131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[13:31]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (frh.):

Hæstv. forseti. Áður en ég gerði hlé á ræðu minni vakti ég athygli á því að í málefnum um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga, sem var til umræðu áðan, eru ágæt ákvæði sem kveða á um að maki hjúkrunarfræðings eigi rétt á 70% af launum við fráfall maka. Ég tel að það séu góð réttindi og sanngjörn.

En í frumvarpinu um Lífeyrissjóð bænda á að lögbinda það að makar bænda eigi við fráfall bóndans aðeins 50% réttindi, eins og segir í 8. gr. frumvarpsins, með leyfi forseta:

„Eftirfarandi breytingar verða á 13. gr. laganna:

a. Orðin „sbr. 3. mgr. 6. gr.“ í 1. mgr. falla brott.

b. 2. mgr. orðast svo: Upphæð elli- og örorkulífeyris skv. 9. og 10. gr. er hundraðshluti af grundvallarlaunum, sbr. 1. mgr., samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum. Upphæð makalífeyris skv. 11. gr. skal vera 50% lægri.“

Hér er verið að lögfesta það með frumvarpinu að eftirlifandi makar bænda fái aðeins 50% af þeim lífeyrisrétti sem bóndinn hefur áunnið sér.

Ég vék að því áðan og vitnaði í svar til hv. þm. Drífu Hjartardóttur frá fjármálaráðherra um að meðalréttindi í Lífeyrissjóði bænda væru sennilega í kringum 17 þús. kr. Hér ætlum við að fara að lögbinda það að makar bænda fái 50% af þeirri upphæð, þ.e. 8.500 kr. ef við tökum meðaltalið í Lífeyrissjóði bænda. Það er kannski rétt að láta þess getið að í svarinu kom fram að mig minnir að hæsta lífeyrisgreiðsla til bænda þegar ekki var talað um örorkubætur er um 45 þús. kr. út úr Lífeyrissjóði bænda.

Ég ætla að endurtaka þau orð mín sem ég sagði áðan, hæstv. forseti, að mig undrar það ef hv. þingkonur, sem oft hafa talað um réttindi kvenna, ætla virkilega að lögfesta þetta með þessum hætti. Ég tala ekki um okkur karlana ef við gætum hunskast til að fylgja þeirri sannfæringu okkar að konur eigi að standa jafnfætis körlum. Mér finnst það vægast sagt mjög slæm þróun að verið sé að festa þetta í lög varðandi Lífeyrissjóð bænda, stétt sem á mjög slök lífeyrisréttindi, að þar geti aðeins orðið um þetta að ræða. Ég tel að við séum að gera ákveðin mistök.

Ég vil líka lýsa þeirri skoðun minni að ég tel almennt að verkalýðshreyfingin í landinu, samtök sjómanna og bændur eigi að krefjast þess að hækka makalífeyrinn upp í það sama og er í lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna og þess að við lagfærum réttindi þeirra en séum ekki alltaf að skerða þau. Það hefur verið gegnumgangandi lagasetning í Alþingi þegar við höfum komið að lífeyrismálum þessara stétta að við höfum frekar verið að skerða réttindin. Frumvarpið gengur m.a. út á það. Það er verið að opna á það að breyta megi ákvæðum er lúti að iðgjöldum sjóðfélaga og það er verið að opna á aldurstengda lífeyristengingu. Ég hef reyndar á seinni árum myndað mér þá skoðun að eftir að við fórum að búa til séreignarsjóði til viðbótar hinum almennu samhjálparsjóðum — en Lífeyrissjóður bænda sem við ræðum hér er samhjálparsjóður sem og Lífeyrissjóður opinberra starfsmanna — eftir að við fórum að búa til séreignarsjóði og greiða sérstaklega til þeirra tel ég enn minni ástæðu til að fara í aldurstengdu lífeyrisréttindin.

