131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:07]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú taka fram að þetta er ekkert persónulegt. (ÖJ: Nú, ekki persónulegt.) Það getur vel verið að ég sé dómgreindarlaus en ég studdi frumvarpið um Lífeyrissjóð þingmanna á sínum tíma vegna þess að kjör flestra þingmanna eru skert með því, þeir borga hærra iðgjald, 5% í staðinn fyrir 4%, og þetta er ákveðin samræming sem gerir það léttara að breyta lífeyrisréttindum þingmanna yfir í það sem er hjá almennum launþegum. Ég hef í tvígang flutt frumvörp um það að lífeyrisréttindi þingmanna verði eins og hjá almenningi í landinu. (ÖJ: Það er sýndarmennska.) Ég hef í tvígang flutt það frumvarp. Hv. þingmaður hefur aldrei flutt frumvarp um það, aldrei nokkurn tíma. (ÖJ: Sýndarmennska.) Hv. þingmaður hefur aldrei flutt frumvarp um að lífeyrisréttindi þingmanna verði skert eða minnkuð. Ég hef hins vegar flutt um það frumvarp í tvígang og það er engin sýndarmennska. Ég barðist fyrir því að fá það samþykkt og ég mun flytja það væntanlega aftur, þannig að ég vil að þingmenn séu með lífeyrisréttindi eins og almenningur í landinu.

Hins vegar eru öll laun opinberra starfsmanna greidd með sköttum eða útsvari þannig að þau eru greidd af almenningi og fyrirtækjum í landinu og það sem fyrirtækin greiða í skatt geta þau ekki greitt í laun. Við erum því að segja að launafólk í landinu stendur undir skattgreiðslum beint eða óbeint og þegar opinberir starfsmenn búa við þannig kerfi að réttindin eru föst en iðgjaldið breytilegt munu álögur á almenning hækka þegar þarf að skerða lífeyri hjá almennu sjóðunum. Ef ávöxtun á markaði fer niður fyrir 3,5%, sem ég vona að gerist ekki en allt stefnir í, þá fáum við eina tímasprengjuna enn þegar við þurfum að auka álögur á hið vinnandi fólk, fólkið sem er að koma upp börnum og húsnæði og á stundum ekkert voðalega gott og hefur stundum ekki mikil auraráð þegar þarf að hækka álögur á það fólk til að borga hin föstu lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna á sama tíma og lífeyrisréttindi þess eru skert.