131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:39]

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Hér hefur farið fram ágæt og fróðleg umræða um lífeyrismál almennt en tilefnið er þingmál sem lýtur sérstaklega að Lífeyrissjóði bænda. Sannast sagna hafði ég ætlað að sýna fyrirhyggju með því að kveðja mér hljóðs af því að ég sá að hv. þm. Pétur H. Blöndal var kominn á mælendaskrá og taldi líklegt að ég hefði einhverju þar við að bæta. En hann sem formaður efnahags- og viðskiptanefndar ætlar greinilega að hafa síðasta orðið og er ekkert nema gott um það að segja. Það má vel vera að ég eigi eftir að koma upp í andsvari við hann.

Ég vil taka undir orð hv. þm. Jóns Bjarnasonar um mikilvægi þess að huga að málefnum Lífeyrissjóðs bænda. Lífeyrissjóðurinn hefur staðið höllum fæti og það er mjög mikilvægt að hið opinbera komi að stuðningi við þann lífeyrissjóð og löggjafanum ber að skoða alla lagaumgjörð sem snerta réttindi og kjör íslenskra bænda. Ég vil taka undir þau orð og þá hvatningu hv. þm. Jóns Bjarnasonar.

Annað sem hann sagði og ég er einnig alveg sammála er að það er nauðsynlegt að stefna að því að jafna lífeyriskjörin í landinu en þó þannig, og á það legg ég ríka áherslu, að þessi jöfnun eigi sér stað upp á við, að kjör þeirra sem eru lakari verði færð að því sem best gerist í landinu og þá er ég kannski fyrst og fremst að horfa til opinbera lífeyriskerfisins.

Það urðu mikil átök um lífeyrismál á níunda áratugnum og fram yfir miðjan tíunda áratuginn, en þá var sett ný rammalöggjöf um lífeyrissjóði og lífeyrissjóður opinberra starfsmanna fór einnig inn í nýtt lagaumhverfi. Gamli tíminn er því smám saman að fjara út, þ.e. B-deild svokölluð í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, en nýtt fyrirkomulag er tekið við sem byggir á sömu grunnprinsippum, grunneigindum og aðrir lífeyrissjóðir í landinu. Þannig gerist það að þróunin er öll í sömu átt en barátta launafólks fyrir traustum lífeyrissjóðum hefur orðið þess valdandi að lífeyrisréttindin hafa almennt verið bætt en ekki úr þeim dregið eins og margir hafa viljað.

Um það stórmál sem komið er að hér, aldurstengingu lífeyrisréttinda, átti ég kannski það eitt ósagt í fyrri ræðu minni að ég hef grun um að þeir sem vilja færa lífeyriskerfið í átt að einstaklingsbundnum samningum séu áhugasamir um þessar breytingar. Hvers vegna? Vegna þess að við færumst nær því að horfa á iðgjöld, ávöxtun og réttindi hvers einstaklings. Við stígum ekki það skref til fulls að sjálfsögðu með slíkri breytingu, aldurstengingu lífeyrisréttinda. Við erum þar fyrst og fremst að tala um hópa. En verður og yrði þar látið staðar numið? Einhvern tíma hefur verið vísað í það að konur lifa almennt lengur en karlar. Eiga þær fyrir bragðið að hafa rýrari lífeyrisrétt? Nei, ég held ekki. Það er nefnilega viljinn í landinu að halda samtryggingarkerfinu sem traustustu.

Margir séreignarhyggjumenn, þeir sem vilja fara með lífeyriskerfið í áttina að séreignarsparnaði, telja sig mjög klóka fyrir sína eigin hönd, að þeir tryggi sjálfum sér betri réttindi. Þetta er alrangt. Þeir eru hins vegar afskaplega velviljaðir afkomendum sínum. Þeir munu sjálfir fá minna í sinn hlut þegar þeir komast á lífeyri, einfaldlega vegna þess að þeir fá í sinn hlut réttindi sem sá sem fellur frá skilur eftir. Þess vegna er samtryggingin traustari og þess vegna verður lífeyrir til þeirra sem lifa hærri. Í séreignarkerfinu skilja menn þetta eftir inn á séreignarreikningum og þegar þeir falla frá þá fá afkomendur þeirra að njóta þess.

Séreignarfyrirkomulagið rýrir ellilífeyri þeirra sem fara á ellilífeyri en fyrir bragðið skilja þeir hugsanlega meira eftir til afkomenda sinna. Menn eru því ekkert afskaplega klókir fyrir eigin hönd þegar allt kemur til alls. Þessi hugsun, að sundurgreina einstaka hópa og síðan einstaklinginn, hnígur öll í þessa átt. Ég hef um þetta miklar efasemdir.

Varðandi makalífeyrisréttinn þá hefur hann tekið breytingum. Hann breyttist t.d. í opinbera kerfinu og eins er það reyndar með barnalífeyrinn. Þær breytingar voru að mörgu leyti til góðs tel ég hafa verið. En sú leið sem var farin í opinbera kerfinu, í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins varðandi makalífeyri, var að þar var sett eins konar sólarlag inn í kerfið, eins konar brú á milli kynslóða. Þar hugsuðu menn sem svo:

Við erum að fara inn í samfélag þar sem báðir aðilarnir, karlinn og konan, eru útivinnandi. Það er af sem áður var, að konur væru heima og nytu ekki lífeyrisréttinda. Þetta er að breytast og fyrir bragðið voru menn reiðubúnir að breyta makalífeyrisréttinum en viðurkenndu að þarna væri ekki saman að jafna eldri kynslóðinni og hinni yngri.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta núna. Ég beini þeim varnaðarorðum til allra þeirra sem véla um málefni lífeyrissjóðanna að taka ekki ákvarðanir um aldurstengingu lífeyrisréttindanna án þess að um það fari fram mjög ítarleg umræða.

Af því ég sé að framkvæmdastjóri Sjúkraliðafélags Íslands er á þingpöllum þá vil ég hrósa því félagi og málgagni þess fyrir rækilega og vandaða úttekt á lífeyrismálum. Þar er sérstaklega vakin athygli á aldurstengingu lífeyrisréttinda og farið mjög kerfisbundið í þá umræðu. Í blaðinu er m.a. rætt við Hrafn Magnússon, framkvæmdastjóra Landssamtaka lífeyrissjóða, og fleiri aðila. Þar er hreyft umræðu sem ég tel að eigi að fara fram í þjóðfélaginu almennt. Við höfum tekið hana upp á vettvangi samtaka launafólks, verið með ágæta umræðu innan BSRB, en hún er rétt að hefjast og henni er sannarlega ekki lokið af okkar hálfu.