Við hljótum að þurfa að spyrja okkur, hæstv. forseti: Hversu mikið ætlum við að draga úr samhjálparreglunni í hinum almennu lífeyrissjóðum? Þó að það megi vissulega finna fyrir því rök að þeir sem greiða lengst í lífeyrissjóðina og greiða þangað inn ungir fái kannski ekki algjörlega fullan útreikning miðað við inngreiðslutímann, þá er ekki eftir svakalega stórum upphæðum að slægjast í því. Ég sá nýlega útreikning varðandi aldurstengdu réttindin í Lífeyrissjóð sjómanna að þessu leyti. Þar munaði hámark einhverjum 6–7 þús. kr. á mánuði eftir því hvort menn voru að taka útreikning tryggingafræðinga á aldurstengdri innvinnslu eða hreinni samhjálparinnvinnslu eins og hefur verið í lífeyrissjóðnum í mörg, mörg ár.

Við megum heldur ekki gleyma því að lífeyrissjóðirnir eru þannig uppbyggðir að þegar einhver fellur frá sem á engan maka og hefur ekki verið í sambúð á enginn rétt til lífeyrisbótanna nema börn undir 18 ára aldri, þau eiga jú rétt. Að öðru leyti erfist ekki neitt úr samhjálparsjóðum. Þar af leiðandi fellur auðvitað talsvert af fé í samhjálparsjóðina eftir þeirri aðferð að fólk deyr án þess að nýta réttindi sín.

Almennt eru samhjálparsjóðirnir byggðir þannig upp að reiknaðar eru út ákveðnar staðreyndir miðað við lífslíkur þjóðarinnar. Þjóðin hefur verið að eldast og fleira fólk lifir lengur þannig að lífslíkurnar eru að aukast. Ef við tökum eitthvert einfalt dæmi og segjum að fólk hafi almennt lifað til áttræðs sem er útreiknaður lífaldur Íslendinga og að fólk megi byrja að taka lífeyri sextugt, eins og dæmi eru um t.d. í Lífeyrissjóði sjómanna og í Lífeyrissjóði hjúkrunarfræðinga, sem ég mun víkja betur að á eftir, þá er það þannig í Lífeyrissjóði sjómanna, virðulegi forseti, að ef við sem höfum starfað á sjó byrjum að taka lífeyri 60 ára tökum við hann með ákveðinni skerðingu sem mig minnir að séu 24% miðað við það að við hefðum annars tekið hann við 65 ára aldur. Útreikningurinn byggir á því að ef tveir menn hafa greitt jafnt í Lífeyrissjóð sjómanna alla sína ævi og eiga þar sömu réttindi og annar byrjar að taka lífeyri 60 ára og hinn 65 ára séu báðir búnir að fá sömu upphæð út úr lífeyrissjóðnum við hinn útreiknaða lífaldur þjóðarinnar sem hefur lengi verið miðaður við 80 ár, eins og ég nefndi. Það skiptir því ekki máli hvort menn byrja að taka lífeyrinn 60 ára eða 65 ára, báðir ná að taka út sömu upphæð úr lífeyrissjóðnum sínum.

Með þeirri aðferð var verið að gera hina svokölluðu 60 ára reglu í Lífeyrissjóði sjómanna hlutlausa, þ.e. verið var að setja það í lög að það skipti ekki máli fyrir heildarútgreiðslu úr sjóðnum miðað við lífslíkurnar hvort sjómaður tæki lífeyrinn 60 ára eða 65 ára, hann mundi enda á sömu upphæð miðað við lífslíkur. Þetta var gert eftir að sú staða kom upp í Lífeyrissjóði sjómanna að ríkið ætlaði ekki að bera neina ábyrgð á þeim lögum sem sett voru á hv. Alþingi um það og var félagsmálapakki til sjómanna á sínum tíma eftir 1980, að sjómenn ættu rétt til lífeyris úr lífeyrissjóði frá 60 ára aldri miðað við að hafa starfað 25 ár til sjós.

