nefndarálitinu er m.a. verið að vitna í skýrslu Fangelsismálastofnunar frá 26. janúar 2005 um uppbyggingu fangelsanna. Það er ýmislegt sem fara þarf yfir þegar við ræðum húsnæðismál og þær aðstæður sem búa þarf fangelsunum. Þar þarf í rauninni að vera samhljómur á milli fangelsisyfirvalda og heilbrigðisyfirvalda. Mér virðist að svo sé ekki að öllu leyti hvað þetta varðar. Það eru svolítið deildar meiningar innan þessara tveggja stofnana og ég tel ástæðu til að fara svolítið nánar yfir það. Meðal annars má vitna í ráðstefnu sem haldin var á Hótel Örk þar sem þessir aðilar lýstu þeirri skoðun sinni að heilbrigðisyfirvöld vilji taka og samhæfa þjónustu fyrir ósakhæfa fanga sem eru geðsjúkir og svo aftur sakhæfa en fangelsisyfirvöld vilja aðgreina þetta.

Þær staðreyndir liggja fyrir að það þarf að byggja yfir þessar stofnanir og við þurfum að reyna að átta okkur á hvernig við samhæfum best þessa þætti, annars vegar þann þátt er fangelsismálayfirvöld eiga að inna af hendi og hins vegar heilbrigðisþáttinn. Staðreyndin er auðvitað sú, eins og kom fram í ræðu hv. þm. Margrétar Frímannsdóttur, að það þarf að byggja nýtt fangelsi. Það þarf að byggja og finna úrræði og þar er auðvitað fleiri en einn kostur. Það er einmitt það sem ég vil koma inn á. Talað hefur verið um að byggja nýtt fangelsi á Hólmsheiðinni. Það er auðvitað gríðarlega dýr framkvæmd, það er ný stofnun, ný stöð með öllu því sem slíkt útheimtir og allur sá rekstrarkostnaður sem hlýst af því að búa til nýja stöð. Við vitum að það er gríðarlega dýrt, það er sólarhringsvakt og allt sem tilheyrir, allur sá yfirstjórnarþáttur sem þar kemur til og það er rekstrarkostnaður sem er viðvarandi fyrir skattgreiðendur í landinu. Vegna þess að ég nefndi skýrslu Fangelsismálastofnunar vildi ég aðeins reifa þetta í þessari umræðu og í framhaldi af því sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir ræddi um, hvort ekki sé rétt að samþætta núverandi stofnanir og starfsstöðvar frekar en gert er.

Það kom fram á fyrrnefndri ráðstefnu á Hótel Örk að fulltrúar frá heilbrigðisyfirvöldum vildu byggja við réttargeðdeildina á Sogni og sameina þar úrræði fyrir ósakhæfa og sakhæfa geðsjúka einstaklinga. Þar er orðin mikil fagþekking á þessu sviði og því væri rétt að nýta hana fyrir þennan málaflokk alfarið.

Það háttar líka þannig til á Litla-Hrauni sem er eitt okkar stærsta fangelsi að það er tiltölulega auðvelt að stækka þá einingu og byggja við það hús og samnýta þá geðlæknisþjónustu sem veitt yrði á báðum þessum stöðum. Varðandi fullnustu refsinga hefur fyrr í umræðunni jafnframt komið fram sú hugmynd hvort ekki mætti hafa aðstöðu fyrir alla gæsluvarðhaldsfanga á Litla-Hrauni með því að efla Héraðsdóm Suðurlands og færa til hans þau verkefni að hann hafi meira með rannsókn mála að gera en hann gerir í dag og rannsókn mála á landsvísu. Þá er ég að tala um að stórefla Héraðsdóm Suðurlands þannig að hann geti tekið að sér almenna rannsóknarvinnu varðandi gæsluvarðhaldsfanga hér á landi

Frú forseti. Ég fer inn á þá braut hér að við reynum að samhæfa úrræði sem við þurfum að hafa varðandi vistun fanga, bæði sakhæfra og ósakhæfra, að við reynum að samhæfa þá þjónustu og gera hana sem hagkvæmasta. Ég bendi jafnframt á að efla mætti Héraðsdóm Suðurlands þannig að hann gæti tekið að sér frekari rannsóknarvinnu og þá gætum við séð þessum málaflokki betur borgið, bæði húsnæðislega, faglega og kostnaðarlega fyrir skattgreiðendur.