131. löggjafarþing — 121. fundur,  3. maí 2005.

Lífeyrissjóður bænda.

696. mál
[15:18]

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var gott að hv. þingmaður vék að skattbyrðinni í lok máls síns, því að við vorum einmitt að gera skattalækkanir sem hv. þingmaður var afar ánægður með. Hvernig komu þær út? Þær komu langbest út fyrir þá sem hafa hæstu launin sem þýðir að þeir sem hafa lægri laun bera hlutfallslega hærri skattbyrði.

Ég verð að segja alveg eins og er að það fer svolítið í taugarnar á mér þegar hv. þm. Pétur H. Blöndal er að tala um að þessi stétt eða hin borgi. Það sem við kaupum í samneyslu fyrir ríkið og greiðum með sköttum eða öðrum kvöðum sem lagðar eru á þegna landsins, hvort sem það eru fyrirtæki eða einstaklingar, er auðvitað allt borgað með sköttum og tekjum. Það er ekki verið að leggja hlutfallslega meira á eina stétt en aðra nema vegna þess að skattkerfið er uppbyggt eins og það er og hv. þingmaður vildi alls ekki hækka persónuafsláttinn til þess að jafna tekjudreifinguna í landinu svo að þeir sem hafa lægri tekjur hefðu það betra en þeir hafa það í dag. Það var farið akkúrat hina leiðina, að fella hátekjuskattinn niður og lækka svo flatt prósentu á skatta. Þannig var verið að lækka sérstaklega skatta hjá þeim sem hafa hærri tekjur. Þetta veit hv. þingmaður prýðilega, töluglöggur maðurinn. Þannig er það bara.

Ég held því að hægt væri að snúa umræðunni yfir í að tala um það sem þeir menn sem ráða hafa verið að aðhafast í þessum þingsal. Þeir hafa verið að færa til álögurnar af hátekjufólkinu yfir á lágtekjufólkið. Það er ekki hægt að mótmæla því, hv. þingmaður.