Það kom aldrei króna frá ríkinu með þeim lögum. Þau voru sett sem sérstakur félagsmálapakki, eins og ég sagði áðan, og síðan voru ekkert nema endalaus svik á þeirri vegferð sem eftir var. Lífeyrissjóður sjómanna fór í mál við ríkið um þessi atriði og var talið að krafan á ríkið sem aðrir sjóðfélagar höfðu neyðst til að taka á sig væru 1,4 milljarðar kr. Ríkinu var stefnt fyrir það en því miður vannst ekki það mál. Niðurstaðan varð sú að félagsmálapakkinn, gjöfin frá Alþingi á sínum tíma varðandi 60 ára regluna var borguð af öðrum lífeyrissjóðsþegum í Lífeyrissjóði sjómanna upp á 1,4 milljarða kr. Þannig fór um efndina á þeirri gjöf til íslensku sjómannastéttarinnar og var sama við hvaða fjármálaráðherra var rætt á þeim árum sem ég starfaði hjá Farmannasambandinu, það var aldrei hægt að ná krónu upp í þetta loforð.

Ég vildi nefna þetta hér, virðulegi forseti, því að það er oft verið að tala um að við höfum fengið einhver sérstök réttindi og fengið einhverjar sérstakar tilfærslur frá ríkinu. Einu tilfærslurnar sem komu frá ríkinu í Lífeyrissjóð sjómanna var þegar við stunduðum gengisfellingar á árum áður, þá kom stundum nokkur upphæð úr gengismunarsjóði sem sett var í lífeyrissjóðinn. En búið var að taka tillit til þeirrar inngreiðslu þegar krafan um 1,4 milljarðana var sett fram.

Hæstv. forseti. Ég geld mikinn varhuga við hinni aldurstengdu útfærslu sem verið er að leggja til í lífeyrissjóðunum og finnst að það þurfi að skoða þá hugsun miklu, miklu betur og tillögur áður en menn fara að framkvæma þær almennt. Ég geri mér grein fyrir að lífeyrissjóðirnir eru því miður á fullri ferð að setja svona reglur. Ég hefði viljað að málið væri gaumgæft miklu betur og sé ekki ástæðu til þess, eins og ég sagði áðan, eftir að þeir eru farnir að taka upp greiðslur í séreignarsjóði að vinna áfram að því að skerða sameiginlegu samhjálparréttindin í þeirri deild lífeyrissjóða sem eiga að byggja á samhjálp.

Það er annað atriði sem ég held að skipti miklu máli að við ræðum í sambandi við lífeyrislöggjöfina og lífeyrisreglurnar og það er örorkuþátturinn. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vék réttilega að honum í morgun og minnti á það að örorkuþátturinn er mjög mismunandi eftir því í hvaða lífeyrissjóðum menn eiga réttindi og eftir því í hvaða starfsgrein þeir hafa starfað. Öfgafyllsta dæmið sem ég man eftir, get rifjað það upp eftir minni, var samanburðurinn á Lífeyrissjóði sjómanna annars vegar, sem greiðir um 45% í örorkuþáttinn, og hins vegar Lífeyrissjóði starfsmanna Búnaðarbankans sem ég held að hafi greitt 0,2% eða einhver örfá prósent, langt innan við 10% í örorkubætur á þeim tíma sem ég skoðaði tölurnar. Þetta dregur það fram að örorkan er auðvitað meiri hjá þeim sem þurfa að leggja á sig talsvert líkamlegt erfiði við vinnu sína og þegar það er mikil áhætta við störfin og menn sitja uppi með það.

Þá kemur auðvitað grundvallarspurningin, hæstv. forseti: Er það ásættanlegt að starfsstéttir landsins séu settar á svo mismunandi stall í réttindum sínum að sumir lífeyrissjóðir skuli bera framreikningin af örorkuþættinum óbættan með þeim hætti sem reglur lífeyrissjóðanna segja til um en að aðrir lífeyrissjóðir, vegna þeirra starfsstétta sem þar eru og vegna þess að störfin eru allt annars eðlis, þurfi ekki að bera þennan þátt? Ég held að það sé kominn meira en tími á það og miklu nær að skoða það og reyna að átta sig á því hvort ekki þurfi að jafna þessi réttindi í lífeyrissjóðunum hvað varðar örorkuþáttinn. Ég held að hér hefði líka þurft að ræða örorkuþáttinn í sambandi við Lífeyrissjóð bænda að ég tali ekki um Lífeyrissjóð sjómanna.

