131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:14]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við þjóðfélagsþegnar greiðum geysilega margt með sköttum, það er einfaldlega svo, hv. þm. Pétur H. Blöndal. Við kaupum þjónustu opinberra starfsmanna og greiðum hana með þeim tekjum sem ríkið hefur, þar á meðal sköttum. Ég veit ekki betur en að menn séu nokkuð sammála um að við þurfum þá þjónustu sem opinberir starfsmenn veita okkur í þjóðfélaginu, hvort sem það er á heilbrigðissviði eða á öðrum sviðum þjóðfélagsins, menntasviði, almennri opinberri þjónustu, þjónustu sveitarfélaga o.s.frv. Það er bara eins og það er og breytir ekki, finnst mér, umræðunni að við munum alltaf kaupa þjónustuna á því verði sem hún er á.

Það er hins vegar rétt að minna á að fyrr á árum voru laun opinberra starfsmanna yfirleitt lægri en á almenna vinnumarkaðnum. Vegna hvers? Vegna þess að menn sögðu að opinberir starfsmenn — sem rétt var — hefðu miklu betri lífeyrisrétt en aðrir landsmenn. Þetta veit hv. þingmaður alveg jafn vel og ég, að lífeyrisréttindi opinberra starfsmanna voru miklu betur tryggð en annarra launþega.

Við tölum um frumvarpið um Lífeyrissjóð bænda og reynum að tryggja stöðu þeirra. Ég vil spyrja: Hvers vegna setjum við ekki inn 8% í staðinn fyrir 6%, eins og nánast allar aðrar stéttir í þjóðfélaginu hafa verið að semja um? Hvers vegna er það, hv. þingmaður? Við þurfum jú vissulega að taka á stöðu bænda og ég geri mér grein fyrir hvaðan þessi 2% til viðbótar mundu koma. (Forseti hringir.) En þannig er það bara.