131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Ársreikningar.

480. mál
[12:08]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 144/1994, um ársreikninga, með síðari breytingum frá hv. efnahags- og viðskiptanefnd. Nefndarálitið er að finna á þskj. 1250.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Elvu Ósk Wiium og Guðmund Guðbjarnason frá fjármálaráðuneyti, Skúla Eggert Þórðarson og Bryndísi Kristjánsdóttur frá embætti skattrannsóknarstjóra ríkisins, Pál Gunnar Pálsson, Ragnar Hafliðason og Guðmund Jónsson frá Fjármálaeftirliti, Indriða H. Þorláksson ríkisskattstjóra, Sigríði Á. Andersen frá Verslunarráði, Lilju Steinþórsdóttur frá Seðlabanka Íslands, Hrefnu Ösp Sigfinnsdóttur og Bryndísi Ösp Valsdóttur frá Kauphöll Íslands og Sigurð Þórðarson ríkisendurskoðanda, ásamt Vigni Rafni Gíslasyni og Albert Ólafssyni frá reikningsskilaráði.

Í frumvarpinu er lagt til að tekin verði upp ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 78/660/EBE og nr. 83/349/EBE, og breytinga á þeim nr. 2001/65/EB og 2003/51/EB, og reglugerðar nr. 1606/2002/EB að því er varðar ársreikninga félaga með takmarkaða ábyrgð og samstæðureikningsskil þeirra.

Í samræmi við reglugerðina sem verið er að innleiða eru í frumvarpinu ákvæði um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla sem verða sérstakur kafli í lögum um ársreikninga. Við innleiðingu reglugerðarinnar hér á landi öðlast texti hennar lagagildi í heild sinni. Af bókun I um altæka aðlögun við samninginn um Evrópska efnahagssvæðið leiðir að reglugerð nr. 1606/2002/EB tekur til allra aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Með alþjóðlegum reikningsskilastöðlum er í þessu sambandi átt við þá reikningsskilastaðla sem IASC hefur þróað og gefið út og þá reikningsskilastaðla sem síðar verða gefnir út af IASB og framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt með formlegum hætti og birt.

Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að við samningu þess hafi þrjú meginmarkmið verið höfð í huga:

1. Að reglugerð Evrópuráðsins og þingsins (EB) nr. 1606/2002, frá 19. júlí 2002, um beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla, verði veitt lagagildi hér á landi.

2. Að taka upp ákvæði tilskipunar nr. 51/2003/ESB, en markmið hennar er að nútímavæða reikningsskil annarra félaga en þeirra sem taka upp alþjóðlega reikningsskilastaðla.

3. Að færa ársreikningalögin til nútímalegs horfs, á sama hátt og Danir gerðu við endurútgáfu ársreikningalaga sinna, sbr. dönsk lög nr. 448/2001.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 1606/2002/EB, eins og hún hefur verið aðlöguð, ber félögum sem hafa verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamörkuðum innan EES að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) við gerð samstæðureikninga sinna fyrir hvert reikningsár sem hefst 1. janúar 2005 eða síðar.

Í frumvarpinu er valin sú leið að ganga öllu lengra en lágmarkskröfur reglugerðarinnar gera ráð fyrir varðandi skyldu félaga til að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IAS/IFRS) og gerir nefndin ekki athugasemdir við það eða sjónarmið sem þar liggja að baki.

Eftirlit með notkun alþjóðlegra reikningsskilastaðla er mikilvægur þáttur en í umsögnum og í máli gesta kom fram mikil gagnrýni á hvernig því er háttað í frumvarpinu. Samþykkti nefndin því að skoða þann þátt sérstaklega.

Nefndin leggur til eftirfarandi breytingar á frumvarpinu:

1. Orðið „ársreikningur“ verði notað í stað „reikningur“ í 8. tölul. 2. gr. eins og annars staðar í lögunum.

2. Skilgreiningu á hugtakinu „settar reikningsskilareglur“ verði bætt inn í frumvarpið frekar en að hún standi aðeins í athugasemdum við frumvarpið.

3. Að orðalag 14. gr. verði gert nákvæmara um við hvaða kringumstæður skuli eignfæra óefnisleg réttindi.

4. Felld verði brott heimild skv. 15. gr. frumvarpsins til að skuldfæra tillögur stjórnar um greiðslu arðs og er það í samræmi við viðteknar venjur. Upplýsingar um tillögur stjórnar geta komið fram sem skýringar við eigið fé og hvaða áhrif það hefur á eigið fé í árslok.