Það liggur algerlega fyrir að það er margt sem við þurfum að skoða varðandi lífeyrismál þjóðarinnar, ef við erum á annað borð að leitast við að láta fólk sitja við sama borð. Það hlýtur að vera hlutverk okkar því að jafnrétti þegnanna er tryggt í stjórnarskrá. Við hljótum að leitast við að þegnar landsins búi ekki við geysilega misjafna stöðu varðandi réttindi sín þegar þeir hafa lokið ævistarfi sínu og að í einum lífeyrissjóði þurfi ekki endalaust að skerða réttindi, m.a. til þess að taka á kostnaði sem hlýst af örorkuþættinum, en í öðrum sé hægt að hækka réttindi vegna þess að þar er örorkubyrðin sáralítil. Þetta er mál sem mér finnst þurfa að taka til mjög gaumgæfilegrar skoðunar, virðulegi forseti.

Ég tek undir það sjónarmið sem kom fram í máli hv. þm. Ögmundar Jónassonar í morgun að að það eigi að sækjast eftir því að starfsstéttir í landinu greiði meira í lífeyrissjóð frekar en minna til að tryggja réttindi sín í ellinni. Það er auðvitað sú þróun sem hægt og rólega hefur átt sér stað hér á landi og opinberir starfsmenn hafa haft forustu þar og allt gott um það að segja. Ég mælist til þess að aðrar starfsstéttir líti til þeirra réttinda sem opinberir starfsmenn hafa og sæki á um að ná réttindum sínum upp að þeim réttindum, en ekki öfugt að stefna að því að skerða réttindi starfsmanna ríkisins til að jafna þau til móts við þau réttindi sem eru í hinum almennu lífeyrissjóðum.

Ég hafna því, hæstv. forseti, að við lögbindum það í þessu frumvarpi um Lífeyrissjóð bænda að makar bænda skuli hafa 50% makalífeyri. Ég er búinn að nefna stöðu bændastéttarinnar varðandi lífeyrismál og hún er ekki neitt til að hrópa húrra fyrir og langur vegur í að bændastéttin nálgist þann gullvagn sem ríkissáttasemjari, Ásmundur Stefánsson, minntist á að ellilífeyrisþegar í landinu stæðu frammi fyrir á komandi árum. Það er langur vegur í að það náist hjá sumum starfsstéttunum.

Ég vek athygli á því að við fjöllum hér um tvö lífeyrismál, annars vegar um lífeyrismál hjúkrunarfræðinga, sem ég er algjörlega samþykkur, og hins vegar frumvarp þetta um Lífeyrissjóð bænda. Ég held það skjóti svolítið skökku við, virðulegi forseti, þegar við annars vegar skoðum Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga sem tryggir mökum 70% makalífeyri, að við séum þá hins vegar að lögfesta 50% makalífeyri hjá bændastéttinni. Við eigum jú að gæta þess að allir séu jafnir fyrir lögunum í landinu og lögin mismuni ekki fólki og starfsstéttum. Eins og ég sagði áður kann það að vera arfur frá eldri tíð varðandi lögin um hjúkrunarfræðinga, því að vafalaust hafa makar hjúkrunarfræðinga lengst af verið karlmenn, þetta var kvennastétt þó að það sé kannski að breytast.

