131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:12]

Frsm. efh.- og viðskn. (Pétur H. Blöndal) (S) (andsvar):

Herra forseti. Í tvígang hef ég flutt frumvörp um að lífeyrisréttindi þingmanna verði eins og gerist í almennu sjóðunum en að þeir fái launahækkun sem því nemi. Það að ég studdi frumvarp til þingmanna var að það frumvarp gerir réttindi þingmanna sambærilegri við almenna markaðinn að einhverju leyti og auk þess var ég akkúrat á mörkunum að ég hvorki græddi né tapaði á breytingunni. Yngri þingmenn töpuðu á henni og eldri þingmenn græddu en (ÖJ: En ráðherrar?) reyndar er það valkvætt. Ráðherrar græddu töluvert mikið sumir hverjir.

En ég hef alla vega í tvígang flutt frumvörp um að breyta þessu en hv. þingmaður hefur aldrei flutt frumvarp um þetta og ekki þingsályktunartillögu né nokkurn skapaðan hlut um lífeyrismál. (ÖJ: Sýndarmennska.)

Að þetta sé gamaldags og úrelt sjónarmið, auðvitað vinna opinberir starfsmenn mjög þarft verk og ég er ekkert að gera lítið úr starfi þeirra, alls ekki, þeir vinna sumir hverjir afskaplega vel. (Gripið fram í.) Herra forseti, get ég fengið frið til að halda ræðuna fyrir persónulegum …

(Forseti (BÁ): Ég bið hv. þingmenn að gefa ræðumanni tækifæri til að ljúka máli sínu.)

Að þetta sé gamaldags og úrelt sjónarmið, það er bara þannig að opinberir starfsmenn fá laun sín með skatttekjum, það er sama hvernig menn snúa því og venda. Þeir vinna margir mjög þarft starf og standa virkilega fyrir sínu þannig að þeir þurfa ekkert að skammast sín fyrir það. En þegar menn eru stöðugt að gera kröfur á ríkissjóð um að bæta stöðu Lífeyrissjóðs bænda, bæta stöðu Lífeyrissjóðs sjómanna o.s.frv. þá verða þeir að átta sig á því að þeir eru að gera kröfu á hinn vinnandi mann hvort sem það er opinber starfsmaður eða ASÍ-maður. (Gripið fram í.)

Um almennan fund, ég veit ekki hvort aðalfundir ASÍ eru almennir fundir, það er kannski einhver lokuð klíka. En þeir hafa verið að ræða um lífeyrismál aftur og aftur og þeir hafa haft í gangi lífeyrisnefndir þannig að mér finnst hv. þingmaður gera heldur lítið úr starfi þeirra.