5. 16. gr. laganna falli brott en efni hennar hefur verið tekið upp í ákvæði frumvarpsins.

6. Það verði valkvætt hjá félögum sem eignfært hafa óefnisleg réttindi í samræmi við efni 14. gr. frumvarpsins hvort þessar eignir verða afskrifaðar kerfisbundið í allt að 20 ár eða hvort þær verða metnar árlegar í samræmi við settar reikningsskilareglur alþjóðlega reikningsskilaráðsins.

7. Orðalagi 23. gr. verði breytt og „bókfært verð“ notað í stað „kostnaðarverðs“ og „framreiknaðs kostnaðarverðs“ og það megi hækka til markaðsverðs við þær aðstæður sem tilteknar eru í greininni.

8. Fallið verði frá tvískiptu eftirliti með beitingu alþjóðlegra reikningsskilastaðla. Nefndin leggur til að ársreikningaskrá hafi eftirlit með öllum félögum sem skylt er að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýta sér heimild til beitingar þeirra, sbr. 56. gr. J. Ársreikningaskrá geti krafist upplýsinga og gagna sem nauðsynleg eru til að framkvæma eftirlitið, eins og vinnuskjöl sem varða reikningsskilin frá stjórn, framkvæmdastjóra og endurskoðanda félagsins. Lagt er til að ársreikningaskrá geti kallað til aðila með sérfræðiþekkingu til aðstoðar við eftirlit og jafnframt í einstökum tilvikum falið sérfróðum aðilum eftirlit sem ársreikningaskrá er falið samkvæmt lögum þessum. Það gildir t.d. um Fjármálaeftirlitið að því er varðar þau félög sem Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með. Um slíka framkvæmd yrði þá gerður sérstakur samningur sem m.a. miðaði að því að tryggja samræmi varðandi framkvæmd eftirlits á þessu sviði. Það er einnig lagt til að ársreikningaskrá skuli birta niðurstöður hvers eftirlits sem framkvæmt hefur verið samkvæmt greininni. Lagt er til að innheimt skuli umsýslu- og eftirlitsgjald og skal það gjald vera föst fjárhæð á hvert móðurfélag og föst fjárhæð á hvert dótturfélag innan samstæðu. Gjaldið skal standa straum af kostnaði, m.a. við skráningu félaga sem er skylt að beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum eða nýta sér heimild til þess, sbr. 56. gr. J, kostnaði vegna utanumhalds með ársreikningum og lista yfir félög sem beita alþjóðlegum reikningsskilastöðlum, kostnaði við eftirlit með þeim félögum sem nýta sér heimild, sbr. 56. gr. J, að þau beiti alþjóðlegum reikningsskilastöðlum í fimm ár samfleytt hið minnst,a og kostnaði við að veita upplýsingar og þjónusta almenning vegna þessara félaga.

9. Fjöldi ársverka sem miða skal við skv. 59. gr. laganna verði 50 ársverk en ekki 25.

10. Tenging endurskoðunar við samningu ársreiknings samkvæmt frumvarpinu verði felld brott þar sem það tvennt þarf ekki að fara saman.

11. Orðið „endurskoðunarreglur“ verði notað í stað „endurskoðunarstaðla“ þar sem slíkir staðlar hafa ekki verið innleiddir ólíkt reikningsskilastöðlum.

12. Fjármálaráðherra verði heimilað að gefa út alþjóðlega reikningsskilastaðla sem framkvæmdastjórn ESB hefur samþykkt að verði innleiddir í reikningsskil fyrirtækja sem fara eiga eftir alþjóðlegum reikningsskilastöðlum Alþjóðareikningsskilaráðsins. Verður það gert með birtingu þeirra með reglugerð sem ráðherra setur.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í þingskjali 1251.

Hv. þm. Gunnar Örlygsson sat fund nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkur áliti þessu en áskilur sér rétt til að leggja fram og styðja breytingartillögur við málið.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Ögmundur Jónasson og Helgi Hjörvar skrifa undir álit þetta með fyrirvara.

Undir álitið rita hv. þm. Pétur H. Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Birgir Ármannsson, Gunnar Birgisson, Jóhanna Sigurðardóttir, Lúðvík Bergvinsson, Una María Óskarsdóttir, Ögmundur Jónasson og Helgi Hjörvar.