Hæstv. forseti. Mér finnst ástæða til að ræða annan þátt þessara mála en það eru tryggingabætur almannatrygginga og tenging lífeyrisréttinda og lífeyrisinnvinnslu við bætur úr almannatryggingum. Nú er það þannig að þegar fólk hefur töku úr lífeyrissjóði skerðast hinar samsettu bætur, lágmarksbætur almannatrygginganna, samkvæmt reglu sem nú er í gildi og er 0,45% skerðing, var áður 0,67%, en var lækkað sem betur fer fyrir nokkrum árum en samt sem áður er það svo að nánast önnur hver króna sem fólk fær úr lífeyrissjóði sínum tapast með beinni skerðingartengingu við almannatryggingakerfið og bæturnar sem þar eru greiddar. Eigi fólk lífeyrisréttindi, sem við erum ekki að tala um í þessu tilfelli varðandi Lífeyrissjóð bænda þar sem hæsti lífeyrisþeginn er með 45 þús. kr., ef staða fólks er sú að það eigi t.d. 110 þús. kr. lífeyrisrétt þá fer staðan að verða sú varðandi réttinn úr tryggingunum að sá lífeyrisréttur er nánast búinn að eyða upp öllum almannatryggingabótunum, hinum samsettu lágmarksbótum ellilífeyrisþegans.

Eins og fólk veit eru hinar samsettu bætur ellilífeyrisins samsettar úr grunnlífeyri, sem er að mig minnir u.þ.b. 23 þús. kr., tekjutryggingu sem er u.þ.b. 45 þús. kr. og síðan á fólk rétt á sérstakri heimilisuppbót og getur þar að auki átt til viðbótar rétt á sérstakri tekjutryggingu. Það er oft talað um að bætur einstaklings, samsettar lágmarksbætur einstaklings geti hæstar orðið í kringum 93 þús. kr. (Gripið fram í: Lægstar.) Lægstar, vildi ég sagt hafa, samsettar lágmarksbætur. Ef viðkomandi aðili á hvergi neins staðar rétt í lífeyrissjóði þá er það greiðslan sem kemur frá Tryggingastofnun. Eins og ég gat um áður að fái fólk 10 þús. kr. úr lífeyrissjóði byrjar skerðingin að virka, að mig minnir. Ég man ekki eftir að sé nein upphæð sem fólk má þéna eftir að skerðingunni var breytt í 0,45% (Gripið fram í.) 48 þús. upplýsir hv. þingmaður. Til er ég í að skoða það, alltaf skal hafa það sem sannara reynist, en svona er staðan, hæstv. forseti.

Mér finnst einnig þurfa að skoða það í Lífeyrissjóði bænda, sem við ræðum hér, þegar því er velt hér upp að taka upp aldurstengda réttindainnvinnslu. Eins og ég gat um áður tel ég að það þurfi að skoða miklu betur almennt séð, ekki bara varðandi Lífeyrissjóð bænda.

Ég hygg að það sé líka svo, hæstv. forseti, að bændakonur hafi minni lífeyrisrétt almennt en karlkyns bændur. Við erum því ekki að tala hér um 17 þús. kr. að meðaltali, heldur eitthvað verulega minna en það.

Síðan er rétt að segja frá því til upplýsingar af því að við erum að fjalla hér um tvö frumvörp um lífeyrissjóði á sama deginum, annars vegar Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga og hins vegar Lífeyrissjóð bænda, að í 22. gr. laga um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga segir, með leyfi forseta:

„Þrátt fyrir ákvæði 1. og 4. mgr. 8. gr. á sjóðfélagi, sem náð hefur 55 ára aldri við gildistöku laga þessara, rétt á lífeyri frá næstu mánaðamótum eftir að hann verður 60 ára, enda hafi hann þá látið af þeim störfum …“ o.s.frv.

Þetta er auðvitað regla sem sett var inn á sínum tíma þegar þessi lög voru sett. En þarna var verið að tryggja að hjúkrunarfræðingar gætu tekið óskertan lífeyri frá 60 ára aldri. Ber að fagna því að slík réttindi skuli hafa verið sett inn í lögin um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga á sínum tíma. Menn hafa verið framsýnir þar að hugsa til þess að tryggja þessi réttindi í lögum án þess að um skerðingu á réttindum væri að ræða.

