131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[14:50]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir að lýsa því almenna viðhorfi að lífeyrisréttindi bænda séu ekki einvörðungu á þeirra ábyrgð heldur beri samfélagið allt ábyrgð á málum þeirra.

Hvaða leiðir nákvæmlega skuli fara til að treysta lífeyriskjör bænda og lífeyrissjóði þeirra kann ég ekki að nefna en ég get hins vegar nefnt leiðina sem má fara að því marki. Hún byggir að sjálfsögðu á nánu samstarfi og samvinnu við samtök bænda. Ég held að þar eigi að hafa sömu vinnureglu og við viljum hafa í Samtökum launafólks, að efnt sé til náins samráðs með bændum og fulltrúum þeirra og síðan ríkisvaldinu um leiðir að þessu marki. Ég tel reyndar að skoða þurfi margt í kjaraumhverfi bændastéttarinnar. Þetta væri vissulega einn mjög mikilvægur liður í slíkri endurskoðun.