131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[12:46]

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér fer fram afskaplega áhugaverð umræða. Ég var nýverið á ráðstefnu í Kaupmannahöfn um veikindafráveru starfsfólks, sem var mjög áhugaverð. Þar kom fram að veikindaforföll starfsmanna á vinnumarkaði, t.d. í Noregi og í Svíþjóð, eru gríðarlega mikil. Ein af ástæðunum er t.d. sú að það er mjög erfitt að segja fólki upp. En hér á Íslandi er vinnumarkaðurinn sveigjanlegri þannig að fólk á auðveldara með að ná sér í vinnu og skipta um vinnu. Fólk er frekar veikt í hinum löndunum, frekar en að leita sér að öðrum starfa. Það þorir ekki út á vinnumarkaðinn. Sem betur fer eru Íslendingar mjög vinnusamir og flestir ná sér í vinnu mjög fljótt af því að vinnumarkaðurinn á Íslandi er mjög sveigjanlegur. Ég held að það sé mjög mikilvægt.

Af því að ég minntist á þessa ráðstefnu þá kom þar auðvitað fram, sem við vitum, að Íslendingar vinna allra þjóða mest og allra þjóða lengst. Það er líka mjög merkilegt og skemmtilegt við Íslendinga hvað þeir vinnusamir og hafa mikla ánægju af vinnu sinni. Þess vegna ættum við alltaf að líta til þess að fólk fái að vinna meðan það hefur ánægju og þrek til að starfa. Þess vegna eru sveigjanleg vinnulok afskaplega mikilvæg, bæði að fólk geti hætt fyrr ef það kýs en eins að halda áfram lengur því að nú verður margt fólk 80–100 ára gamalt og hefur oft fullt vinnuþrek langt yfir sjötugt.