Virðulegur forseti. Það sem ég hef gert að umtalsefni í þessu máli er að draga það fram að réttur fólks eftir starfsstéttum hér á landi er mjög misjafn. Ég hef þá tilhneigingu, sem gamall forustumaður í stéttarfélagasamtökum, að vilja frekar sækja á um réttindi fyrir þær stéttir sem lakar eru staddar en að ljá því máls að keyra niður réttindi þeirra sem hafa betri réttindi til að jafna þau við þá sem lakar eru settir. Ég vil árétta það við lok ræðu minnar að þó að ég hafi verið að benda á lögin um Lífeyrissjóð hjúkrunarfræðinga er ég alls ekki að draga þá umræðu hér inn vegna þess að ég vilji skerða þau réttindi. Ég hefði miklu frekar viljað að við stefndum að því með lagasetningu eða öðrum aðgerðum að tryggja að aðrar stéttir gætu nálgast sams konar rétt og að makalífeyririnn væri 70% eins og í lögum um hjúkrunarfræðinga.

Það hefði auðvitað verið fróðlegt ef upplýst hefði verið úr þessum ræðustól hver makalífeyririnn í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins er — ég hef því miður ekki lögin um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins fyrir fram mig — það hefur kannski einhver þingmaður sem kemur hér í ræðustól síðar þá tölu í minni sínu þannig að það verði upplýst.

Ég hefði talið að eðlilegt að sækjast eftir betri réttindum en ekki að vinna sífellt í þá veru að skerða réttindi. Ég er andvígur þeirri stefnumótun að við séum að draga úr réttindum í lífeyrissjóðunum.

Ég hef nú að mestu leyti vikið að því, hæstv. forseti, sem ég vildi ræða varðandi þetta mál. Í lok ræðu minnar vil ég segja að ég tel að við alþingismenn eigum að skoða þessa stöðu, hvort okkur er stætt á því að setja þegnunum svo mismunandi lög, hvort við verðum ekki að horfa til þess að hífa frekar upp þær stéttir sem lakar eru settar og láta þær hafa betri réttindi hvað varðar makalífeyri og lífeyrisréttindi almennt og horfa til þess að lagfæra stöðu bændastéttarinnar, lagfæra stöðu sjómanna, m.a. að því er varðar örorkukostnað lífeyrissjóðanna, og reyna að tryggja að við horfum ekki upp á þá stöðu eins og mér sýnist staðan í Lífeyrissjóði sjómanna vera, að þar geti menn dáið frá innvinnslu réttinda sinna upp á nokkuð góðar upphæðir, jafnvel hátt í 200 þús. kr. lífeyrisrétt, án þess að eftirlifendur eigi rétt til þeirra nema maki í þrjú ár full réttindi og síðan hálf í þrjú ár í viðbót. Ég held að það sé óásættanlegt.

Það hefur auðvitað verið þannig að eiginkonur sjómanna hafa oft verið heimavinnandi, gætt bús og barna og hafa ekki eignast sérstök lífeyrisréttindi. Þess vegna er svona regla enn ósanngjarnari gagnvart eiginkonum sjómanna sem hafa kannski á langri starfsævi ekki starfað úti á vinnumarkaðnum.

Ég held að ég láti þetta nægja við þessa umræðu en furða mig svolítið á því að nefndarmenn í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, sem fjölluðu um þetta lagafrumvarp um Lífeyrissjóð bænda, skuli ekki hafa staldrað við þessa 50% reglu sem verið er að festa í lög að því er varðar maka bænda, sérstaklega með tilliti til þess hversu réttindi bændanna eru algjörlega út úr öllu korti eins og kom réttilega fram í svari við fyrirspurn hv. þm. Drífu Hjartardóttur þegar fjármálaráðherra svaraði því hver réttindi bænda væru. Ef eiginkonurnar eiga svo að fá 50% af 17 þús. kr., sem er meðaltalið, þá sjá allir hvaða rétt við erum að tryggja þeim.

Ég segi það alveg í fúlustu alvöru: Ég skora á alþingiskonur í þessum þingsal að skoða þetta mál upp á nýtt, fara fram á það.