131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:05]

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég hef verið að reyna að ráða í þennan málflutning og ég hef velt því fyrir mér hvort hv. þm. Pétur H. Blöndal sé óvenjulega hugrakkur eða óvenjulega dómgreindarlaus maður. Ég hallast helst að hinu síðarnefnda.

Hann stillir dæmi sínu þannig upp að almennt launafólk á ASÍ-markaðnum sé að greiða fyrir launafólkið í opinbera kerfinu. Þetta er hræðilegt ranglæti, segir hann, og úr þessu þarf að sjálfsögðu að bæta.

Nú langar mig til að spyrja hv. þm. Pétur H. Blöndal: Hvernig greiddi hann atkvæði í þingmannafrumvarpinu þar sem hann skammtaði sjálfum sér og ráðherrunum réttindi sem eru ekki að nokkru leyti sambærileg við það sem tíðkast í þjóðfélaginu, hvorki á almennum vinnumarkaði né á hinum opinbera? Ráðherra í ríkisstjórninni ávinnur sér 6% á ári. Fólk í B-deild Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins ávinnur sér 2% af grunnlaunum og í A-deildinni 1,9% af heildartekjum. Í almennum lífeyrissjóðum er þessi ávinnsluprósenta 1,4–1,6%, á því bili. Hana þyrfti að bæta, tel ég, og það þyrfti að hækka einfaldlega iðgjöldin sem þessu nemur vegna þess að ég er því fylgjandi að fólk leggi til efri áranna.

Ég vek athygli á þessu furðulega misræmi í málflutningi hv. þingmanns, þessum furðulega dómgreindarskorti þegar hann setur mál sitt fram. Eða er hv. þingmaður ekki hluti af þessu samfélagi? Eiga að gilda allt önnur rök um hann (Forseti hringir.) og þá sem verma stólana í þessum sal? Hvers vegna þessar kveðjur til almenns launafólks á Íslandi?